Manifestó fyrir reykvíska verkakonu í upphafi 21aldar

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Þú trúir á að gera allt strax því tíminn er allt og konan ekkert, hún er í mesta lagi hræ tímans og það er best að flýta sér því þú veist aldrei hvaða andskotans rugl gerist, en þú veist að það er vinna sem þarf að vinna, að það er gólf sem þarf að skúra, að það er Bónus sem þarf að fara í, að það er reikningur sem þarf að borga, að það er þvottur í vélinni, að það er matur sem þarf að elda, að það er strætó sem er að fara, að það er einkabanki sem er tómur, að það er Visa sem þarf að skipta, að það er peningur sem klárast, að það eru mánaðarmót sem hljóta að koma:

Þú ert hræ mánaðarmótanna, hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað, í Flokkun og Pökkun; þú færð umþb. 30 stykkjum úthlutað í einu og með þeim útfyllt skuldabréf: Undirrituð skuldbindur sig til að láta tvöhundruð og fimmtíuþúsund kallinn duga, eða verður að öðrum kosti dæmd til að A) sníkja pening hjá mömmu sinni og ef mamma á ekki pening eða er dauð, B) taka út refsingu í röðinni hjá Fjölskylduhjálpinni og hafa soðinn fisk í matinn á jólunum.

Þú trúi á að gera allt strax af því þú veist að það er húsnæðismarkaður, það er atvinnumarkaður, það er útsölumarkaður, það er útsölumarkaður á þér og þar er hægt að fá þig ótrúlega ódýrt, í mannakjötsbúðinni Íslenskur atvinnumarkaður er hægt að fá kjötfarsið þig á verði sem allir hafa efni á, 365 daga ársins ertu á ÓTRÚLEGU TILBOÐSVERÐI sem allir hafa efni á, enginn þarf að neita sér um þig; ef það er eitthvað sem sameinar á Íslandi er það markaðsvirði þitt.

Þú veist að þín hönd er vinnuhönd; uppvöskunarhönd, skeinihönd, skúringahönd, eldhúshönd, þjónustuhönd, tuskuhönd, afgreiðsluhönd, þú veist að hún er Konuhönd en það sem hún hefur handverkað sig í gegnum Mannkynssöguna, eða nei, ekki beint mannkynssöguna heldur kellingasöguna, eða nei, ekki sinni kellingasöguna heldur ósögðu söguna, ósýnilegu söguna, það var einu sinni kelling og hún hét Pálína, það eina sem hún átti var ein króna á sparireikningnum og Íbúfen, og tvær sýnilegar vinnuhendur af því hún var svo vitlaus að hún kunni ekki að breyta þeim í Ósýnilegar hendur sem Ó Guð, þær stýra stjarna her og stjórna veröldinni.

Þú veist að peningadraumar eru Lottódraumar; af því þú ert komin af léttasta skeiði og það er best að vera raunsæ og það er róttæknislega-rökkhyggjulega-raunsæislega líklegra í Jesú heilaga nafni að þú fáir sjö miljón króna vinning út á miðann sem þú keyptir í Vape-sjoppunni með fyndna stráknum en að þú hljótir náð fyrir augum atvinnumarkaðarins og allra hans aðila, að þeir segi: Hvað með kjötfarskellingarnar, eigum við að láta þær fá eitthvað smotterí? og ákveðið verði með handsali og tárvotum hvörmum að borga þér eitthvað almennilegt fyrir vinnuna í stigveldi ránlífsins.

Ef þú ert í ævintýragjörnu og svolítið æstu skapi prófarðu stundum, ein uppí rúmi, að hugsa um Víkingalottó og pottinn sem stendur í 743 miljónum en þá er best að fara varlega í órunum svo þú endir ekki í þríeyki með auðvaldsprinsunum tveimur og farir að stynja Mossack Fonseca í koddann.

Þú veist að þú ert hin hóflega krafa holdi klædd, þú ert líkamning, kraftbirting, formbirting, þú ert hlutgerð sem Hendur, þú ert Eva í sköpunarsögunni um Kapítalið; Mikla mun ég gjöra niðurlægingu þína, er þú verður kona í Arðráninu. Með þraut skalt þú vinna alla æfi en aldrei neitt eignast, þú verður kölluð Ósýnileg, þú skalt rogast um með fjölskylduna í fanginu og samfélagið á herðunum en hann skal drottna yfir þér sem Auðvald skal kallaður.

Það er alltaf best að segja satt: Þú ert ílát fyrirlitningar og niðrunnar hins kapítalíska feðraveldis, og þá er sannleikurinn svoleiðis að þú ákallar hina margarma gyðju um leið og þú horfir í spegilinn; ó mikla gyðja með margar hendur, heilög Pússífer, Kvenberi, Kvenbjörg, burtrekin, niðurköstuð, jaðarsett, -undirokuð þjóðanna-, Múltítasker veraldar, með hönd fyrir hvert unnið verk; krafsaðu þig til mín í gegnum aurskriður, snjóflóð, flóðbylgjur, fárviðri mannkynssögunnar; kramin undir stíflum og verksmiðjum og járnbrautarteinum og ökrum og hótelum og öllu auðmagni aldanna; rístu samt upp, krafsaðu þig upp í gegnum martraðir kynslóðanna, stattu upp, vitjaðu mín í Reykjavík, á fyrsta hluta 21. aldar, í miðju góðæri, í hringiðu arðránsins, hjálpaðu til, fylltu mig af þúsöldinni sem er verkakonan, af þreki fyrir þrekrauninni að komast af.

Þú veist að tíminn bíður engrar konu, þú ert komin af léttasta skeiði, vinnan tekur sinn toll, Virk bíður handan við hornið; endurhæfing svo þú getir unnið til sjötugs, ef það virkar ekki; endurhæfing svo þú getir orðið róbott, ef það virkar ekki; endurhæfing á ruslahaugum sögunnar.

Þú veist að þú þagnar ef einhver segir Glerþak af því þú skilur ekki orðið, það er best að þegja um það sem maður skilur ekki, það segir enginn Glergólf, þá gætirðu aldeilis talað; þú paufast áfram á glergólfinu, það er sleipt en þú þarft samt stundum að hlaupa, þú reynir að horfa ekki niður, því þú vilt síst af öllu sjá það sem undir er, þangað sem þú ferð ef þú hættir að geta paufast og hlaupið, þangað sem þú ferð ef maðurinn þinn skilur við þig eða drepst, þangað sem þú ferð ef auðvaldið brjálast enn meira, þangað sem þú ferð ef, guð á himnum, næsta kreppa skellur á.

Þú veist að þú ert ekkert og tíminn er allt og það kremur í þér hjartað og þú veist að þú ert harmaljóð sem enginn hefur áhuga á að flytja eða heyra, þú veist að frelsunin er ekki handan við hornið og þú veist að sagan af Arðráninu á Konu er saga sem enginn vill hlusta á, ekki núna, ekki þá, ekki þegar og Pússífer horfir á þig í speglinum og kinkar kolli:

Ég veit að þú veist, og þið horfist í augu og lítið svo niður af því enginn, enginn vill horfast í augu við konu sem grætur.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram