Stefnt að framboði í Reykjavík

Tilkynning Frétt

Félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands þann 18. febrúar samþykkti eftirfarandi ályktun:

Félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands felur framkvæmdastjórn flokksins að undirbúa framboð til borgarstjórnar Reykjavíkur í vor á vegum flokksins, kalla saman kjörstjórn skv. ákvæðum í lögum og skipulagi flokksins, stuðla áfram að kröftugri umræðu um sveitarstjórnarmál meðal flokksmanna og kanna möguleika á framboðum í öðrum sveitarfélögum.

Fundurinn felur málefnaefnastjórn flokksins að skipa málefnaefnahóp til að móta grunnstefnu í sveitarstjórnarmálum og félagastjórn að efla starf meðal félaga út í hverfum borgarinnar.

Fundurinn felur framkvæmdastjórn að kynna niðurstöður undirbúningsvinnunnar og bera undir atkvæði á félagsfundi sem haldinn verði fyrir lok mars.

Það er mat félagsfundarins að brýnt sé að fram komi sósíalískt framboð á vettvangi borgarmála sem heldur á lofti brýnni hagsmunabaráttu þeirra sem hafa orðið undir vegna samfélagslegs óréttlætis.

Framboð til borgarstjórnar er eðlilegt framhald af kröfu um endurreisn verkalýðshreyfingarinnar. Reykjavíkurborg rekur blóðuga láglaunastefnu gegn launafólki sínu, ber mikla sök á húsnæðiskreppunni sem grefur undan lífskjörum launafólks og hefur ýtt undir uppbyggingu húsnæðisbrasks, leigufyrirtækja og völd verktaka sem hafa stórgrætt á húsnæðisvanda hinna verst settu.

Fólkið í borginni þarf að rísa upp og endurheimta Reykjavíkurborg, krefjast þess að sveitarfélagið þeirra þjóni hagsmunum fjöldans en ekki hinum fáu, ríku og voldugu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram