Hin verr stæðu í Reykjavík munu stíga inn úr kuldanum og krefjast valda í vor

Tilkynning Frétt

Félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands haldinn í Gerðubergi 4. apríl 2018 samþykkti eftirfarandi ályktun varðandi framboð flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum:

Vaxandi ójöfnuður hefur grafið undan trausti almennings á stjórnmálum; þingi, sveitastjórnum, stjórnmálaflokkum. Vaxandi ójöfnuð má rekja til misskiptingar launa- og fjármagnstekna, hraðrar eignamyndunar örfárra á á kostnað fjöldans og útilokun hinna verr stæðu frá stjórnmálunum; láglaunafólks, fátækra ellilífeyrisþega, innflytjenda, leigjenda, öryrkja og fátækra. Þetta fólk á sér fáa ef nokkra fulltrúa innan stjórnmálanna; rödd þess er veik, þau eru ekki ávörpuð og hagsmunir þeirra eru aldrei lagðir til grundvallar þegar mál eru til umfjöllunar.

Útilokun hinna verr stæðu frá stjórnmálaumræðunni hefur spillt og eyðilagt þann lýðræðisvettvang sem tryggja átti öllum jafna aðkomu að málum. Valdhafar sem eftir sitja geta ekki komist að réttlátri niðurstöðu þegar búið er að einangra frá umræðunni þann þriðjung íbúanna sem verst stendur.

Það sem er skaplegt í samfélagi okkar má rekja til stéttabaráttu hinna verst settu á síðustu öld. Það sem er ógnvænlegast í samfélagi okkar má rekja til síðustu áratuga þegar þessi stéttabarátta var einangruð frá almennri stjórnmálaumræðu og kæfð. Án virkrar stéttabaráttu þeirra verst settu færum við hinum allra auðugustu enn aukin efnahagsleg og pólitísk völd og höldum með því áfram að byggja hér upp alræði auðvaldsins.

Framboð Sósíalistaflokks Íslands til borgarstjórnar er ekki aðeins ætlað að setja mál hinna verr stæðu á dagskrá borgarmálanna heldur að hleypa þeim hópum kjósenda að ákvörðunum sem hefur verið haldið frá stjórnmálaþátttöku af elítum stjórnmálaflokkanna. Borgarstjórn, þar sem einsleitur hópur situr í öllum stólum, mun að öðru kosti halda áfram rangri stefnu, komast að rangri niðurstöðu og brjóta gegn þeim hópum sem verst standa.

Með því grefur stjórn borgarinnar undan samfélaginu. Jöfnuður eykst ekki nema með virkri stjórnmálaþátttöku hinna verr stæðu. Án upprisu þeirra mun misréttið halda áfram að aukast og grafa á endanum undan lífskjörum alls almennings.

Láglaunafólk reis upp fyrir skömmu og endurheimti forystu í Eflingu, stærsta stéttarfélagi láglaunafólks, undir kröfum um róttæka stéttabaráttu. Upprisa hinna verr stæðu mun halda áfram í vor og finna sér farveg í framboði Sósíalistaflokks Íslands til borgarstjórnar. Krafa fólksins er að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar, að á það sé hlustað og að tillit verði tekið til hagsmuna hinna verr stæðu við úrlausn allra mála.

Hin verr stæðu í Reykjavík munu stíga inn úr kuldanum og krefjast valda í vor.

#vor í Reykjavík

Félagsfundur Sósíalistaflokksins um borgarstjórnarframboð verður haldinn í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í efra-Breiðholti miðvikudagskvöldið 4. apríl kl. 19:00.
Sjá Facebook-viðburð um félagsfundinn hér.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram