Stefna Sósíalistaflokks Íslands í auðlinda- og umhverfismálum

Tilkynning Frétt

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er:

  • að allar sjávarnytjar sem veiðast innan íslenskrar landhelgi tilheyra íslensku þjóðinni og eins og með aðrar auðlindir skal þessi eignarréttur aldrei framseldur til einkaaðila frekar en eignarréttur annarra auðlinda.
  • að allur kvóti verði afturkallaður í hendur ríkisins og honum útdeilt með hliðsjón af því að milliliðir í viðskiptum hagnist ekki óhóflega á kostnað eigenda auðlindarinnar eða þeirra sem vinna í sjávarútvegi.En einnig að byggð geti haldist sem jöfnust á landsbyggðinni
  • að vatn, í hverju formi sem það finnst, skal skilgreint sem náttúruauðlind og sem slík er hún sameign þjóðarinnar og ekki framseljanleg. Nýtingarréttur skal aldrei framseldur, hvort heldur til einkafyrirtækis eða sveitarfélags, nema til skamms tíma í senn.
  • að íslenska ríkið standi vörð um grunnvatn, heitt jafnt sem kalt, og ákvarðanir varðandi nýtingu þess skulu alltaf teknar lýðræðislega og með beinni aðkomu almennings.
  • að allt sem hægt er að endurnýta verði endurnýtt og allt sem hægt er að endurvinna verði endurunnið, þ.m.t. vatn.
  • að hætt verði að nota einnota plastumbúðir á Íslandi og skal það tekið í skrefum.
  • að affall verði nýtt sem áburður og sem endurunnið vatn.
  • að 80-90% af plasti verði endurnýtanlegt. Þeir sem hagnast á framleiðslu og notkun þess beri ábyrgð á endurvinnslunni.
  • að fyrirtækjum og öðrum stofnunum beri að bjóða til nota útlitsgallaða eða útrunna matvöru, sé hún neysluhæf. Kostnaður fylgi því að fleygja slíkri matvöru í óflokkað sorp.

 

Ítarefni

Auðlind er náttúrufyrirbæri sem gefur af sér verðmæti af einhverju tagi og á því að tilheyra þjóðinni í heild sinni. Þar sem hún er sjálfsprottin getur auðlind aldrei tilheyrt einkaaðila eða sveitarfélagi og skal hún alltaf vera í eigu þjóðarinnar og nýtt í þágu þjóðarinnar. Hlutverk yfirvalda á að vera að standa vörð um mannréttindi gagnvart einkaeignarrétti og viðhalda jafnvægi milli náttúruverndar og umhverfisnýtingar þjóðinni til hagsbóta. Hagsmunir þjóðarinnar í heild sinni skulu alltaf vera hafðir í fyrirrúmi við nýtingu og ráðstöfun náttúruauðlinda.

Umhverfisvernd skal hafa að leiðarljósi við alla landnýtingu.

Landeigendum ber skylda til að halda úti viðunandi aðstöðu á jörðum sínum til að varast átroðning og standa vörð um landgæði og reynist þeim það um megn skuli landeigendum skylt að selja ríkinu jörðina á matsverði. Þessar jarðir verði svo ekki framseldar varanlega aftur heldur nýtingarrétti á þeim úthlutað tímabundið til aðila sem hafa hug á að nýta þær.

Ójöfnuður í samfélögum er ekki náttúrulegur þrátt fyrir að vera útbreiddur. Í vistkerfi jafngildir ójöfnuður því að rándýr fjölgi sér of hratt og éti undan sér bráðina. Kapítalískir markaðshættir og stóriðja stuðla að áframhaldandi umhverfisspjöllum. Sjálfbærni mun því aldrei verða að veruleika í hinni ójöfnu samfélagsskipan kapítalismans. Kapítalisminn er óvinur náttúrunnar og með þjónkun við hann stuðlum við á endanum að útrýmingu mannkynsins.

Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á lýðræði og valdadreifingu og með hliðsjón af því skulu íbúar eiga síðasta orðið þar sem árekstrar íbúabyggðar og fyrirtækja eiga sér stað. Fólkið í hverfinu verður að fá vald yfir eigin hverfi og aldrei vera gert að verða óvirkir þolendur mengunar frá fyrirtækjum, hvort sem það er loftslagsmengun, hávaðamengun, drykkjulæti eða annað.

Heilbrigður jarðvegur er auðlind og um hann ber að standa vörð. Jarðvegseyðingu ber að sporna við.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram