Við viljum færa fólki vald til að bæta samfélagið

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Frambjóðendur Sósíalistaflokksins eru láglaunafólk, lífeyrisþegar og annað fátækt fólk sem ætlar að taka sér völd. Það sættir sig ekki lengur við að vera sett til hliðar; heldur stígur það inn úr skugganum og krefst þess að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar.

Sagan segir okkur að það góða í samfélaginu varð til af baráttu hinna verr settu: almannatryggingar, skóli fyrir alla, ókeypis heilbrigðisþjónusta, átta stunda vinnudagur, sumarleyfi – allt sem er gott í samfélaginu. Ástæða þess að ójöfnuður hefur aukist og samfélagið hefur aftur orðið grimmara; er að hin verr settu hafa verið klippt frá völdunum. Hin ríku og valdamiklu hafa setið ein að völdunum.

En nú ætlum við að breyta þessu.

Við erum fátæk vegna þess að við höfum ekki haft völd. Hin ríku eru rík vegna þess að þau hafa völdin. Við ætlum að vinna okkur úr fátækt með því að taka völdin og breyta samfélaginu.

Það er ekkert lýðræði þar sem stórum hópum fólks er haldið frá völdum. Hin ríku og valdamiklu geta aldrei tekið ákvarðanir fyrir okkur hin. Þau taka alltaf ákvarðanir út frá eigin hagsmunum. Við viljum sjálf ákveða hvernig samfélag byggist upp í borginni. Við viljum ekki að það sé ákveðið fyrir okkur. Við viljum ráða því sjálf.

Það ríkir húsnæðiskreppa sem grefur undan lífskjörum leigjenda. Við viljum færa leigjendum völd til að breyta þessu.

Borgin hefur grafið undan kjörum og réttindum láglaunafólks með gerviverktöku og samningum við starfsmannaleigur. Við viljum færa láglaunafólki völd til að breyta þessu.

Innflytjendur eru jaðarhópur í borginni. Þau eru flest í láglaunastörfum og búa mörg í ósamþykktu og heilsuspillandi húsnæði.  Við viljum færa innflytjendum völd til að breyta þessu.

Fátækt eftirlaunafólk og öryrkjar mæta skilningsleysi um þarfir sínar.  Við viljum færa eftirlaunafólki og öryrkjum völd til að breyta þessu.

Fátækasta fólkið, sem eru háð borginni um húsnæði og framfærslu, mætir fordómum og útilokun. Við viljum færa fátæku fólki vald til að breyta aðstæðum sínum.

Við sósíalistar viljum ekki móta samfélagið að hagsmunum hinna ríku og valdamiklu. Þannig eru samfélög brotin niður. Við sósíalistar viljum móta samfélagið að þörfum og væntingum hinna verr stæðu. Þannig byggjum við upp gott samfélag fyrir alla.

Kjósið betra samfélag. Kjósið sósíalista! x-J

Sanna Magdalena Mörtudóttir
er oddviti sósíalista í Reykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram