Æ fleiri styðja sósíalista

Frétt Frétt

Allskonar fólk hefur lýst yfir stuðningi við Sósíalistaflokkinn á Facebook og Netinu á síðasta sólarhring. Hér eru nokkur dæmi:

Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur:

„Sósíalistaflokkurinn er frekar hressandi staðreynd einmitt í dag. Og ekki bara nafnið! Stefnan virðist ígrunduð og unnin út frá virkri samræðu í grasrót. Og þetta magnaða fólk á listanum. Nýjar raddir, annars konar sýn á vald. Ég held að þetta sé alveg heiðarleg von um alvöru vinstri.

Ég er ósammála því að vinstri og hægri sé úreltur mælikvarði á pólitík. Það er hugsanvilla, afleiðing langvarandi áhrifa markaðshyggju á alla hugsun. Sósíalísk áskorun ætti að vekja okkur upp af doða, afneitun og meðvirkni. Flestir flokkar dragast inn að miðjumoðinu. Við þurfum meiri dýnamík í pólitíkina í dag: Afgerandi póla. Og virkni í átt til vinstri.

Það er búið að gera margar misheppnaðar sósíalistatilraunir og það er búið að gera mjög margar misheppnaðar and-sósíalismatilraunir í heiminum og á Íslandi. Við mættum alveg gera tilraun til að endurskilgreina sósíalisma-hugsjónina og láta reyna á að láta valdið í alvöru virkjast fyrir mátt samúðar.

Hugsa sér ef við fengjum að sjá samhygðina umbreyta kerfunum svo þau yrðu virk af réttlæti! Og virkuðu. Væri það ekki meira en lítið hressandi fyrir okkur öll?“

 

Eiríkur Jónsson, fyrrum formaður Kennarasambandsins:

„Nú er ég búinn að gera upp hug minn. Kýs Sósíalistaflokkinn. Hvað með þig? Komdu með.“

 

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og fyrrum fundarstjóri opinna borgarafunda:

„Gott fólk og aðrir sem telja sig ekkert sérstaklega gott fólk. Ég hef tekið þá upplýstu ákvörðun að láta atkvæði mitt í komandi kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík fara til Sósíalistaflokks Íslands Vill gjarnan fá að sjá það fólk sem þar er í framboði komast að borðinu til að vinna að sínum málefnum Er búinn að fá mig fullsaddan af þessum atvinnupólitíkusum sem planta vinum og vandamönnum í nefndir og stofnanir burtséð frá því hvort það fólk á erindi í slíkar stöður eða ekki Ég vil fá vinnandi verkafólk konur og menn að borðinu og vill að ákvarðanatöku um t.d. félagsbústaði sé tekinn í samvinnu við þá sem þá þjónustu þurfa ekki af einhverjum ofurlauna vinum þeirra sem þetta kerfi einoka Flokkar, konur og menn sem bjóða sig fram til þjónustu þá sérstaklega þeir sem hafa gert þetta að lífsstarfi þurfa að fara að líta á sig sem þjónustufulltrúa þeirra sem búa í borgum og sveitum landsins ekki sem fulltrúa sinna flokka til þess eins að koma eins mörgum og þeir geta í stöður,nefndir og önnur störf hjá borg og bæjum þessa lands Svo ég hvet alla til þess að ljá þessum röddum sem vilja manneskjulegri borg og stofnanir að kjósa Sósíalistaflokk Íslands“

 

Sigurjón Magnús Egilsson blaðamaður:

Það var ekki mulið undir okkur bræðurna. Mamma gerði samt allt sem hún gat, og stundum eflaust meira en það. Hvers vegna þetta var svona læt ég liggja á milli hluta, en þetta var stundum ansi hart.

Í hallæri fluttum við frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Pabbi, sem var bílvirki, fékk vinnu á verkstæðinu hjá Steindóri, sem var umfangsmikil leigubílastöð. Með vinnunni fylgdi leiguíbúð að Seljavegi 33. Það hús átti Steindór og starfsmenn hans leigðu af honum. Voru þannig bundnir vinnuveitandanum, voru í vistarböndum. Við bræðurnir kunnum vel við okkur á Seljaveginum. En mamma ekki. Áhyggjurnar voru jú hennar.

Í næsta nágrenni við okkur voru til dæmis Selbrekkurnar og Selbúðirnar. Í okkar hverfi var ekkert tiltökumál þó fólk væri fátækt. Það voru margir fátækir sem bjuggu þeim megin við Framnesveg.

Svo kom að hjónaband mömmu og pabba tók enda. Þar sem mamma var ekki lengur gift starfsmanni Steindórs varð hún að flytja út. Við tók óvissa. Hún ein með okkur strákana fjóra.

Eftir leit að leiguíbúð fékk mamma leigða þriggja herbergja íbúð við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi. Það var fínt umhverfi. Einn skugga bar þar á. Eigandi hússins var séra Árelíus Níelsson, prestur við Langholtskirkju.

Jæja, um hver mánaðamót fór ég með strætó inn í Álfheima, en þar stóð glæsilegur prestsbústaður. Þar átti Árelíus heima. Það var sama hvernig viðraði. Aldrei bauð Árelíus mér inni í forstofu meðan hann skrifaði kvittunina. Hann lét mig standa úti hverjar sem aðstæðurnar voru. Hann kvaddi mig aldrei. Aðeins rétti mér kvittunina, þegjandi.

Húsið við Tjarnarstíg var kynnt upp með olíu. Miðstöðin var slök, bilaði sí og æ. Jafnt að vetri sem á öðrum árstíma. Árelíus var tregur til að láta laga miðstöðina og oft var kalt, ískalt hjá okkur. Rúðurnar voru oft hélaðar að innan og við þetta urðum við að búa. Presturinn fékkst ekki til að láta gera við. En hann fékk leiguna greidda.

Mér er minnisstætt að á leið heim úr skólanum hugsaði ég fyrst og fremst um hvort hiti væri á húsinu eða ekki. Vonbrigðin við að sjá hélaðar rúðurnar voru oft mikil og sár. Fleira er hægt að segja, en þess þarf ekki. Séra Árelíus var vondur leigusali.

Ekki rættist úr, sem heitið getur, hjá mömmu fyrr en hún fékk íbúð í verkamannabústöðum í Breiðholti. Þar með var efinn og kvíðinn að baki og eins skilyrði eða mannvonska leigusalanna.

Í dag er annað fólk í þessum eða ámóta aðstæðum. Hluti þessa fólks er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn. Þau vilja freista þess að bæta stöðu þess fólks sem þekkir ekki annað en efa og kvíða. Í áratugi hef ég ekki tekið afstöðu til stjórnmálaflokka. Nú geri ég það, fólk sem upplifir svipað og ég gerði er mitt fólk. Ég ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn í kosningunum eftir tvær vikur.“

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram