Útsendarar arðránsins II: Arðrán er borð

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Ég er á móti arðráni. Það er grundvallarafstaða mín í pólitík. Hún er ekkert flókin. Hún byggir á tilfinningum og innsæi. Hún byggir á réttlætiskennd og samhygð. Hún byggir á samtölum við annað fólk sem er líka á móti arðráni. Ekki síst byggir hún á lifaðri reynslu sem skelfilega arðrænd láglaunakona, nýtt til mikillar erfiðisvinnu af Reykjavíkurborg í næstum áratug, fyrir tekjur sem hefðu aldrei dugað til að sjá fyrir börnum og heimili, nema í fátækt. Hún byggir á því að vita að í arðránssamfélaginu þykir ekkert tiltökumál að nýta fólk til vinnu, horfa upp á það ofkeyra sig, senda það í endurhæfingu til að gera það nógu hraust til að koma því aftur út á vinnumarkaðinn, án þess að sú krafa sé nokkru sinni orðuð af nokkurri alvöru að gera verði breytingar á „vinnumarkaðsmódelinu“ til að koma í veg fyrir að fólk brenni út og missi heilsuna. Hún byggir á fréttum utan úr heimi af skelfilegri meðferð á mönnum, konum og börnum svo hægt sé að framleiða hluti með ódýrum hætti til að hámarka gróða. Hún byggir á vitneskju um að á Íslandi tíðkast hörmuleg framkoma gagnvart fólki sem kemur hingað frá öðrum löndum og lendir í klónum á forhertum atvinnurekendum sem sjá ekkert athugavert við að græða á kostnað annara. Hún byggir á vitneskju um að allt tal um að við lifum í samfélag jafnra tækifæra er eins og brandari vitfirrings þegar við horfumst í augu við staðreyndina um vaxandi ójöfnuð og stéttaskiptingu í samfélaginu. Hún byggir á þeirri hneykslun sem ég upplifi þegar ég horfist í augu við að á meðan þau hátt settu fá allar þær krónur sem þau geta látið sig dreyma um eiga þau lágt settu að sætta sig við kaupmátt og er hótað ef þau segjast vilja krónur, líkt og hin ríku fá.

Hún byggir á þessu og mörgu öðru og er mjög einföld: Ég hafna því að hægt sé að nota fólk sem vinnuafl á útsölu svo að hægt sé að græða eða spara. Ég hafna því að þjóðfélagið eigi að vera svoleiðis uppbyggt að ekkert lýðræði ríki þegar kemur að úthlutun gæðanna. Ég hafna því að eðlilegt sé að forstjóri fái í laun upphæðir sem eru eins og fjársjóður í augum hinna lágt settu, á meðan verkafólk getur ekki einu sinni látið sig dreyma um öruggt húsnæði. Ég hafna því af öllu hjarta að sum séu rík og önnur fátæk, að sum megi allt, á kostnað annara og að við séum krafin um samþykki og undirgefni við sadískt verkefni sem bókstaflega gengur út á að okkar tími og okkar líf sé margfalt miklu minna virði en tími og líf efnahagslegrar forréttindastéttar.

Við þau sem trampa nú gólandi um áróðursforarsvaðið svo drullan slettist í allar áttir í þeim tilgangi að mála mig og félaga mína í baráttunni fyrir mannsæmandi launum og lífsgæðum, sem ófriðarseggi og ólýðræðislegt byltingarfólk sem vilji „átök við allt og alla“ vil ég segja þetta:

Við hófum ekki átökin. Það gerðu ófriðarhöfðingjarnir ykkar, sem forhertir sýna ítrekað að þeim er nákvæmlega sama um allar hugmyndir um réttlæti og sanngirni, þegar þeir ásælast sífellt meira og skammast sín aldrei, þrátt fyrir að öll alþýða fólks standi á öndinni vegna græðginnar.

Við kveiktum ekki þá elda sem nú brenna. Það gerðu brennuvargarnir ykkar, sem sáu ekkert athugavert við að koma húsnæðismarkaðnum í hendurnar á kaldrifjuðum fjármagnseigendum svo hægt væri að auðgast viðbjóðslega á þeirri lífsnauðsyn sem húsnæði er.

Við grófum ekki undir samfélagi jöfnuðar. Það gerði stjórnmálastétt undirseld hugmyndafræðinni ykkar, nýfrjálshyggjunni, sem misnotaði löggjafarvaldið til að útbúa skattkerfi sem hyglir hinum ríku, á kostnað vinnandi fólks.

Við orsökuðum ekki Hrunið. Það gerðu auðmennirnir ykkar, ofurmennin ykkar. Við berum ekki ábyrgð á einum einasta efnahagslega eða pólitíska glæp sem framinn hefur verið á Íslandi. Það sama er sannarlega ekki hægt að segja um hetjurnar ykkar.

Arðrán er arðrán, borð er borð; arðrán er borð; veisluborðið margumrædda, þar sem sjúklega gráðug yfirstétt gín yfir öllum kræsingunum og hrúgar á diskana sína á meðan hún hvæsir, frussandi kökumylsnu yfir vinnuaflið sem aldrei kemst að góðgætinu: Ætliði að eyðileggja veisluna okkar, vesalingar?

Ömurlegur málflutningur áróðursdeildar auðvaldsins, settur fram til að hræða alþýðuna til hlýðni, af því að hlýðin og skelkuð alþýða er eina alþýðan sem þau og stjórarnir í lífi þeirra geta sætt sig við, er aumkunarverður. Svo aumkunarverður að ég trúi ekki öðru en að fólk sjái í gegnum hann og í stað þess að hræðast, tvíeflist þvert á móti í baráttunni gegn hinni sjúku hugmynd um mannlegt samfélag sem nýfrjálshyggjan selur og margeflist í baráttunni fyrir því að gildi réttlætis og jöfnuðar verði hafin til vegs og virðingar í íslensku samfélagi.

Þau sem hræðast samfélag jafningja, þar sem fólk fær að lifa án arðráns, þar sem öll leggja til eftir getu og uppskera eftir þörfum, meira en nokkuð annað, á meðan þau fagna hverjum sigri kapítalismans, sama hvaða hörmungar fylgja í kjölfarið; er ekki kominn tími til að þau skreppi í frí á margumræddum ruslahaugum sögunnar, þar sem þau geta öslað um í öllum þeim drullupollum sem þeim sýnist án þess að aurinn slettist á okkur hin?

Sólveig Anna Jónsdóttir

 

Útsendarar arðránsins, fyrri grein:

http://sosialistaflokkurinn.is/2018/05/12/utsendarar-ardransins/

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram