Nokkur orð um velferð barna

Ósk Dagsdóttir Pistill

Í gildandi stjórnarskrá stendur: Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Ísland er velferðarsamfélag, eða svo er sagt. Samt eru mörg börn á Íslandi sem búa við fátækt, hafa ekki öruggt húsnæði, fá ekki næringarríkan mat og búa við aðstæður þar sem líkamlegum og andlegum þörfum þeirra er ekki mætt. Staðreyndin er sú að óháð vilja eða ætlun er fjármunum ekki forgangsraðað þannig að börnin, dýrmætasta og viðkvæmasta fólkið í samfélaginu okkar, gangi fyrir. Í landi þar sem stöðugt er rætt um velmegun og framfarir eiga börn ekki að þurfa að líða skort. Öll börn eiga að geta alist upp í umhverfi sem er öruggt, stöðugt og þroskandi.

Lágar tekjur, námslán, framfærsla og bætur foreldra gera þeim ókleift að sinna fjölskyldum sínum. Vinnuálag er auk þess svo yfirgengilegt að tími fyrir fjölskyldulíf er verulega takmarkaður. Húsnæðisvandinn bitnar ekki síst á börnum sem neyðast til þess að búa við óviðunandi aðstæður og flytja ítrekað. Flutningum og aðlögun á nýjum stað fylgir mikið álag. Þessu er hægt að breyta.

Vandinn er þó djúpstæðari en sá að bara skorti á að fjármunum sé forgangsraðað í þágu barna. Velferð þeirra er ekki heldur sett í fyrsta sæti. Upp á síðkastið hafa heyrst háværar raddir þolenda og annarra gegn ofbeldi. Fólk stígur fram og segir það sem rétt er að við verðum að gera betur. Þau skilaboð ná þó ekki til þeirra sem valdið hafa til að gera breytingar. Ítrekað er svo brotið gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar flóttabörn eru rekin frá Íslandi. Það vantar verulega upp á að allar ákvarðanir sem snerta börn séu teknar með þeirra hagsmuni að leiðarljósi.

Rætt er um dagvistunarvanda atvinnulífsins í stað umönnunarvanda barna. Skoðað er hvaða kröfur atvinnulífið gerir til foreldra en ekki hvaða umönnun börnin þurfa. Börn undir tveggja ára eru að ganga í gegnum lífsskeið sem getur haft mótandi áhrif á framtíð þeirra. Samband þeirra og tengsl við foreldra og aðra sem sjá mest um þau er verulega mikilvægt. Síðan tekur við tilfinninga- og félagsþroski sem skiptir máli að hlúa vel að. Samt þykir ekkert tiltökumál að eftir 6-9 mánuði séu börn á Íslandi skilin frá foreldrum sínum í átta eða fleiri tíma á dag, hvort sem foreldrar kjósa það eða ekki.

Nýjustu breytingar fæðingarorlofssjóðs hækkuðu hámarksgreiðslur um 150 þúsund upp í 520 þúsund en þar sem einungis fæst 80% af tekjum úr sjóðnum nýtist breytingin aðeins þeim sem eru með yfir 460 þúsund í tekjur og til þess að fullnýta hámarkið þarf 650 þúsund í tekjur. Á sama tíma hækkuðu lágmörk um 8-18 þúsund. Þeir sem eru í láglaunastörfum eða námi fá nú um 172 þúsund á mánuði og ef einhver getur ekki unnið fulla vinnu eða verið í fullu námi fær sá hinn sami 75-110 þúsund á mánuði. Með þessu óréttlæti hækka þeir sem hafa hæstar tekjur fyrir á meðan aðrir sitja eftir og geta ekki sinnt nýfæddum börnum sínum. Einstæðir foreldrar fá ekkert meira en aðrir og fá aðeins 6 mánuði í orlof í stað 9 mánaða. Ítrekað hefur verið rætt um að lengja fæðingarorlofið en engar framkvæmdir orðið á síðustu árum. Fæðingarorlof er því aðeins 6-9 mánuðir á Íslandi sem er umtalsvert styttra en á hinum Norðurlöndunum.

Í íslenskum lögum, námskrám og menntastefnum er lýst þeim atriðum er skal leggja áherslu á í skólastarfi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þar er lögð áhersla á heilbrigði og velferð nemenda, tækifæri til þroska, lýðræði, jafnrétti, mannréttindi, sköpun, læsi, sjálfbærni og fleira sem skiptir máli fyrir einstaklinga og samfélag. Þá er lögð áhersla á sameiginlega ábyrgð skóla og foreldra á menntun og velferð barna og ungmenna á öllum aldri. Í umræðu um bæði leikskóla og grunnskóla vantar að skoða hvað raunverulega þarf til þess að fylgja eftir þessum markmiðum og skapa öllum börnum umhverfi þar sem þau geta þroskast, dafnað og ræktað hæfileika sína. Taka þarf tillit til ólíkra þarfa, ólíks uppruna og tungumáls. Allir sem starfa á þessum stöðum geta borið því vitni að álag er of mikið og ekki hægt að sinna öllu vel. Þessu þarf að breyta.

Það hefur virkilega vantað rödd barna í pólitíska umræðu. Börn eru um fimmtungur Íslendinga en eru hvorki með kjörgengi né kosningarétt. Það er okkar fullorðinna að berjast fyrir því að réttindi þeirra séu virt. Ísland sem velferðarsamfélag á ekki að bregðast þessum mikilvægu einstaklingum. Vanda þarf vel til mála sem snerta umönnun og menntun barna, ferli og forvarnir í ofbeldismálum, öruggt húsnæði og aðstæður starfsfólks sem vinnur með börnum allt frá fyrsta andardrættinum á fæðingardeildinni. Öll börn eiga að geta búið við gott atlæti, umönnun og kærleika. Við verðum að gera það sem þarf fyrir börnin og þar duga engar afsakanir. Þau eiga það skilið og samfélagið mun fá það margfalt til baka.

Ósk Dagsdóttir
Höfundur er móðir, grunnskólakennari, doktorsnemi í menntunarfræðum og í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík, Hina Reykjavík.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram