Ónýt pólitík – Valdið til fólksins

María Pétursdóttir Pistill

Mörgum verður tíðrætt um það um þessar mundir að vera komnir með upp í kok af pólitík enda verði allt brjálað með reglulegu millibili þegar hvert spillingarmálið rekur annað en það sé alltaf eins og stormur í vatnsglasi því ekkert gerist og enginn axlar ábyrgð á neinu. Spillingarmálin hafa heldur meira tengst ríkisstjórninni en þó hefur sitthvað komið upp í sveitastjórnum svo sem Hörpumálið svokallað nú nýlega og laun bæjarstjórans í Kópavogi.

Kópavogurinn þar sem ég bý hefur verið undir stjórn sjálfstæðismanna um langt skeið núna eða frá því ég man eftir mér og hefur uppbyggingin í bænum verið gríðarleg á þeim tíma. Ég man eftir því að leika mér í gömlum rústum í brekkunni neðan við Digranesheiðina ásamt bekkjarfélögum mínum í sjö ára bekk og ég man eftir skólaferðum upp á Vatnsenda þar sem þá var bara náttúra og sveit.

Á þessum svæðum hafa byggst upp stærðarinnar hverfi með skólum íþróttahöllum og verslunarmiðstöðinni Smáralind svo íbúum bæjarins hefur einnig fjölgað gríðarlega. Það má því segja að bæjarfélagið hafi blásið út á nokkrum áratugum.

En hvernig er uppbyggingunni í Kópavoginum háttað og hvernig hefur fólkið í bænum það?

Eins og staðan er á kjörum öryrkja og eldri borgara í dag sem og starfsmanna á vegum bæjarfélagsins svo ekki sé talað um annað láglaunafólk innlent eða erlent þá er það bara staðreynd að margir í þessum hópum komast ekki í gegnum greiðslumat bankanna og geta illa lagt fyrir í útborgun fyrir íbúð ef það vill reyna að komast af á grimmúðlegum leigumarkaði.

Margar fjölskyldur fóru illa út úr bankahruninu fyrir áratug síðan og hafa barist í bökkum en aðrir fundu minna fyrir því en eru að upplifa gríðarlega kaupmáttarskerðingu í dag svo ástandið hefur jafnvel versnað smám saman. Við mótmæltum á Austurvelli laugardag eftir laugardag með þeim afleiðingum að ríkisstjórnin sagði af sér, við fengum nýja ríkisstjórn sem reyndi sitt en tókst mis vel með þeim afleiðingum að strax á næsta kjörtímabili fengum við íhaldið aftur til valda. Við mótmæltum aftur þegar upp komst að skattaskjól væru normið hjá þessum stjórnmálamönnum en enn á ný fengum við íhaldið til valda og aftur með skattaskjól í sinni viðskiptasögu. Allan þennan tíma hefur íhaldið verið við völd hér í Kópavoginum og hlutirnir gerðir með það að markmiði að styrkja markaðinn og auðvaldið. Kosningaloforð hafa verið líkari mútum til dæmis með því að gefa öllum börnum bæjarins spjaldtölvur en eftir sem áður þurfa þau að greiða fyrir matinn sinn í hádeginu og eiga ekki öll kost á að stunda íþróttir þar sem frístundakortið niðurgreiðir í mesta lagi eina önn á ári en ekki búnað og annan kostnað sem fylgir oft á tíðum starfinu hvað þá keppnisferðir í íþróttum. Sumir líta svo á að fjáröflun geti bara dekkað það en gallinn við fjáröflun er sá að oftast er sá peningur fenginn úr öðrum vasa foreldra í hinn. Foreldrar sem glíma við veikindi eða vinna myrkranna á milli í láglaunastörfum og eiga erfitt með fjáröflun fá svo þau skilaboð að elska börnin sín ekki nógu mikið eða vera of duglitlir. Börn hafa engin laun, engin fjárráð og eiga því ekki að vera rukkuð um nokkurn skapaðan hlut.

Enn er kerfið okkar þannig að sumir þurfa að íhuga tjaldútilegu til lengri eða skemmri tíma eða að flytja inn á vini og vandamenn sökum þess að það hefur ekki ráð á húsaleigu eða tryggingargjaldi en oft þarf fólk að punga út heilli milljón til að komast í nýtt leiguhúsnæði. Enn er kerfið okkar þannig úr garði gert að stofnanir tala ekki saman svo ef Tryggingastofnun ofgreiðir þér örorkubætur mætir LÍN og krefst hærri afborgana af þér þrátt fyrir að tekjur þínar hafi skerst til muna á meðan þú greiðir þeim aftur til baka eða að barnabæturnar þínar skerðast. Enn þá er það þannig að einstæð móðir á örorku missir heimilisuppbótina þegar barnið hennar verður átján ára þrátt fyrir að það sé enn í skóla og enn á framfæri hennar. Enn er það þannig að ef manneskja á tíræðisaldri kemst sjálf í sokkana þá fær hún ekki færnismat til að meta hvort hún þurfi þjónustuíbúð þrátt fyrir að heyra ekki í dyrabjöllunni eða símanum því bæjarfélagið vill helst að hún sé heima þar til landspítalinn tekur við henni eftir að hún dettur og slasar sig eða sofnar sínum langa svefni. Enn er ekki hugað að andlegri líðan fólks, það er ekki tékkað á fólki og sveitarfélögin niðurgreiða sjaldan og afar takmarkaða sálfræðiþjónustu til fólks í vanlíðan. Stofnanir innan sama kerfis tala jafnvel ekki saman.

Í sósíalísku samfélagi væri spilunum úthlutað eftir getu og þörfum en fótalaus maður ekki endalaust krafinn um að hlaupa maraþon. Þar sem ríkið getur ekki sent frá sér eðlileg framfærsluviðmið krefjumst við þess að sveitarfélagið geri það og greiði þeim sem lenda milli vita í kerfinu framfærslu samkvæmt þeim viðmiðum. Það er ótækt að þegar einstaklingur er tekjulaus í örorkumatsferli greiði félagsþjónustan í Kópavogi viðkomandi smánarlega framfærslu eftir á og þá í formi skuldsetningar. Þetta verður að laga því þarna er samfélagið ekki að grípa einn né neinn.

Þá á sveitarfélagið að sjálfsögðu að stofna sitt eigin byggingafélag sem rekið er án gróðasjónarmiða. Byggingarlandið væri kostnaður sem drægist frá enda í eigu bæjarins svo strax þar er hægt að vinna í haginn en bærinn hefur ýmsa möguleika á því að byggja á sem ódýrastan máta en klára ekki allt landsvæði sitt til verktaka sem byggja eingöngu fyrir þá efnameiri. Þannig gæti sveitarfélagið einnig stofnað leigufélag og leigt út íbúðir án gróðasjónarmiða og jafnvel tekjutengt leigugreiðslur eins og hefur tíðkast víða í Skandinavíu eða á meðan sósíalisminn var í hávegum hafður á Norðurlöndunum. Þá mætti jafnvel vera hreyfing á hluta þess sem byggt væri með því að það væru alltaf íbúðir til kaups í boði einnig en bærinn gæti auðveldað fólki lífið til muna með því að draga úr þeim skelfilega kostnaði sem er að buga marga í Kópavoginum og á höfuðborgarsvæðinu öllu í dag í gegnum lánaþrælkun á eignarhúsnæði eða húsaleigu.

Ef bærinn óttast svo að fá ekki fasteignagjöldin frá sjálfum sér mætti íhuga aðrar leiðir við skattheimtu til að auka tekjustofninn en hér í bæ eru bæði rekin stórfyrirtæki auk þess sem útsvar og fasteignagjöld mætti tekjutengja betur. Enda þeir efnalitlu að greiða hlutfallslega hæsta skattinn í þessu samfélagi. Íbúar munu svo eiga meira ráðstöfunarfé eftir að hafa greitt eðlilegan húsnæðiskostnað og það hefði áhrif á almennt leiguverð þannig að félög eins og GAMMA og Heimavellir yrðu að leigja á sæmilegri kjöfum einnig. Það myndi ósjálfrátt verða til einhverskonar þak á leiguverði þannig að fólkið sem þar býr þyrfti ekki að standa í röðinni hjá Fjölskylduhjálpinni og Mæðrastyrksnefnd um miðjan mánuðinn. Fjármagnið myndi skila sér út í samfélagið svo fólk gæti leyft sér meira. Fólk mun geta farið oftar út að borða, farið oftar í bíó og notið lífsins á allan hátt betur en einnig hefði fólk betri möguleika á að fjárfesta í mengunarminni farkostum.

Eins og staðan er í dag þá er fólkið sem ekki upplifir meint góðæri þjakað af lærðu hjálparleysi eins og hundar Pavlovs þar sem ekkert breytist í þessu samfélagi auðvalds og spillingar þrátt fyrir regluleg mótmæli. Enginn tekur ábyrgð heldur er gullegginu kastað á milli ríkis og sveitar eins og heitri kartöflu. Þetta kemur meðal annars fram í lélegri kosningaþátttöku en þegar pólitíkin er orðin gjörsamlega ónýt þá hættir fólk að sjá hag sinn í því að kjósa.

Ef valdið færi hins vegar til fólksins sem þekkir fátæktina og baslið á eigin skinni þá myndu úthlutunarreglur á félagslegu húsnæði breytast, það yrði byggt fyrir fólk en ekki fjármagn og strætisvagnasamgöngur yrðu lagaðar að þörfum fólksins sem notar strætó. Skólinn yrði gjaldfrjáls að öllu leyti og þar fengju börnin að borða, gamla fólkið fengi þjónustu, fatlaðir fengju að vera með í ráðum um þau úrræði sem þeim ættu að bjóðast auk þess sem það yrði forgangsraðað á allan hátt í þágu velferðar.

Fólkið mun krefjast þess að kerfin tali saman og stöðugleika sé ekki haldið uppi á vinnulúnum bökum þeirra sem hafa það verst. Útseld vinna myndi heyra sögunni til og starfsfólkið sem skúrar opinberar byggingar verður hluti af starfsmannahópnum með þeim réttindum sem því fylgir en ekki réttindalausir þrælar auðvaldsins í heimi einkavæðingar.

Rannsóknir hafa sýnt að stöðugleiki helst ekki lengi í samfélagi ójöfnuður en ójöfnuðurinn getur enn versnað í okkar ríka landi og það er skömm að því að árið 2018 búi að minnsta kosti eitt til þrjú börn í sæmilega stórum grunnskólabekk við fátækt.

Það er svo mikið í húfi því misskiptingin eykst jafnt og þétt. Við sem búum við misskiptingu og mismunun stöðu okkar vegna verðum að taka völdin og núna er lag. Ég hvet ykkur sem viljið sjá betra samfélag þar sem auðstéttin ákveður ekki hvað sé ykkur fyrir bestu að rísa upp og kjósa sósíalista í komandi sveitastjórnarkosningum í vor.

María Pétursdóttir
skipar 2. sæti á lista Sósíalistaflokks Íslands í Kópavogi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram