Þinn tími er kominn – Valdið til fólksins
Pistill
23.05.2018
![](https://sosialistaflokkurinn.is/wp-content/uploads/2018/05/xj2-copy-1600x1600.jpg)
Sósíalistaflokkurinn hefur sett fram slagorðið „þinn tími er kominn“ sem er með innlenda og alþjóðlega skírskotun. Hann segir einnig „valdið til fólksins“. Þá er eðlilegt að spyrja: tími hvers er kominn og hverjir eru fólkið sem á að sækja sér vald?
Sósíalistaflokkurinn hefur einnig verið að benda á að til sé „hin Reykjavík“. Þá er átt við að til sé fólk sem ekki hefur rödd í samfélaginu, er ekki í fjölmiðlum og hefur ekki ítök í þeim og er ekki á Alþingi eða í stjórnkerfinu. Því síður hefur það verið hluti af verkalýðsforystunni fyrr en alveg nýverið. Hér er um að ræða tugi þúsunda, kannski á annað hundrað þúsund manns ef vel er að gáð. Það er á lágum launum, er ofurskattað, býr í heilsuspillandi húsnæði og/eða við okurleigu, er á lífeyri og þarf að una skerðingum og jafnvel endurgreiðslum til Tryggingastofnunar – og notar almenningssamgöngur.
Sósíalistaflokkurinn gerir kröfur um að valdaleysi þessa fólks linni og að tíminn til að sækja sér vald sé núna.
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur