Greiningardeild alþýðunnar

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Til Sönnu, með djúpu þakklæti frá sentimental verkakonu á fimmtugsaldri.

Sjáiði, þarna er borðið sem við erum að tala um og sjáiði hnefann, það er hnefinn á henni Sönnu.

– – – – –

Um Sönnu:

Yfirstétt hvers samfélags vísar stöðugt í söguna og sögur úr sögunni til þess að telja fólki trú um að hún sé einmitt á réttum stað í stigveldinu, að örlögin hafi tyllt henni á topp píramídans svo hún megi þar skína, sjálft krúnudjásn veraldar.

Hún segir sögur úr þjóðríkinu, bendir á glæsta fortíð mikilla sigra, segir frá ótrúlegum dugnaði stórmenna sem með viljastyrkinn einan að vopni byggðu upp atvinnugreinar og bjuggu með hetjudáðum sínum til sjálfan nútímann. Hún segir sögur af sigrum alþjóðlegra meðlima sinnar stéttar, beinir augum almennings að samtíma hetjum auðsöfnunarinnar (það sem félagi Boots Riley kallar The Bill Gates fable; sögur af ofurmanneskjuhæfileikum þeirra sem sitja á stærstu gullhrúgum mannkynssögunnar, ófreskum mönnum sem sjá það sem okkur hinum dauðlegu vesalingum er hulið og verða þess vegna réttmætir eigendur alls heimsins) og að þeim sem með svokölluðum dugnaði vinna sig upp hírarkíuna til að fá að sitja við hægri hönd Fjármagnsins til að dæma þau sem ekki eru nógu forhert til að kunna að krafsa sig upp á toppinn, á réttan stað í stéttaskiptingunni.

Þetta gerir hún, markvisst, jafnt nótt sem dag, til að selja okkur hugmyndina um að eignarhald hennar á veröldinni sé lögmætt, að núverandi ástand heimsins sé aðeins eðlileg skipan mála, til að koma í veg fyrir að við horfumst í augu við hryllinginn sem allsstaðar blasir við, hættum við okkur út af braut hins alltumlykjandi narratívs nýfrjálshyggjunnar.

Yfirstétt samfélagsins segir ekki sögur af hinum lægra settu (jú afsakið, einu sinni á ári segir hún sjálfri sér söguna af brúna barninu, fæddu af fátækri mær og lögðu í jötu, því til hvers eru hátíðirnar ef ekki til að minnast þess að hin fátæku eru ávallt á meðal vor, amen).

Yfirstétt samfélagsins segir ekki sögur úr samtímanum, af svöngum börnum í Reykjavík, örmagna konum í strætó á leið úr einni vinnu í aðra, fjölskyldum á hrakhólum í leit að öruggu húsaskjóli, gömlu fólki sem hefur verið kastað til hliðar eins og hverju öðru drasli, aðfluttu verkafólki í viðbjóðslegum húsnæðisholum hins frjálsa markaðar.

Yfirstétt samfélagsins segir ekki sögur af fólki að bíða eftir þeim almerkilegasta degi sem útborgunardagurinn verður í lífi Sérhvers vinnandi manns, hún segir ekki sögur af kvíðanum sem verður lífsförunautur þeirra sem aldrei eignast neitt, hún segir ekki söguna af brúnu barni fátækrar móður í Reykjavík, hún segir ekki sögur af þeim sem þjást, þeim sem ekkert eiga og ekkert mega. Hún getur það ekki, vegna þess að þessar sögur grafa undan lögmæti kúgunarveldis arðránskerfisins.

En þessar sögur eru samt auðvitað þarna. Við þurfum aðeins að snúa okkur frá þeim sem ráða og að þeim sem gert hefur verið að þegja, en ætla ekki lengur að hlýða og eru stigin fram. Við getum td. snúið okkur í átt að Sönnu og hlustað á frásögn hennar af lífinu.

Við getum hlustað á hana, þar sem hún með afburða jafnaðargeði og yfirmáta fágun segir okkur ekki aðeins frá tilveru lágstéttanna í íslensku samfélagi og þeirri skelfilegu meðferð sem tíðkast á þeim, heldur fær okkur til að skoða sögu kúgunnar í alþjóðlegu samhengi, fær okkur til að hugleiða ekki aðeins eigin stéttarstöðu heldur einnig hinn djúpa mannkynssögulega sannleik um eðli kúgunnar og enn dýpri sannleikann um eðli upprisunnar í hjarta sérhverrar manneskju.

Í algjöru falsleysi stígur Sanna fram og útgeislun hennar gerir það að verkum að við verðum einfaldlega að hlusta. Við verðum að hlusta og í kjölfar þess horfast í augu við sannleikann um samfélag okkar, sannleikann um það hvernig gæðunum er útdeilt.

Hún stundar enga klæki, hún er ekki á neinni persónulegri framabraut, hún sækist ekki eftir vegtyllum, hún sækist ekki eftir því að öðlast viðurkenningu stjóranna í samfélaginu. Hún er ekki að selja neitt, hún er ekki að selja okkur sig, hún er ekki að lofa því að leysa öll vandamál okkar, hún býður okkur einfaldlega að ganga til liðs við baráttuna, að við tökum höndum saman og hefjum vegferðina í átt að frjálsu samfélagi, laus um undan lygasögum yfirstéttarinnar, frjáls til að segja og skrifa eigin sögur.

Um borðið:

Þegar við setjumst við borðið gerum við það ekki til að fá örlítið betri mola, kannski jafnvel þunnt skorna sneið, við setjumst við borðið til að segja þeim sem þar sitja fyrir þetta: Við ætlum ekki að bíða eftir því að reglurnar verði sveigðar aðeins til að koma smávegis til móts við okkur. Við ætlum að breyta reglum borðhaldsins.

Við ætlum ekki að bíða á kantinum, þýlynd og auðsveip, eftir því að vera kölluð inn í veislusalinn til að spila þá rullu sem þau sem þar fyrir sitja hafa ákveðið að sé pinkulítið smart hverju sinni; smá láglaunakonu-innlegg hér, smá fátæktarkonu-tuð þar, dash af brúnukonu-kryddi til að búa til framandlega og heillandi stemmningu í partýinu: Við ætlum að öðlast völd yfir eigin tilveru í gegnum eigin baráttu, fyrir eigin tilhlutan (Úr reglum fyrsta Alþjóðasambandsins: „That the emancipation of the working classes must be conquered by the working classes themselves; that, the struggle for the emancipation of the working classes means not a struggle for class privileges and monopolies, but for equal rights and duties, and the abolition of all class rule.“) og við ætlum að endurraða allri uppstillingunni í partýinu.

Við erum ekki leiksoppar eins né neins, við höfum á eigin skinni fengið að reyna hvernig það er að lifa við stéttaskiptingu kúgunarsamfélagsins og þess vegna snúum við okkur frá þeim sem stýra tilveru mannkyns um þessar mundir. Við hættum að leyfa þeim að ráða för í samfélagsfrásögninni, við hættum að leyfa þeim að ákveða narratívið, samhengið, niðurstöðuna. Við höfnum frásagnarmáta þeirra og við höfnum boðskapnum þeirra; Við trúum því ekki lengur að á endanum viti stjórarnir best, við vitum að við sjálfar vitum best.

Við erum Greiningardeild alþýðunnar; við höfum sett upp stéttaátaka-gleraugun og við ætlum ekki að taka þau niður.

Sólveig Anna Jónsdóttir

– – – – –

Úr Kommúnistaávarpinu: Eins og vjer höfum sjeð var munurinn á yfirstjettum og undirstjettum, kúgurum og kúguðum, grundvöllur allra fyrri þjóðfjelaga. En undirokaða stjettin verður þó að geta fleytt fram lífinu. Ánauðugu bændurnir gátu þrátt fyrir ljensánauðina orðið meðlimir í bæjarfjelögum miðaldanna, og smáborgararnir gátu orðið auðmenn, þótt þeir ættu við ok aðals og einvaldskonunga að búa. En lífskjör verkalýðsins fara versnandi þrátt fyrir allar iðnaðarframfarirnar. Hann verður örbirgðinni að bráð, og hún vex ennþá hraðar en íbúatala og auðæfi. Á því er auðsætt, að borgarastjettin getur ekki lengur verið yfirstjett. Þjóðfjelagið sættir sig ekki við að hagsmunir hennar ráði lögum og lofum. Auðmennlrnlr geta ekki lengur stjórnað. Þeir geta ekki einu sinni veitt þrælum sínum það, sem þeir þurfa sjer til lífsviðurværis. Auðmennirnir lifa af því að fjefletta verkalýðinn. En nú er nokkur hluti hans svo djúpt sokkinn í örbirgðina, að þeir verða að hlaupa undir bagga til að halda í honum lífinu. Þjóðfjelagið þolir ekki lengur yfirráð borgarastjettarinnar. Tilvera hennar er orðin ósamrýmanleg tilveru fjöldans.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram