Ekki í okkar nafni

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Samkvæmt launaseðli fyrrverandi erlends bifreiðarstjóra, sem starfaði tímabundið hjá Strætó bs., sem ég hef undir höndunum, innheimti Strætó húsaleigu og flugmiða af viðkomandi sem fyrirtækið hafði ráðið í gegnum starfsmannaleigu. Húsaleigan var 70 þúsund krónur, fyrir að deila herbergi með öðrum. Miðað við yfirlýsingu frá Strætó, sem fyrirtækið sendi frá sér eftir að ég hóf umræðu um slæma stöðu innflytjenda í láglaunastörfum og á leigumarkaði, er ekki hægt að gera ráð fyrir að Strætó leigi út rúmstæði fyrir starfsfólk sitt né rukki flugfar fyrir það til Íslands. Það má því gera ráð fyrir að Strætó hafi dregið af starfsmanninum rúmstæðisleigu og flugfargjöld og fært starfsmannaleigunni sem útvegar Strætó vinnuafl, líklega Elju en í yfirlýsingu Strætó kom fram að fyrirtækið skiptir við Elju. Þess má geta að flestir eigendur Elju eru starfsmenn dótturfélags Gamma; Heildar fasteignafélags.

Samkvæmt lögum frá 1930 er launagreiðanda skylt að greiða launafólki laun sín út í gjaldgengum peningum og honum er óheimilt að skuldajafna við launafólk nema um það sé sérstaklega samið. Þessi lög voru sett til að vernda launafólk, en fyrir þennan tíma, fyrir meira en 88 árum, nýttu margir eigendur fyrirtækja sér veika stöðu verkafólksins og náðu af þeim stórum hluta launanna aftur með húsaleigu, inneign í verslunum sem þeir ráku sjálfir og þar fram eftir götunum. Þessi lög voru sett til að vernda launafólk fyrir því að eigendur fyrirtækja næðu launum þess til baka. Það er því óásættanlegt að atvinnurekandi sé að innheimta af launum fólks fyrir þriðja aðila. Fyrirtæki innheimta fyrir skattinn, lífeyrissjóðinn og verkalýðsfélagið en þeim er ekki heimilt að taka af launum starfsfólks vegna skulda við fyrirtæki út í bæ. Jafnvel þótt starfsmaður skrifi undir samning sem heimilar slíkt, má færa fyrir því gild rök að vegna veikrar stöðu innflytjenda gagnvart leigusala og launagreiðanda séu slíkir samningar ómarktækir. Það er refsivert þegar fólk nýtir sterka stöðu sína gagnvart þeim sem veikar standa til að fá hina veikstæðu til að afsala sér réttindum.

Það er vegna þessarar veiku stöðu starfsfólks gagnvart Strætó og starfsmannaleigunni sem ég get ekki látið fylgja hér mynd af launaseðlinum. En ég tek það fram að umrædd manneskja starfar ekki lengur hér á landi.

Það hefur áður komið fram að starfsfólk í öðrum atvinnugreinum sem er ráðið í gegnum starfsmannaleiguna Elju sé rukkað um 75 þúsund krónur á mánuði fyrir rúmstæði (sjá frétt DV:http://www.dv.is/…/rukka-erlenda-starfsmenn-um-150-thusund…/). Með því að hrúga þannig erlendu verkafólki inn í íbúðir og annað húsnæði, tveimur og jafnvel fleiri í hvert herbergi eins og sjá má í fréttinni, innheimtir starfsmannaleigan margfalda húsaleigu miðað við það sem fengist fyrir húsnæðið ef það væri leigt einum aðila. Það hefur hins vegar ekki komið fram áður að Strætó bs., fyrirtæki í eigu okkar allra innheimtir þessa svívirðilega háu húsaleigu af bílstjórunum sem eru á lágum launum. Strætó er því virkur gerandi í níðingsskap starfsmannaleiga gagnvart bílstjórum Strætó.

Og Strætó með viðskiptum sínum við Elju ber líka ábyrgð á því með hvaða hætti bílstjórarnir eru tældir til landsins. Samkvæmt yfirlýsingu Strætó hefur fyrirtækið átt í þriggja ára viðskiptum við Elju. Í auglýsingu á rúmensku vefslóðinni https://www.olx.ro/…/soferi-autobuz-islanda-cu-limba-englez…er dregin upp jákvæð mynd af starfinu. Þar stendur að í boði sé frábært atvinnutækifæri sem innihaldi rausnarlegan pakka með grunnmánaðarlaun upp á 2500 evrur útborgaðar (um 330 þús. kr.). Í auglýsingunni stendur að starfsfólkið muni starfa fyrir Ráðhús Reykjavíkur, sem er ekki satt. Einnig kemur fram að húsnæði, flugmiði og samgöngur frá flugvelli verði að fullu greiddar af vinnuveitenda en að það verði síðar dregið af launum án þess að það sé útskýrt frekar. Í auglýsingunni kemur fram að starfsmannaleigan taki ekki neina þóknun af starfsfólki sínu. En starfsmannaleigan fær síðan vænar fjárhæðir frá Strætó bs. vegna þóknunar fyrir hvern starfsmann. Þetta er liður í ráðningarferlinu sem starfsmanna- eða mannauðsstjórar Strætó bs. ættu annars að vera að sjá um.

Til að fá 330 þúsund krónur útborgaðar þarf bílstjóri að hafa meira en 450 þúsund krónur í heildarlaun og til að ná því þarf sá að vinna mikið og mikið um kvöld og helgar. En þá á eftir að taka af honum leigu fyrir rúmstæðið og flugmiðana. Til að fá 330 þúsund krónur útborgaðar eftir húsaleigu þyrfti bílstjórinn að hafa um 575 þúsund krónur í heildarlaun, en það er nánast ómögulegt fyrir bílstjóra hjá Strætó að ná því. Auglýsing Elju gefur því aðra mynd af starfinu heldur en raunveruleikinn er.

Strætó er opinbert fyrirtæki. Það er í eigu okkar íbúanna í Reykjavík og sveitarfélaganna í kring og það er rekið á okkar ábyrgð. Það lýsir því hversu vel niðurbrot á réttindum og kjörum verkafólks er langt gengið þegar opinber fyrirtæki greiða starfsfólki sínu lág laun og plokka síðan af því stóran hluta sem frádráttarlið af launum. Þannig er opinbert fyrirtæki í raun orðinn hluti af vef ófyrirleitinna einkafyrirtækja.

Strætó bs., opinbert félag okkar íbúanna á höfuðborgarsvæðinu, er orðið að innheimtufyrirtæki fyrir hræGAMMA sem nota sér neyð efnalítilla einstaklinga. Eflaust réttlæta stjórnendur Strætó þetta með því að þeir séu ekki að brjóta nein lög í trausti þess að þannig sé búið um samninga sem starfsfólkið er látið skrifa undir. En það má einu gilda. Stjórn og stjórnendur Strætó hafa enga heimild til að draga fyrirtæki okkar allra inn í ömurlega fjárplógsstarfsemi sem gerir út á neyð erlends verkafólks í skjóli lélegrar verndar íslenskra stjórnvalda og því hversu sein verkalýðshreyfingin hefur verið að bregðast við þróun á íslenskum vinnumarkaði í átt að aukinni misneytingu og kúgun.

Upp á síðkastið hefur mikil umræða átt sér stað um brotastarfsemi gagnvart erlendu starfsfólki og nú hefur komið í ljós að Strætó skiptir við fyrirtæki sem þar hefur verið nefnt. Ég fordæmi framkomu Strætó bs. gagnvart starfsfólki sínu og hvet alla eigendur Strætó að gera það sama, alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Ég krefst þess að Strætó borgi starfsfólki sínu þau laun sem það hefur unnið sér inn og hætti allri innheimtu fyrir hönd starfsmannaleiga og leigusala. Alla síðustu öld barðist verkafólk fyrir réttindum sínum og frelsi frá kúgun fyrirtækjaeigenda. Þegar opinber fyrirtæki á borð við Strætó tekur þátt í því að brjóta þessi réttindi niður verðum við að standa upp og segja stopp. Engan níðingsskap gagnvart erlendu starfsfólki í láglaunastörfum, og allra síst í okkar nafni.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram