Jón Trausti, ad hominem rök og „umræðutaktík skotgrafanna“

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Jóni Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, birti fyrir nokkrum dögum pistil á Facebook-síðu sinni. Þar og í umræðum sem sköpuðust út frá honum gagnrýnir hann nýlegan pistil Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, fyrir persónuárásir og „ad hominem“ rök og segir að þar sé vegið að heiðri blaðamannsins Harðar Ægissonar, ásamt því að lýsa yfir áhyggjum af „stigmagnandi og pólaríserandi umræðutaktík skotgrafanna“ – og talar hann jafnvel um Trump í því samhengi.

Þessi málflutningur Jón Trausta er einkennilegur af ýmsum ástæðum. Það er nokkuð ljóst að hann skilur mjög takmarkað, eða hreinlega alls ekki, ýmis grundvallaratriði í þessu samhengi. Þó tjáir hann einmitt ýmsar hugmyndir um stjórnmál og stjórnmálaumræðu sem eru áberandi algengar og ég vil nota þetta tækifæri til að ræða stuttlega.

Við getum byrjað á því að hann misskilur augljóslega hvað „ad hominem“-rökin sem hann sakar Sólveigu um eru.

Þetta er auðvitað mjög áberandi og pínleg samræðutaktík: að saka aðra sífellt um hinar og þessar rökvillur sem þóst er sjá. Það virðist líka vera einhver regla að þeir sem gera slíkt hafa aldrei skilning á þessum hugtökum sem þeir veifa þó í sífellu, að því er virðist sem einhverju merki um hversu gáfaðir og skynsamir þeir eru.

„Ad hominem“ virðist Jón Trausti skilja einfaldlega sem persónuárás. Að kalla einhvern útsendara, fífl, nasista, eða hvað sem er, er þannig ad hominem. Ég veit raunar ekki hvort hann skilji ad hominem þannig að það verði að vera eitthvað neikvætt eða níð, eða hvort nóg sé að ræða bara um persónuna sem eitthvað sem skiptir máli í gagnrýni til að það teljist með.

Hvort sem er, þá er þetta grundvallarmisskilningur. Nú eru nokkrar mismunandi útgáfur af ad hominem rökum, en engar kveða á um að einungis persónuníð eða uppnefni, eða að ræða bara persónuna, sé rökvilla. Rökvilla er galli á röksemdafærslu sem gerir hana ógilda, sem þýðir að niðurstaðan leiðir ekki af forsendunum. Að kalla einhvern „útsendara auðvalds“ eða að segja einhvern „vera sigað af húsbónda sínum“, eins og Sólveig gerir, er því ekki ad hominem eins og hann virðist halda þegar hann vitnar einungis í þessi ummæli. Raunar er fullkomlega fáránlegt að halda slíku fram, en ad hominem rök er auðvitað þegar talað er um persónuna á ákveðinn hátt, sem forsenda í röksemdafærslu. Að nota neikvæð eða niðrandi ummæli um andstæðing eitt og sér eru augljóslega ekki nein rök, hvorki ad hominem né önnur. Jafnvel þótt það sé gert á þann hátt að það flokkist raunverulega undir ad hominem, þá er tiltekin röksemdafærsla eða málflutningur þá aðeins ógild eða mögulega ósannfærandi sökum þess. Hversu sannfærandi eða ósannfærandi málflutningur sem inniheldur raunverulega slík rök er getur þó verið allur gangur á. Það fer allt eftir efni og samhengi. Að röksemdafærsla sé ógild þýðir svo ekki að niðurstaðan sé endilega ósönn, og öfugt, gild röksemdafærsla getur vel haft niðurstöðu sem er mesta bull.

Ad hominem og aðrar rökvillur (að benda á þær hjá öðrum sem sagt) eru ekki einhvers konar “silver bullets” eins og margir virðast sannfærðir um. Allra síst í pólitískri orðræðu og umræðu.

Öllum ætti að vera ljóst að þegar Sólveig kallar Hörð þessum nöfnum, sem Jón Trausti vitnar í og hneykslast á, er hún ekki að nota það sem forsendur í röksemdafærslu, og því er ekki um nein ad hominem rök að ræða. Hún kallar hann ekki þessum nöfnum til að færa fókusinn frá efninu og forðast að ræða það, eða til að gera lítið úr eða afskrifa það sem hann segir – en pistillinn tekur rök hans og málflutning fyrir og gagnrýnir á frábæran hátt. Hún fullyrðir öllu heldur bara þessa hluti um hann – enda er það einfaldlega augljóst. Hvað Hörður telur sjálfan sig vera að gera eða hversu einlæglega hann trúir eigin skrifum og rökum skiptir bara engu máli: þetta gæti ekki verið meira borðliggjandi málflutningur og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, sem allir ættu að hafa kynnst vel fyrir löngu síðan, a.m.k. nóg til að skilja að hún er sérsmíðuð að, og þjónar, hagsmunum auðvaldsins og er þannig andstæðingur verkalýðshreyfingar.

Raunar er það bara hálf absúrd að lesa pistil Sólveigar á þann hátt sem Jón Trausti gerir – eins og hún sé einungis að færa rök með eða á móti einhverju tilteknu, afmörkuðu máli. En með þannig nálgun hefur hann augljóslega misst af aðalatriðunum.

Hér væri hægt að benda á áhugavert dæmi: Bertrand Russell, sem mætti segja að vissi sitthvað um rökfræði og skynsemi, og þegar hann hafnaði rökræðu við fasistaleiðtoga með þessum orðum:

„The emotional universes we inhabit are so distinct, and in deepest ways opposed, that nothing fruitful or sincere could ever emerge from association between us.“

Ég er auðvitað ekki að líkja Herði við fasista. Bara benda á hversu furðuleg og augljóslega röng þessi sannfæring um að skynsamleg skoðanaskipti í mesta bróðerni sé ávallt möguleg og skynsamleg og geti alltaf leitt til lausnar og sáttar fyrir alla aðila ef vandað sé til verka. Í kapítalísku, stéttskiptu samfélagi er slíkt einfaldlega stórkostleg blekkking.

Það má öllum að vera ljóst að í pistlinum reiðir Sólveig fram eldheitan og ástríðufullan pólitískan málflutning, með sterkri gagnrýni á ríkjandi hugmyndafræði nýfrjálshyggju þar sem ekki einungis er ráðist harkalega á málflutning auðvaldsins og klisjukennda fimbulfambið sem það beitir alltaf til að hræða og kasta ryki í augu verkalýðsins heldur er einnig reynt að breyta umræðunni sjálfri, einmitt með því að gangast ekki við forsendum nýfrjálshyggjunnar og útsendara hennar heldur setja fram nýjar á annan hátt. Að sjálfsögðu er einnig afskrifað með öllu og andúð málflutningi sem er ekkert annað en fjandsamlegar árásir sem miða að því að grafa undan trúverðugleika og viðhalda hugmyndafræðilegu og efnahagslegu hegemony. Það er þannig sem eitthvað sem kallað er stéttabarátta (og var raunar áður fyrr bara kölluð pólitík) er stunduð. Þetta sýnir hvað best hversu grátt leikin við erum af áratugalangri hugmyndafræðilegri dómineringu og alræði nýfrjálshyggjunnar að þetta sé eitthvað sem þurfi að útskýra fyrir ritstjóra blaðs sem vill bjóða uppá samfélagsgagnrýni.

Þar sem siðferði í stjórnmálum er honum mikið hjartans mál af greinum hans og leiðurum að dæma, bendi ég honum líka á góða grein Charles Taylor „Explanation and Practical Reason“ um takmarkanir ef ekki ómöguleika siðferðisorðræðu sem ekki má fjalla um persónur, allt slíkt er úthrópað sem „ad hominem“, og sem leggur ofuráherslu á hlutleysi og skynsemi.

Les Jón Trausti t.d. ræður Malcolm X og síendurtekið tal hans um „Uncle Toms“, hvíta sem „Crackers“ og djöfla, o.fl. og hryllir við öllum ad hominem rökunum ásamt því að finnast miður að hann skuli ekki sýna meiri stillingu? Gagnrýnir hann Rosu Luxemburg fyrir svart-hvítu villuna þegar hún segir að borgarasamfélagið standi á krossgötum: sósíalismi eða barbarismi?

Maður spyr sig. Það er þó nokkuð ljóst að hann áttar sig ekki á að pólitík og stjórnmálaorðræða inniheldur og snýst um mun meira en einfalda og yfirvegaða greiningu á styrkleika röksemdafærsla þar sem allir eigi að vera vinir og sýna hvor öðrum kurteisi og virðingu. Skilningur á stjórnmálum sem er raunar bara ótrúlegt að einhver geti enn haft í dag – eftir fjármálakrísuna og síversnandi afleiðingar hennar á Vesturlöndum og víðar: áratug af niðurskurði (e. austerity), síversnandi faraldur gæðrænna vandamála, Brexit, Trump, o.s.frv. Eins og endalaust hefur verið skrifað um síðustu ár – af fræðimönnum og stjórnmálaskýrendum úr öllum áttum – er það einmitt þessi habermasíski-frjálslyndis skilningur á stjórnmálum sem hann boðar – þar sem fyrsta boðorðið er að öll átök séu slæm og sættun andstæðra sjónarmiða og málamiðlun sé eitthvað sem alltaf sé hægt, og leitast eigi ávallt eftir af fremsta megni – sem er ástæða og drifkraftur þeirrar alvarlegu krísu sem vestræn samfélög og stjórnmál finna sig í og hann varar við.

Því er það að hann skuli telja málflutning róttækrar stéttabaráttu vera á hálum ís þar sem slíkt geti leiðst útí pólariserað Trump ástand stjórnmálanna alveg yndislega kómískt. Hér er öllu snúið á haus. Yfirvegaða og kurteisa ekki-pólitík nýfrjálshyggjunnar og blairismans, ásamt skeytingarleysi og kæfingu á röddum og aðstæðum hinna lægri stétta, sem stjórnmálaelíta vestursins fylgdi og gerir mest megnis enn, er einmitt leiðin til Trumpisma. Það er í rauninni hneykslanlegt að ætla að skella skuldinni á pólariseraðri umræðu á löngu tímabæra uppreisn hinna lægri settu, sem í áratugi hafa verið jaðarsett og ekki hlustað á einmitt af sömu hugmyndafræði og réttlætt með sama málflutningi og Hörður ber á borð. Sá hópur er að sjálfsögðu reiður og hefur nákvæmlega enga ástæðu til að sýna stéttinni sem engu hefur skeytt um þau neina yfirvegaða kurteisi og virðingu.

Slík stjórnmálaumræða er heldur ekki að fara að stöðva uppgang öfgahægri hreyfinga. Eins og hefur sýnt sig alls staðar, aftur og aftur. Þvert á móti: fólk leitar til þeirra af því að þau finna engan farveg í stjórnmálunum sem Jón Trausti kemur til varnar og boðar. Það er kannski eitthvað sem hinn annars ágæti ritstjóri Stundarinnar ætti að hafa meiri áhyggjur af en að smá hiti sé í deilu nývaknaðrar verkalýðshreyfingar og auðvaldsins og hann setur sig í eitthvað furðulegt (að hann virðist telja) hlutlaust dómarahlutverk yfir.

Sem er stórkostlega naíve: hlutleysi, hvort sem það er blaðamanna eða annarra, er einfaldlega afstaða sem þjónar hagsmunum ríkjandi afla og hugmyndafræði.

Jóhann Helgi Heiðdal

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram