Sósíalistakaffi: Viltu stofna félag?

Ritstjórn Frétt

Tilheyrir þú hópi sem þyrfti að skipuleggja hagsmunabaráttu sína betur? Finnst þér vanta Foreldrafélag – hagsmunasamtök barnafjölskyldna? Félag strætófarþega? Samtök skuldara? Félag leigjenda hjá Almenna leigufélaginu? Samtök eftirlaunafólks? Félag gjaldþrota einstaklinga og fólks á vanskilaskrá? Eða hvað sem er annað? Það eru margir hópar sem gætu tekið upp markvissari hagsmunabaráttu. Án baráttu verður engin breyting. Það er lærdómur sögunnar.

Fundurinn er á vegum Maístjörnunnar styrktarsjóðs. Maístjarnan er sjóður sem styður hin verr settu í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum. Maístjarnan vinnur að því að efla og styrkja rödd hinna verr settu og aðstoða þau við að leggja fram kröfur sínar og knýja á um að framtíðarlandið verði mótað að hagsmunum alþýðunnar.

Á fundinum verður fjallað um hvað skipulögð samtök gera fyrir hópinn og þau sem taka þátt í baráttunni, hvernig hópurinn styrkist en líka þau sem leggja til baráttunnar. Fjallað verður um að muninn á klíkum og baráttuhópum og hvernig hægt er að byggja upp öfluga heild úr ósamstæðum hópi.

Allt áhugafólk um réttlátt samfélag er hvatt til að mæta. Fólk er hvatt til að koma með hugmyndir að nýjum félögum, öðrum sem má styrkja eða opinn hug og hjarta; kannski kvikna hugmyndir á staðnum, kannski hittir þú fólk í sömu aðstæðum og þið finnið leið til að standa saman í baráttunni.

Fundurinn hefst kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30. Kaffi, te og meðlæti fæst ódýrt. Fundurinn fer fram í Dósaverksmiðjunni Borgartúni 1.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram