En finir avec Eddy Belleguele
Pistill
15.03.2019
En finir avec Eddy Belleguele er fyrsta skáldsaga frönsku bókmenntastjörnunnar og talsmanni hinna lægst settu og undirokuðu Édouard Louis. Hefur hann verið töluvert í umræðunni undanfarið, bæði vegna nýjustu bókar sinnar sem var koma út í enskri þýðingu – Qui a tué mon pere eða Who Killed My Father á ensku – sem og vegna mótmæla gilet jaunets eða gulu vestanna í Frakklandi. Mótmæli sem hafa auðvitað breiðst út til annarra landa og Louis, í krafti viðfangsefni bóka hans, er mikið búinn að vera í viðtölum og fjölmiðlum þar sem hann reynir að útskýra hvað er að eiga sér stað.
Ég hef þó ekki orðið var við mikla umræðu um þennan stórmerka franska rithöfund, eða áhuga á honum, á íslensku. Þrátt fyrir að fyrsta bók hans hafi komið út 2014 og gerði hann að einni stærstu bókmenntastjörnu Frakklands nánast yfir nótt. Í dag er jafnvel talað um hann og Houellebecq sem tvo risa nútíma franskra bókmennta. Tel því fulla ástæðu til að eyða nokkrum orðum í fyrstu bókina hans.
Sjálfur las ég hana reyndar í danskri þýðingu, en á íslensku væri kannski hægt að þýða titilinn sem Búinn með Eddy Belleguele. Vakti bókin mikla athygli og umtal í heimalandinu og hefur hún gert hinn unga rithöfund að stórstjörnu bókmenntaheimsins þar í landi. Það er ekki aðeins sú staðreynd að bókin er listilega vel skrifuð sem hefur gert hana svo umtalaða heldur ekki síður framsetning Louis á verkamannastétt nútímans; en bókin er bein árás á þá útbreiddu hugmynd að bein stéttabarátta heyri sögunni til þar sem skilin á milli stétta hafi verið afmáð í „póst-pólitískum“ upplýsinga- og tæknisamfélögum nútímans.
Þrátt fyrir að bókin sé kynnt sem skáldsaga, og sverji sig í ætt við klassíska Bildungsroman, er hún einnig að mestu endurminning sem segir frá uppvaxtarárum höfundarins í fátækum verkamannabæ í Norður-Frakklandi. Faðir hans er atvinnulaus en vann áður í verksmiðju – helstu lífæð bæjarins þar sem nánast allir karlmennirnir vinna. Móðir hans er heimavinnandi en tekur einnig að sér að baða eldri borgara til að drýgja tekjur heimilisins. Heimurinn sem Louis dregur upp einkennist helst af ofbeldi, fátækt, alkóhólisma, vonleysi, hatri á hinum efri stéttum ásamt mjög ákveðnum og niðurnjörvuðum hugmyndum um hlutverk kynjanna og hvað það er að vera karlmaður. Höfundurinn upplifir sig vægast sagt utangátta í þessum heimi þar sem hann kemst mjög ungur að því að hann er samkynhneigður, eitthvað sem fer ekki framhjá skólafélögum hans og verður til þess að hann er lagður í hryllilegt einelti.
Édouard Louis hefur ekki aðeins látið til sín taka í bókmenntaheiminum heldur einnig ritstýrt fræðiriti um Pierre Bourdieu, ásamt því að skrifa ritgerðir um félags- og hugvísindi sem einnig hafa verið gefnar út. Þessi áhugi hans á Bourdieu er áberandi í bókmenntaverkinu, en hann fjallar þar á ítarlegan hátt um ofbeldi, ekki aðeins andlegt og líkamlegt heldur ekki síst táknrænt, ásamt drottnun og undirgefni í félagslegum samskiptum.
Allir í kringum Eddy minna hann í sífellu á stöðu hans á botni valdastrúktúrsins, jafnvel fjölskylda hans. Hann er beittur líkamlegu ofbeldi af bekkjarfélögum sínum, en það er þetta táknræna ofbeldi sem birtist í uppnefningum, niðurlægingum og neitun á stöðu innan hópsins sem reynist hvað sársaukafyllst. Eddy upplifir þó ofbeldið ekki sem óréttlátt heldur verðskuldað, og finnst að hann geti sjálfum sér um kennt að vera öðruvísi. Hann reynir þannig að brjótast út úr hlutverkinu með því að samsama sig þeim sem leggja hann í einelti. Hann reynir að vera „svalur gaur“ með því að fá sér kærustu, vera sama um skólann, leggja aðra í einelti, o.s.frv. Þessar tilraunir fara þó út um þúfur og á endanum áttar hann sig á því að hann verður að koma sér burt ef hann á yfirhöfuð að lifa af.
Skáldsagan er full af athyglisverðum innsýnum inn í þversagnarkennt og flókið eðli félagslegra samskipta og valds. Þannig býður hún ekki einungis uppá mjög áhugaverða og nuanseraða stéttagreiningu – hvernig kyngervi og kynhneigð fléttast saman við stéttakúgun og vitund er eitthvað sem gerir bókina hreinlega að skyldulesningu.
Til dæmis eru bekkjarfélagar Eddys sem leggja hann í einelti sífellt að sýna á sér kynfærin og stunda sjálfsfróun saman – eitthvað sem hann tekur ekki þátt í. Þrátt fyrir það er hann sá eini sem er uppnefndur sem hommi og beittur ofbeldi af þeim sökum. Eins stundar Eddy kynlíf með frænda sínum í einum kafla bókarinnar. Það kemst upp þegar móðir hans kemur að þeim. Fréttirnar um þennan atburð berast hratt um bæinn en Eddy er sá eini sem líður fyrir það á meðan að enginn uppnefnir frænda hans homma, þótt hann sé auðvitað alveg jafn „sekur“ og hafi átt frumkvæðið að kynlífinu.
Þrátt fyrir að Eddy sé beittur ofbeldi af nánast öllum er alltaf einhver fyrir ofan allar persónur bókarinnar sem beitir þær ofbeldi. Bekkjarfélagar hans sem beita hann ofbeldi eru beittir ofbeldi af öðrum, svalari krökkum og foreldrum sínum. Móðir hans sem uppnefnir hann er beitt ofbeldi af föður hans. Atvinnulaus faðir hans er lagður í einelti af hinum karlmönnunum sem hafa vinnu. Íbúar bæjarnir, sem allir eru beittir táknrænu ofbeldi af hinum efri-stéttum, beita innflytjendur ofbeldi og lýsa í sífellu yfir andúð sinni á þeim. Þannig er samfélagið allt gegnsýrt af ofbeldi sem leiðir undantekningarlaust af sér meira ofbeldi gagnvart þeim sem eru neðar í valdastrúktúrnum.
Lífið á botninum hefur ekki aðeins andlegar afleiðingar. Louis lýsir líka ítarlega þeim líkamlegu. Faðir hans er atvinnulaus eftir að hafa eyðilagt á sér bakið í verksmiðjunni. Frænka hans eyðileggur í sér úlnliðina tuttugu og fjögurra ára gömul sem kassadama – örlög sem eru mjög algeng. Frændi hans reykti og drakk sig til dauða og flestir karlmennirnir virðast stefna í sömu átt. Næstum allar persónur bókarinnar þjást af einhverjum alvarlegum veikindum en þær deila einnig djúpu vantrausti á heilbrigðiskerfinu og fara því aldrei til læknis.
Í bókinni má einnig finna mjög öfluga og áhrifaríka framsetningu á fátækt. Fjölskylda Eddys – og flestar aðrar fjölskyldur bæjarins – eru bláfátækar í efnahagslegum skilningi. Það er oft ekki til peningur fyrir mat. Skemmdir á húsinu eru aldrei lagaðar og eru veggirnir því götóttir. En það er þó ekki endilega þessi efnahagslega fátækt sem er hvað erfiðust. Ekki síður alvarlegri er, ef við grípum til hugtaka Bourdieu, menningarlega og táknræna fátæktin sem er algjör. Vonleysið stafar ekki aðeins af peningaleysinu heldur einnig að miklu leyti af algjörum skorti á menningarlegum, félagslegum og táknrænum kapítal. Eina menningarlega athöfnin sem er til staðar er sjónvarp heimilisins sem er alltaf í gangi og faðirinn horfir á allan liðlangan daginn. Annars lýsa flestar persónur bókarinnar oftast yfir andúð á lærdómi og menningu og skortir alla þekkingu og hæfileika sem millistéttin gengur að vísum. Þær eiga bágt með að skilja mál efri-stéttanna og gera grín að þeim. Íbúar bæjarins hafa mjög litla möguleika á að bæta kjör sín þar sem þeim er alls staðar mætt af fordómum af hinum efri-stéttum vegna skorts á táknrænu kapítali.
Höfundurinn náði þó að brjótast út úr þessum aðstæðum og stundar nú nám við École Normale Supérieure í París. Í viðtölum hefur hann mikið rætt um þessa fordóma sem hann mætti þegar hann hóf inngöngu sína inn í efri lög samfélagins. Þeir eru aðallega tvenns konar samkvæmt honum. Annað hvort hefur milli-stéttin andúð á verkamannastéttinni, eða hún dáist að henni vegna einhverja rómantískra hugmynda um að verkafólk lifi á einhvern hátt mun göfugra og innihaldsríkara lífi en ríkt fólk, að það hafi meiri heilindi (eitthvað sem er mjög áberandi í vinsælum kvikmyndum og Slavoj Zizek hefur nefnt Hollywood-marxisma). En báðar þessar afstöður eru byggðar á alveg jafn miklum fordómum og er bókin tilraun höfundarins til að berjast gegn þeim.
Édouard Louis er þannig orðinn hluti af langri hefð rithöfunda sem skandaliserað hafa frönsku þjóðina með hispurslausum frásögnum af hinum undirokuðu, útskúfuðu og ósýnilegu eins og til dæmis Émile Zola og Marcel Proust gerðu á sínum tíma. Á sama tíma má greina áhrif frá Stendhal en eins og Le Rouge et le Noir er skáldsaga Louis í grunninn ferðalag ungs manns frá botni samfélagsins til efri-stéttarinnar. Ólíkt Julien Sorel er Eddy Belleguele þó ekki drifinn áfram af metnaði heldur hreinni sjálfsbjargarhvöt.
Gildi skáldsögunnar liggur þó aðallega í því að hún er tilraun til að koma stéttabaráttunni aftur á kortið, baráttu sem á sér enn stað þrátt fyrir að umræðan um hana hefur að mestu leyti verið tekin út af borðinu. Það eru aðeins þeir sem eiga alltaf fyrir mat og hafa rödd í samfélaginu sem geta leyft sér að líta á pólitík sem andlausan teknókratisma og stéttabaráttu sem úrelda. Fyrir þeim sem eru nær eða á botninum hinsvegar, sem finna fyrir afleiðingum hennar á eigin skinni, er pólitík bókstaflega spurning um líf eða dauða.