Stéttaskipting í skólum er staðreynd

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Stéttaskipting í samfélaginu okkar er staðreynd og stéttaskipting á meðal barna í skólum er líka staðreynd. Svo virðist sem að stéttaaðgreining á milli hverfaskóla sé einnig að eiga sér stað í auknu mæli hér á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi eru um skóla þar sem næstum því helmingur barnanna koma frá 20 prósent efnamestu heimilunum, svo eru einnig dæmi um skóla þar sem nær enginn börn koma frá þessum efnameiri heimilum. Auður Magndís Auðardóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir hafa rannsakað þessi mál og á sósíalistakaffi sem var haldið 20. mars síðastliðinn, greindi Auður nánar frá rannsóknarniðurstöðunum. Hér á landi er sterk hefð fyrir hverfisskólum, þ.e.a.s. börn ganga í skóla í því hverfi sem þau búa í og sé litið til stéttastöðu út frá efnahag, menntun og uppruna má sjá að stéttaðgreining á milli hverfa hefur verið að aukast síðustu tuttugu árin.

Hinir allra auðugustu búa aðallega í nokkrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu, börn þeirra ganga því mörg hver í sömu skólanna, að miklu leyti með öðrum börnum úr þeirri sömu stétt. Við mælum með því að hlusta á erindi Auðar hér (hefst í kringum fjórðu mínútu):

Sósíalistakaffi 20. mars 2019, Stéttskipting í skólakerfinu. Auður Magndís Auðardóttir kynnir rannsóknir sínar á stéttaskiptingu í skólum í Reykjavík og Kolbeinn H. Stefánsson sínar rannsóknir á stöðu fátækra barna. Sanna Magdalena Mörtudóttir og Daníel Örn Arnarsson borgarfulltrúar sósíalista kallar eftir tillögum, aðgerðum og öðru sem getur fengið borgaryfirvöld til að bregðast við vaxandi stéttamun í skólakerfinu.

Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on Miðvikudagur, 20. mars 2019

Auður bendir á að ef að skólarnir þróast á þann veg að öll börn séu úr sömu stétt, glatist tækifærið til að kynnast mismunandi börnum. Ef að ekkert barn úr verkamannastétt er í skólanum þínum, þá kynnast börn efri stéttanna ekki veruleika barna í annarri stöðu og slíkt getur gert það að verkum að börn frá efnameiri heimilum eru ófær um að skilja að það hafi það ekki allir gott fjárhagslega.

Barnafátækt var erindi Kolbeins H. Stefánssonar á umræddu sósíalistakaffi um stéttaskiptingu í skólum en nýverið gaf hann út skýrslu um þróun lífskjara og fátækar barna á árunum 2004-16, sem hann vann fyrir Velferðarvaktina (hana má lesa hér: Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016. Kolbeinn bendir á að við höfum lengi vel búið við þá mýtu að við séum stéttlaust samfélag. Þó að lífskjör séu almennt góð á Íslandi, þá er fátækt til staðar, jafnt sem fátækt á meðal barna og þau eru jafnvel aðeins líklegri til að búa við fátækt en fullorðnir. Fátækir foreldrar eru ekki alltaf meðvitaðir um að börn þeirra vilji vera í tómstundastarfi, þar sem börnin biðja ekki endilega um það þó að áhugi sé fyrir hendi. Börn sem búa við fátækt eru gríðarlega meðvituð um fjárhagsstöðuna á heimili sínu og eru miklu meðvitaðri um slíkt miðað við önnur börn, þau skilja hver staðan er og læra að setja sig í annað sæti. Kolbeinn bendir á að það sé ekki tímabundið ástand, heldur að þetta verði leið barnanna til þess að hugsa um sig, ákveðið hugarfar sem fylgi þeim út í lífið.

Tillögur okkar sósíalista í borgarstjórn hafa snúið að því að vekja athygli á kostnaðinum sem fylgir skóla- og frístundastarfi, kostnaði sem margir virðast ekki vera meðvitaðir um en geta hamlað þátttöku barna í ýmsu félagslegu starfi.  Eitt af fyrstu baráttumálum Sósíalistaflokks Íslands er að gera menntun á öllum skólastigum gjaldfrjálsa. Efnahagsleg staða á ekki að hindra þátttöku í námi. Fyrsta skólastigið er leikskólinn. Þó að leikskólagjöldin Reykjavíkurborgar séu einna lægst á öllu landinu, þá kostar samt sem áður 25.956 krónur á mánuði fyrir barn að dvelja átta klukkustundir á dag í leikskólanum með fullu fæði. Einstæðum foreldrum, öryrkjum og foreldrar sem eru báðir í námi geta fengið afslátt af leikskólagjöldum og þá kostar sami mánuðurinn 17.259 krónur.

Eftir því sem að barnið eldist og hefur nám í grunnskóla greiða foreldrar hærra gjald vegna skóla- og frístundaviðveru barna sinna á skóladeginum. Grunnskólamáltíðir kosta 9.800 krónur á mánuði og ef barn dvelur síðan fimm daga í viku á frístundaheimili að skóladegi loknum, er mánaðargjaldið þar með síðdegishressingu 17.786 krónur á mánuði. Samtals greiðir því einstæða foreldrið eða foreldrið á örorkubótum 27.586 krónur á mánuði í gjöld fyrir grunnskólabarnið sitt, eða um tíu þúsund krónum meira mánaðarlega frá því að barnið dvaldi heilan dag á leikskóla. Vissulega er hægt að nýta frístundakortið sem er 50.000 krónur styrkur sem er veittur árlega, upp í greiðslu frístundaheimila en það dugar ekki einu sinni fyrir þremur mánuðum og þá glatast einnig tækifærið til að nýta það sem inneign í aðra frístundastarfsemi.

Tillaga okkar sósíalista um að afsláttur af leikskólagjöldum eigi einnig við um gjöld á frístundaheimilum fékk ekki brautargengi í skóla- og frístundaráði. Á meðan að skólarnir eru ekki gjaldfrjálsir er mikilvægt að tryggja að það verði ekki mikill útgjaldaauki fyrir foreldra þegar börn þeirra skipta um skólastig, sérstaklega fyrir þá foreldra sem standa illa efnahagslega. Nýlegar breytingar gera það að verkum að barnafjölskyldur greiða einungis eitt námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig og frá og með áramótunum 2021 greiða barnafjölskyldur mest fæðisgjöld fyrir tvö börn þvert á skólastig. Það eru skref í rétta átt en gerir ekki neitt fyrir foreldra sem eiga eitt barn. Í ljósi þessara nýrra breytinga taldi meirihlutinn ekki rétt að ráðast í frekari breytingar á gjaldskrám á þessari stundu, en nefndi að það kynni að vera gert í framtíðinni. Ef litið er til fjölda þeirra sem fá afslátt á leikskólagjöldum og það yfirfært á frístundagjöld, myndi kostnaðurinn nema  39,9 m.kr. á ári (sjá nánar hér: Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að afsláttur á leikskólagjöldum eigi einnig við um gjöld á frístundaheimilum). Í stóra samhenginu er það ekki mikið af tekjum borgararsjóðs en myndi muna miklu fyrir margar fjölskyldur. Á meðan að skólar eru ekki orðnir gjaldfrjálsir er mikilvægt að tryggja að gjaldskrár skóla- og frístundasviðs séu ekki íþyngjandi, þá er líka mikilvægt að auka samræmið í gjaldskrám.

Kostnaðurinn er á fleiri stöðum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og til að varpa ljósi á hann lögðum við sósíalistar fram tillögu um að kostnaður vegna viðburða, skemmtana og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar yrði kannaður. Hér er um að ræða alla þá viðburði sem eru á einn eða annan hátt á vegum grunnskólanna, þ.m.t. skólaferðir, dansleiki, bekkjarkvöld og viðburði foreldrafélaga. Það var vel tekið í þá tillögu og þar sem slík skráning hafði ekki farið fram áður var ákveðið í lok síðasta árs að slíkt tæki gildi á næsta skólaári. Þar verður umfang kostnaðarins kannað, óskað verður eftir upplýsingum um þátttöku barna og kostnaðurinn sundurliðaður eftir skólum og hverfum borgarinnar.

Sem uppkomið fátækt barn deilir maður sennilega þeirri reynslu með öðrum fyrrum fátækum börnum, að hafa forðast staði þar sem maður þarf mögulega að greiða fyrir að fá að taka þátt. Það myndi sennilega létta stresssinu af litlu herðum fátæku barnna ef þau myndu ekki þurfa að hafa áhyggjur af gjaldtöku hér og þar. Ef að börn væru þess fullviss um að frístundastarf, viðburðir og félagsmiðstöðvar væru gjaldfrjáls, gætu þau áhyggjulaus tekið þátt í því félagsstarfi sem borgin hefur upp á að bjóða fyrir börn. Það er því gríðarlega mikilvægt að við séum meðvituð um alla þá staði þar sem verið er að rukka fyrir þátttöku.

Enginn kostnaður fylgir því að mæta í félagsmiðstöð þegar það er opið hús en félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar bjóða upp á félagsstarf fyrir 10-16 ára gömul börn. Þegar það kemur að skemmtunum og viðburðum er kostnaði haldið í lágmarki og í  þeim tilvikum sem gjald er innheimt er það staðgreitt eða innheimt eftir á. Óljóst er að sjá hvenær skemmtanir og aðrir viðburðir félagsmiðstöðva eiga sér stað og getur slíkt sett efnalitla foreldra í mjög erfiða stöðu, þ.e.a.s. að þurfa að mæta óvæntum útgjöldum eða að geta ekki boðið börnum sínum að taka þátt í starfi félagsmiðstöðva. Slíkt setur fátæk börn líka í mjög erfiða stöðu, því þau eru meðvituð um að hver 500 kall skiptir máli, þó að sumum finnist það lítið er það mikið fyrir marga. Við sósíalistar lögðum því til að skóla og- frístundasvið kanni þann kostnað sem hefur verið innheimtur af foreldrum vegna skemmtana eða annarra viðburða hjá félagsmiðstöðvum síðasta árið og geri ráð fyrir þeim útgjaldaliðum í fjárhagsáætlun árið 2019, svo að sú starfsemi verði börnum gjaldfrjáls.

Í ljós kom m.a. fram að þátttaka í starfi félagsmiðstöðva fyrir 13-15 ára unglinga, kostar tæpar 1.000 kr. á mánuði yfir vetrartímann, að frátöldum skíðaferðum. Meðalkostnaður getur þó hækkað um allt að 2.000 kr. á mánuði yfir vetrartímann, með þátttöku í einni skíðaferð sem kostar um 20.000 kr. sem er langdýrasti viðburðurinn á vegum félagsmiðstöðva (sjá nánar dagskrá tveggja félagsmiðstöðva hér og gjald vegna viðburða: Umsögn skóla- og frístundasviðs vegna tillögu Sósíalistaflokks Íslands um gjaldfrjálst félagsmiðstöðvastarf. Þátttakendum stendur til boða að taka þátt í fjáröflun en það getur verið misjafnt hver tekur þátt í því hverju sinni. Það getur t.a.m. verið erfitt fyrir börn að taka þátt í fjáröflun, t.d. ef félagslegt tengslanet fjölskyldunnar og barnsins er ekki stórt. Sé litið til viðburða, má sjá að unglingar hafa oft val um að kaupa t.d. ís, pizzu eða annað og starfsfólk er mjög meðvitað um að greiða fyrir börn sem vitað er um að búi við fátækt.

Skóla- og frístundasvið hefur vakið athygli á því að starfsfólk félagsmiðstöðva hafi vakað yfir því að það sé ekki hindrun fyrir þátttöku í viðburðum félagsmiðstöðva að fjármagn á heimili sé af skornum skammti og boðið viðkomandi að taka þátt án greiðslu. Það getur þó verið óþægilegt fyrir börn og foreldra þeirra að þurfa að upplýsa um erfiða fjárhagsstöðu sína. Það er mat sósíalista í borginni að enginn eigi að þurfa að upplýsa sérstaklega um erfiða stöðu til að gæta þess að barn þeirra geti tekið þátt í viðburðum félgasmiðstöðva eða öðru skipuögðu frístundastarfi. Þá á það ekki að hanga á herðum barna að þurfa að vera þess viss um að  hafa upplýst um stöðu sína til að geta tekið þátt í viðburðum á vegum félagsmiðstöðvanna. Þessi tillaga hefur ekki enn fengið afgreiðslu skóla- og frístundaráðs en vonað er að hún verði samþykkt.

Í þeim tilfellum sem foreldrar geta ekki greitt gjöld vegna skóla- eða frístundaþátttöku barna sinna fer málið í innheimtuferli og á borð fyrirtækja á við Momentum og síðar Gjaldheimtunnar takist ekki að innheimta skuld. Þetta innheimtuferli á við um allar skuldir borgarbúa. Sósíalistar vildu færa skuldir borgarbúa frá fyrirtækjum sem leggja hlufallslega há gjöld á skuldir, yfir á borð borgarinnar sem gæti þá leitað við að halda innheimtukostnaði fyrir fátækt fólk í lágmarki. Þannig væri borgin ekki að veita hagnaðardrifnum félögum skuldir einstaklinga sem eru í erfiðri fjárhagslegri stöðu. Þá lögðum við einnig til að viðmót innan innheimtu Reykjavíkurborgar yrði aðlöguð að þörfum notenda þar sem að ferlið yrði gert aðgengilegra og hlýlegra en það sem má finna innan núverandi innheimtufyrirrtækja (hér má sjá umsögn fjármáalastjóra um tillöguna: Tillaga um breytingar á innheimtu hjá borginni. Tillagan var því miður felld en það þýðir ekki að sósíalistar séu hættir í vegferð sinni í átt að því að færa innheimtuaðferðir frá hagnaðardrifnum fyrirtækjum.

Sé litið til vanskila foreldra við skóla- og frístundasvið, þá eru skilyrði fyrir leikskóladvöl þau að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við sviðið vegna leikskólagjalda. Ef foreldrar eru í vanskilum við sviðið þá geta þau leitað úrlausna hjá félagsráðgjöfum á þjónustumiðstöðum borgarinnar. Þar geta foreldrar sótt um aðstoð vegna greiðslu vangoldinna gjalda og getur slíkt jafnvel leitt til afskrifta skulda. Þó að allra leiða sé leitað til að fyrirbryggja að skuldastaða hafi slæm áhrif á börnin, þá er mikilvægt að afnema skilyrðin um að foreldrar séu ekki í vanskilum, svo þau hafi ekki fráhrindandi áhrif þegar sótt er um leikskóladvöl. Rétt er að taka það fram að engu barni hefur verið synjað um leikskólavist af skóla- og frístundasviði vegna vanskila foreldra síðustu þrjú árin a.m.k.

Verklagið er á þann veg að þegar foreldrar sækja um leikskólavist, fá þau upplýsingar um hvort að vanskil séu til staðar. Foreldrar sem hafa samband býðst að fá úrlausn mála með greiðsludreifingu vanskila í samræmi við greiðslugetu þeirra. Þeim sem ekki telja sig geta greitt er bent á fjárhagsaðstoð velferðarsviðs. Það er jákvætt að unnið sé eftir verklagsreglum sem tryggja að börn verði ekki af nauðsynlegri grunþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra. Slíkt breytir þó ekki þeirri staðreynd að mögulega væri látið á það reyna að meina barni leikskólainngöngu ef að foreldri gerir ekki upp skuldir við skóla og- frístundasvið. Ef allra leiða hefur verið leitað við að fá foreldra til að greiða vangoldin gjöld án árangurs, þá ber aldrei að refsa börnum fyrir efnahagsstöðu eða félagslega stöðu foreldra sinna. Með því að tilgreina að hægt sé að meina börnum aðgang að leikskóla er verið að greina frá því að hægt sé að svipta þau rétti þeirra til náms. Engar tekjur, engin gjöld ætti að vera útgangspunktur borgarinnar í allri þjónustu við börn. Börn hafa ekki tekjur, afhverju er þá verið að rukka þau fyrir skóla- og frístundastarf?

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram