Strætófarþegar eiga að skipuleggja almannasamgöngur

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Framtíðin í borginni og hvernig hún muni mögulega líta út, er eitt umræðuefnið á borgarstjórnarfundi dagsins í dag. Undir þau málefni falla þættir líkt og samgöngu- og skipulagsmál. Þróun þeirra mála hefur áhrif á margt sem er til umræðu hér, líkt og það að draga úr neikvæðum áhrifum mikillar bílaumferðar og úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þó að borgarlína sé á dagskrá, þá er  talsverður tími í að það verði að veruleika. Þangað til þurfum við að stórefla almenningssamgöngur, bæði fyrir þá sem treysta algjörlega á það kerfi og hafa greint frá því að það sé ekki nógu skilvirkt og áreiðanlegt en líka fyrir þá sem væru til í að nota almenningssamgöngur oftar en sjá það ekki sem raunverulegan valkost sem hægt er að treysta á til að komast allra leiða sinna.

4% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu eru farnar með með strætó og yfirlýst markmið sveitarfélaganna snýr að því að auka þá tölu upp í a.m.k 12% eigi síðar en árið 2040. Hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum, þ.e.a.s. þessi 4% sem um er að ræða, hefur hinsvegar staðið í stað síðan 2012. Það vantar því eitthvað í þessa jöfnu ef markmiðið á að nást. Þær aðferðir sem hafa verið notaðar hingað til hafa greinilega ekki verið að virka og ég spyr þá, afhverju lögum við ekki kerfið út frá því sem strætófarþegar, sem nota strætó alla daga, hafa verið að benda á? Hvernig getum við litið fram hjá þörfum þeirra og væntingum til kerfisins og hvað þurfi að bæta?

Yfirvöld virðast oft líta svo á að borgarlínan sé lausnin sem muni sjálfkrafa leysa mikinn vanda, að um leið og hún sé komin muni miklu fleiri allt í einu vilja nýta sér almenningssamgöngur. Tilkoma borgarlínu ein og sér mun sennilega ekki skyndilega leiða til þess að margir leggji bílnum sínum og fari að ferðast með borgarlínunni. Ég trúi því að fyrst þurfi fólk að vita að almenningssamgöngur séu áreiðanlegur valkostur. Til þess þarf að bæta núverandi kerfi. Ég tel að ástæðan fyrir því að margir nýti sér ekki almenningssamgöngur núna sé vegna þess að það er mjög erfitt að treysta á núverandi kerfi til að komast allra leiða sinna, á auðveldan máta og samt að ná að vera mættur á réttum tíma á réttan stað. Við þurfum því að byggja upp kerfið út frá reynslu þeirra sem nota strætó á hverjum einasta degi. Þannig sköpum við betri almenningssamgöngur og þannig aukast líkur á því að fleiri vilji nota þær.

Leiðakerfismál hafa oft verið sett fram sem tæknilegt úrlausnarefni sem fræðingar með gráður í ýmsum fræðum séu best til þess fallnir að hanna. Ég er ekki að draga úr þeirri þekkingu en það vantar hinsvegar þekkingu sérfræðingana. Hér er ég að tala um sérfræðingana sem þurfa að treysta á strætó alla daga ársins, eða allavegna alla daga ársins sem akstur fer fram, því þeim býðst enginn annar valkostur. Það vantar raddir þeirra inn í þessa skipulagsvinnu, ef að þeir fengu að bæta allt sem þeir reka sig á þá trúi ég því að við myndum fá miklu betra strætókerfi, miklu betri almenningssamgöngur. Afhverju erum við að líta fram hjá þessum viskubrunni? Ég veit að það er starfandi hópur sem vinnur að leiðakerfisbreytingum út frá aðlögun að borgarlínu og að þar er fulltrúi notenda en afhverju eru almenningssamgöngur ekki hannaðar að þörfum notenda. Ímyndiði ykkur hvað kerfið yrði áreiðanlegt ef allt yrði lagað sem strætófarþegar hafa verið að benda á.

Er litið svo á að fólk sem ferðast með strætó vilji ekki fara í tíubíó á sunnudagskvöldum, eiga þau bara að fara í átta bíó svo að þau nái pottþétt strætó heim? Það eru ekki allir sem hafa efni á leigubíl heim og þurfa því að skipuleggja ferðir sínar og félagslega viðburði mjög vel þar sem ekkert má út af bregða. Afhverju er gert ráð fyrir því að fólk sem notar strætó þurfi ekki að vera mætt neitt á sunnudagsmorgnum? Flestir vagnarnir byrja að ganga rétt fyrir eða í kringum klukkan tíu á morgnanna, hvað á fólk að gera sem þarf að vera mætt eitthvert klukkan átta á sunnudagsmorgnum? Afhverju þarf að taka þrjá strætóa úr vesturbænum til að komast í Ikea? Afhverju er enginn einn vagn sem fer frá Árbæ upp í Hafnafjörð, þetta eru bæði stórar skiptistöðvar. Afhverju kostar 470 krónur að fara eina ferð með strætó ef þú átt ekki stætókort? Afhverju er stefnt að því að fargjaldatekjur standi undir allt að 40% af almennum rekstrarkostnaði Strætó. Við erum að tala um þjónustu við almenning, þjónustu sem borgarbúar þurfa á að halda, afhverju er markmiðið á að fargjöld standi undir svo stórum hluta rekstursins? Afhverju dugar skiptimiði ekki fyrir foreldri til að ná að komast með öll börnin sín í skólana sína og aftur heim? Afhverju er enginn strætó sem stoppar fyrir utan Hitt Húsið, miðstöð ungs fólks sem flutti nýverið upp á Rafstöðvarveg? Afhverju eru ekki lengur tímatöflur í Kringlunni sem sýna hvenær vagnarnir fara frá verslunarmiðstöðinni? Afhverju er ekki lengur hægt að kaupa leiðabækur með tímatöflum? Það eru ekki allir með síma eða net í símanum eða kunna á snjallsíma og það ætti líka ekki að þurfa að vera þannig, aðgengið að upplýsingum á að vera til staðar.

Afhverju erum við að gera fólki svona erfitt fyrir? Enginn furða að þeir sem eigi bíl, kjósi frekar að nota hann. Ef það væri auðveldara að nota almenningssamgöngur þá er ég viss um að fleiri myndu gera það og að slíkt leiði til minni mengunar og minni bílaumferðar. Við þurfum að stórefla almenningssamgöngur út frá reynslu þeirra sem þekkja best til málanna.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram