Frá Trump til Johnson: þjóðernissinnum vex ásmegin – með stuðningi óligarka milljarðamæringa
Pistill
06.08.2019
Fyrir sjö árum kvartaði eftirherman Rory Bremmer yfir því að stjórnmálamenn væru orðnir svo leiðinlegir að fáir væru einu sinni þess virði að herma eftir: „Þeir eru mjög einsleitir og daufir þessa dagana .. það er eins og litið sé á karakter sem neikvæðan eiginleika.“ Í dag er glímt við öfugt vandamál: það skiptir varla máli hversu öfgakennd satíran verður, hún nær ekki að halda í við raunveruleikann. Stjórnmálin, svo leiðinleg og litlaus fyrir fáeinum árum, eru núna yfirfull af heimskulegum athyglissjúklingum.
Þessi þróun er ekki afmörkuð við Bretland – allstaðar eru banvænu trúðarnir að komast til valda. Boris Johnson, Nigel Farage, Donald Trump, Narendra Modi, Jair Bolsonaro, Scott Morrison, Rodrigo Duterte, Matteo Salvini, Recep Tayyip Erdoğan, Viktor Orbán og fjöldi annarra heimskulegra sterkra leiðtoga (e.strongmen) – eða aumingja (e.weakmen) eins og þeir reynast svo oftar en ekki vera – drottna yfir samfélögum sem hefðu áður hlegið þá út af sviðinu. Spurningin er hversvegna? Hversvegna eru teknókratarnir sem réðu töglum og höldum nánast alls staðar fyrir fáeinum árum að lúta í lægri haldi fyrir þessum stórkostlegu flónum?
Samfélagsmiðlar, einskonar útungunarvél fáránleikans, eru sannarlega hluti af sögunni. En á meðan að mikið af aðdáunarverðri vinnu hefur farið í að rannsaka meðalið, hefur ótrúlega lítil hugsun farið í tilganginn. Hversvegna eru hinu ofurríku, sem fyrir skemmstu notuðu auð sinn og fjölmiðla til að auglýsa og efla sjarmalausa stjórnmálamenn, nú farnir að fjármagna þennan sirkus? Hversvegna myndi kapítal vilja millistjórnendur sem fulltrúa sína eina stundina, og hirðfífl þá næstu?
Ástæðan er, að ég held, sú að eðli kapítalismanns hefur breyst. Dóminerandi vald níunda og tíunda áratugarins – stórfyrirtækjavaldið (e. corporate power) – krafðist teknókratískrar ríkisstjórnar. Stórfyrirtækin vildu fólk sem gat rekið öruggt ríki af hæfni, á sama tíma og það varði hagnað þeirra fyrir lýðræðislegum breytingum. Árið 2012 þegar Bremmer lýsti umkvörtunum sínum var valdið þegar farið að færast, stjórnmálin voru bara ekki komin eins langt.
Stjórnmálaaðgerðirnar og stefnur sem áttu að styrkja og styðja frumkvöðlastarfsemi – lækkun skatta á hina ríku, útrýmingin á vörnum almennings og verkalýðsfélögunum – efldu í staðinn öflugan spíral einræðislegrar auðsöfnunar. Mestu auðæfin eru í dag ekki fengin með snilldarlegri nýsköpun heldur í gegnum erfðir, einokun, og rentusækni: með því að tryggja eignarhald á lykil hlutum eins og innviðum, landi og húsnæði, einkavæddum ríkisfyrirtækjum og, hugverka eignum, og einokun þjónustu eins og markaðstorga, hugbúnaðarþjónustu og samfélagsmiðla. Þar sem rukkað er svo mun hærri gjöld en sem svarar kostnaði. Í Rússlandi eru þeir sem auðgast á þennan hátt kallaðir ólígarkar. En þetta er hnattrænt vandamál. Stórfyrirtækjavaldið í dag er markað af – og að umbreytast yfir í – óligarkíu.
Það sem óligarkarnir vilja er ekki það sama og gömlu stórfyrirtækin vildu. Með orðum uppáhalds kenningasmiðs þeirra, Steve Bannons, sækjast þau eftir “eyðileggingu stjórnarríkisins.” Nýju milljarðamæringarnir nærast á ringulreið, en slíkur hamfara kapítalismi margfaldar hagnað þeirra. Öll tækifæri eru notuð til að sölsa undir sig eignir sem líf okkar byggist á. Ringulreið Brexit ómöguleikans, sífelld brjálæðisköst Trumps og lokanir eða “shutdown” ríkisins: það eru svona eyðileggingar sem Steve Bannon hafði í huga. Á meðan stofnanir, regluverk og lýðræðisleg eftirlit molnar taka ólíkarkarnir sér sífelt meira vald á okkar kostnað.
Banvænu trúðarnir bjóða ólígörkunum líka uppá annað: truflun og afvegaleiðingu. Á meðan kleptókratarnir rýja okkur inn að beini erum við fengin til að líta undan. Við erum dáleidd af flónunum sem hvetja okkur að beina reiði okkar, sem réttilega ætti að beinast að milljarðamæringum, gegn innflytjendum, konum, gyðingum, múslimum, lituðu fólki og öðrum ímynduðum og hefðbundnum blórabögglum. Alveg eins og á fjórða áratugnum, er nýja lýðskrumið svindl, uppreisn gegn afleiðingum kapítalsins, fjármagnað af kapítalinu.
Áhugi ólígarkanna liggur allaf utan landsteinanna: í skattaskjólum og hjá stjórnvöldum leyndarhyggju. Eins þversagnarkennt og það er, þá eru þessir hagsmunir þeirra best tryggðir af þjóðernissinnum. Stjórnmálamennirnir sem hvað hæst tala um ættjarðarást sína og mikilvægi fullveldis eru alltaf fyrstir til að stinga þjóð sína í bakið. Það er engin tilviljun að flestir þeirra fjölmiðla sem boða stefnu þjóðernissinna, og kynda þar með undir hatur á innflytjendum á meðan básúnað er um fullveldi, eru í eigu milljarðamæringa í sjálfskipaðri skattaútlegð.
Eins og efnahagslífið, hefur stjórnmálalífið einnig verið fært úr landi. Reglurnar sem eiga að koma í veg fyrir að erlent fé sé notað í pólitískum tilgangi hafa hrunið. Þeir sem græða mest á þessu eru hinir sjálfskipuðu varðmenn fullveldisins, sem komast til valda með hjálp auglýsinga á samfélagsmiðlum, fjármögnuðum af huldumönnum, hugveitum og lobbýistum sem neita að upplýsa hvaðan fjármagnið kemur. Nýleg rannsókn eftir fræðimennina Reijer Hendrikse og Rodrigo Fernandez heldur því fram að aflands fjármálastarfsemi valdi „hömlulausri upplausn og markaðsvæðingar fullveldisins“ ásamt tilfærslu valds til erlendra laga- og leyndarsvæða handan stjórn nokkurs ríkis. Þeir halda því fram að í þessum aflandsheimi sé „fjármálavætt og ofur hreyfanlegt hnattvætt fjármagn í raun ríkið“.
Milljarðarmæringar dagins í dag eru hinir sönnu borgarar hvergisins. Þá dreymir um, líkt og plútókratarnir í hinni hryllilegu skáldsögu Ayn Rand, Atlas Shrugged, að komast enn lengra burt. Lítum á „seasteading“ verkefni eins stofnanda PayPayl, Peter Theil, sem vildi byggja gervi-eyju úti í miðju hafi, þar sem íbúarnir gætu raungert frjálshyggju fantasíu um að komast undan ríkinu, lögum þess, sköttum og verkalýðsfélögum. Það líður varla mánuður án þess að einhver milljarðamæringurinn stingi upp á því að yfirgefa hreinlega jörðina og setjast að á öðrum hnöttum.
Þeir sem fært hafa tilveru sína úr landi sækjast aðeins eftir því að komast enn lengra í burtu. Fyrir þeim, er ríkið bæði nauðsynlegur þjónustuaðili en líka kvöð, uppspretta auðs en líka skatta, uppspretta ódýrs vinnuafls en einnig reiðs og vanþakkláts skríls sem þeir verða að flýja frá og skilja eftir svo hann mun einn mæta sínum verðskulduðu örlögum.
Við verjum okkur fyrir óligarkíu með því að skatta hana til dauða. Það er er auðvelt að gleyma sér í umræðum um hvaða skattprósenta sé sú rétta til að hámarka tekjurnar. Finna má endalaus rök um Laffer-kúrvuna sem eiga að sýna fram á hvar rétta talan liggur. En þessar umræður gleyma mikilvægu atriði: öflun tekna er aðeins einn tilgangur skattlagningar. Hin ástæðan er að brjóta á bak aftur þennan spíral einræðislegrar auðsöfnunar.
Að brjóta á bak aftur þennan spíral er lýðræðisleg nauðsyn: annars munu ólígarkarnir, eins og við höfum séð, drottna yfir okkur heima og að heiman. Spíralinn mun ekki stöðvast af sjálfsdáðum: aðeins ríkið hefur vald til þess. Þetta er ein ástæða þess að á fimmta áratugnum hækkaði tekjuskattur í 94% í Bandaríkjunum og 98% í Bretlandi. Réttlátt samfélag þarfnast reglulega leiðréttingar á slíkum skala. En í dag færi betur á því að slíkar skattahækkanir beindust gegn uppsöfnuðum auð sem ekki hefur verið unnið fyrir.
En í aflandsheiminum sem milljarðamæringarnir hafa skapað er þó auðvitað mjög erfitt að koma slíkum djörfum aðgerðum í gegn: sem er að sjálfsögðu ætlunin. En í hið minnsta vitum þó hvert markmiðið ætti að vera og getum byrjað að sjá stærð áskorunarinnar. Ef það á að berjast gegn einhverju, þarf fyrst að skilja það.
George Monbiot
Þýtt af Andra Sigurðssyni og Jóhanni Helga Heiðdal