„Kaupthinking“ ríkisstjórnar.
Pistill
15.04.2020
Útspil ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna KOVID-19 veirunnar með lagasetningu gegnum Alþingi er fordæmalaus hér á landi bæði hvað varðar stærð og aðferðarfræði og eftir nokkra yfirlegu virðist sem ríkisstjórnin og Alþingi séu lögst í vegferð sem hvorki sér fyrir endann á, né vitað sé hvað muni kosta. Þegar kemur að ríkisfjármálum þjóðar er því ekki hægt að segja annað en að þetta líti út fyrir að vera ábyrgðarlaus leiðangur.
Svo það komi fram þá er í fjáraukalögunum sem samþykkt voru þann 30. mars síðastliðinn margt ágætra framlaga en það er tvennt sem stingur í augun þegar kemur að nánari skoðun. Það fyrra er heimildin upp á 140 milljarða til handa ríkissjóði vegna ríkisábyrgða á lánveitingar án trygginga vegna fyrirgreiðslu Seðlabankans til banka sem þjónusta atvinnulífið. Hér virðist sem farið sé í fordæmalausa vegferð til að ríkisábyrgðavæða fyrirtækjarekstur í landinu án tilskilinna veða og að því er virðist að mestu án skilyrða.
Þótt talað sé um að áhættan af lánveitingum til fyrirtækja skiptist til helminga á Seðlabankann og viðkomandi lánastofnun verður að hafa í huga að tveir af þremur bönkum landsins, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru í eigu ríkisins og því lendir öll áhættan þegar upp er staðið á skattgreiðendum. Í greinargerð með frumvarpinu eru sett átta skilyrði fyrir veitingu þessara ábyrgða en ekki verður séð að þau skilyrði séu nægilega skýr til að hægt sé að ramma inn þann kostnað sem af hlýst. Ekki er heldur að sjá að tilskilinn tímarammi til afturköllunar ábyrgðanna, sem er átján mánuðir, skipti máli þar sem, eins og áður sagði, tveir af þremur bönkum eru í eigu ríkisins hvort eð er. Að auki er fyrirhuguð tíu milljarða króna arðgreiðsla Arion banka til eigenda sinna (sem eru erlendir vogunarsjóðir) í maí næstkomandi sem blaut tuska í andlit aðferðarfræði ríkisstjórnarinnar, þar sem peningar ríkissjóðs, ergo skattgreiðenda, renna í raun beint í arðgreiðslur til eigenda bankans.
Hitt atriðið sem er smærra í sniðum en skiptir samt máli, er að ríkisvaldið hefur tekið að sér að greiða auglýsingakostnað fyrir ferðaiðnaðinn í landinu upp á einn og hálfan milljarð til að reyna að koma þeim bisness í gang aftur. Hér er einnig um óskilvirka útdeilingu á fé almennings til verkefnis sem ekki hefur verið skoðað hvort sé raunhæft og skili sér, þótt auglýsingstofur og starfsfólk þeirra njóti náttúrulega góðs af. Það ríkir einfaldlega algjör óvissa um framtíð ferðaiðnaðarins í landinu næsta árið eða svo.
Sú hugmynd ríkisstjórnarinnar að ríkissjóður taki að sér launagreiðslur í stórum stíl og greiði allt upp í 75% af launakostnaði fyrirtækja gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð (sem er ekki til sem sjálfstæður sjóður heldur er hluti af ríkissjóði) verður að teljast með þeim skrítnari og jafnvel óábyrgari sem litið hafa dagsins ljós. Þessi aðferðarfræði rennir algjörlega blint í sjóinn hvað varðar kostnað og tímalengd og er að auki sérlega óskilvirk eins og kom fram strax í upphafi þegar Bláa Lónið sem hefur greitt eigendum sínum um tólf milljarða í arð undanfarin sjö ár var eitt fyrsta fyrirtækið til að taka þátt.
Svona aðgerð er ekki aðeins óskilvirk þar sem fjöldi fyrirtækja sem ekki þarf á því að halda mun fá launakostnað sinn að stórum hluta greiddan af almannafé, heldur er hún einnig ógagnsæ því eftirlit með því hverjir sækja um og á hvaða forsendum er ekki til. Sú fullyrðing að þetta þurfi að gera til að þekking tapist ekki úr fyrirtækjunum stenst tæplega nema þá í undantekningatilvikum, því mesta höggið kemur á ferðaiðnaðinn og þar er stærstur hluti vinnuaflsins með þekkingu sem áfram verður til staðar þegar endurreisnin hefst. Auk þess er ómögulegt að segja hvenær þetta ástand endar og þegar búið er að skrúfa frá peningakrananum munu fyrirtækin að sjálfsögðu heimta áframhald þar á.
Þessi aðgerð ríkisstjórnarinn er líka undarleg þegar haft er í huga að til staðar eru kerfi sem eru þrautreynd og hafa reynst vel í efnahagslegum niðursveiflum hingað til, en það eru kerfi uppsagnarfresta þar sem viðkomandi starfsmaður fær full laun út uppsagnarfrest, í flestum tilvikum þrjá mánuði, og svo kerfi atvinnuleysisbóta sem tekur við í kjölfarið. Atvinnuleysisbætur geta numið allt að 441.000 krónum á mánuði í þrjá mánuði og fara svo í 289.000 krónur eftir það og heildartímabilið getur verið allt að þremur árum. Þessi kerfi eru gagnsæ, lögbundin og skilvirk og hafa verið við lýði hér á landi í áratugi.
Vissulega munu sum fyrirtæki ekki geta staðið undir greiðslum í uppsagnafresti og þær greiðslur því lenda á ábyrgðasjóði launa, en fyrirtæki sem hafa ekki borð fyrir báru vegna tekjusamdráttar í þrjá mánuði eru líklega rekin eftir viðskiptalíkani sem hvort eð er gengur ekki upp. Það er að þeim tíma loknum sem það kemur þá betur í ljós hvaða fyrirtæki það eru sem vert er að styðja við með opinberum framlögum, svo kölluð lífvænleg fyrirtæki. Slík greining yrði milli fyrirtækjanna og viðskiptabanka þeirra og framhaldið yrði svo samvinnuverkefni viðskiptabankanna og ríkissjóðs. Þau framlög sem kæmu frá ríkinu ættu að sjálfsögðu að vera í formi krónu á móti krónu framlags frá eigendum fyrirtækisins annars vegar og ríkinu hins vegar og verða þá að nýju hlutafé sem ríkið gæti svo losað sig við þegar betur árar. Útgreiddur arður fyrri ára hefur náttúrulega ekki horfið og eðlilegt er að eigendur skili hluta hans til baka í formi nýs hlutafjár sem skilyrði fyrir stuðningi ríkisins.
Vissulega er svona leið ekki ein allsherjarlausn á öllum vanda enda er slíkt ekki til við þessar aðstæður og það er mikilvægt að þjóðhagslega mikilvægustu fyrirtækin eins og til dæmis Flugleiðir verði áfram til með sínu starfsfólki og sérþekkingu. Eins er ekki víst að önnur fyrirtæki nái að safna mótframlagi á móti ríkisframlaginu, en það þarf þá að taka á því sérstaklega. Fyrirtæki og eigendur þeirra njóta nú þegar mikillar verndar og mikillar velvildar gegnum löggjöf um hlutafélög og skattalög og það er óskynsamlegt, óskilvirkt og óþarfi að vernda þau gegn yfirstandandi áföllum með þeim hætti sem fyrirhugað er. Þar sem eigendurnir eru nú þegar varðir persónulega gegn áföllum með takmörkun á ábyrgð gegnum hlutafélagalögin, er það fullkomlega óskynsamlegt að vernda þá líka gegn tapi fyrirtækjanna með óskilyrtum framlögum frá ríkinu. Fyrirtækjaeigendur sem hlaupa hlæjandi í bankann með arðinn sem mun lægri skattur greiddur er af en af venjulegum launatekjum, eiga hreinlega enga réttmæta kröfu til að fá vernd ríkissjóðs þegar bjátar á í rekstrinum, þess sjóðs sem að stórum hluta til er fjármagnaður er með skattgreiðslum launafólksins.
Yfirvofandi efnahagslegt samdráttarskeið, jafnvel kreppa, er fordæmalaust, en það hefur líka verið raunin með önnur slík skeið í sögunni. Þess vegna urðu til kerfi uppsagnarfresta og atvinnuleysisbóta og eftir atvikum skilvirk gjaldþrotalöggjöf. Slíkt fyrirkomulag er þaulreynt, skilvirkt og gagnsætt og ber að nota óbreytt þar til fer að sjást betur fram á vegin með það hvernig þessi vegferð endar. Að öðrum kosti mun gríðarleg seðlaprentun Seðlabankans og skuldsetning ríkissjóðs leiða til jafnvel verri langtíma efnahagslegra afleiðinga þegar upp er staðið.
Nýsett löggjöf um gríðarleg framlög úr ríkissjóði til bjargar fyrirtækjum og eigendum þeirra virðist einfaldlega vera vanhugsuð og gerð í óðagoti. Aðferðarfræðin er óskilvirk, ógagnsæ og óskynsamleg og getur hæglega valdið miklum vandræðum þegar til engri tíma er litið, byggir að því er virðist á hugsun sem á sér frekar litla stoð í einhverjum efnahagslegum raunveruleika og er í anda þeirrar hugsunar að maskínan haldi áfram að snúast endalaust bara ef bætt er meiri peningum í hana.
Það er ekki fjarri hugsuninni og aðferðarfræðinni á bak við síðustu ævintýrasiglingu íslenska hagkerfisins hverra einkunnarorð, sögð með djúpri rödd voru: „Kaupthinking er hugsun sem teygir sig handan venjulegrar hugsunar. Kaupthinking er að hugsa handan hins eðlilega.“ Það fór ekki vel. Það eru nefnilega til efnahagslegar staðreyndir hvað svo sem hver segir.
Íslensk hagsaga er mikið til endurtekið efni mistaka sem urðu vegna óðagots, vanþekkingar og óeðlilegrar hagsmunagæslu stjórnvalda. Enn eina ferðina virðist það vera raunin. En kannski er það bara svo að það eina sem við getum lært af sögunni er að við lærum ekkert af sögunni.
Höfundur er hagfræðingur