Hvað segir gjaldeyrismarkaðurinn: Kreppan djúp á Íslandi

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Þar sem stjórnvöld hafa verið ákaflega spör á að leggja fram það mat sem liggur að baki aðgerðum þeirra til að mæta kreppunni og ekki lagt í samtal við þjóðina um hvers eðlis kreppan er, hverja hún bítur helst, hvort hún muni hafa verri afleiðingar hér en annars staðar o.s.frv. verðum við að reyna að draga upp myndir. Hér er ein, breyting á gengi krónunnar gagnvart ýmsum myntum frá 20. febrúar, áður en Donald Trump setti á ferðabann milli Íslands og Evrópu. Stuttu síðar féll hlutabréfaverð um allan heim.
En þetta er listinn. Krónan hefur fallið mest gagnvart japanska jeninu, tævanska dalnum og svissneska frankanum. Og svo áfram. Því meira sem fallið er því alvarlegra meta þau öfl sem stýra gjaldeyrismarkaði að fall Íslands verði hærra en í viðkomandi landi:

Japanskt jen: -21,0%
Tævanskur dalur: -16,7%
Svissneskur franki: -15,9%
Dönsk króna: -15,7%
Evra: -15,5%
Búlgarskt lef: -15,5%
Hong Kong dalur: -15,3%
Súrinamskur dalur: -14,9%
Bandaríkjadalur: -14,9%
Sádi-arabískt ríal: -14,7%
Kínverskt júan: -14,0%
Jamaískur dalur: -14,0%
Sænsk króna: -14,0%
Singapúrskur dalur: -13,8%
Suðurkóreskt vonn: -13,8%
Króatísk kúna: -13,7%
Ástralíudalur: -13,0%
Ísraelskur sikill: -12,2%
Taílenskt bat: -11,6%
Sterlingspund: -10,8%
Ný-Sjálenskur dalur: -10,2%
Ungversk forinta: -9,7%
Kanadadalur: -9,2%
Indversk rúpía: -8,8%
Pólskt slot: -8,7%
Tékknesk króna: -6,3%
Norsk króna: -3,0%
Samkvæmt gjaldeyrismarkaðnum mun kreppan bíta Ísland harðar og verr en þessi lönd. Krónan hefur haldið verðgildi sínu gagnvart einni mynt:
Tyrknesk líra: 0,0%
Við erum samkvæmt þessu með viðlíka horfur og Tyrkland en síðan betri horfur en löndin með þessar myntir:
Rússnesk rúbla: 0,7%
Nígerísk næra: 2,2%
Suður-Afrískt rand: 6,3%
Brasilískt ríal: 8,7%
Mexíkóskur pesi: 11,1%

En er þetta marktækt? Er krónan ekki svo lítil að hún fellur alltaf meira en aðrar myntir? Sögulega, já. En í dag er margt með krónunni. Það er almennt viðurkennt í heiminum að þau lönd sem geta prentað eigin mynt standi mun betur gagnvart kreppunni, hafi fleiri tæki til að mæta henni. Ríkissjóður er skuldlítill, í frábærum málum í samanburði við önnur lönd. Og Íslendingar eiga digran gjaldeyrissjóð og geta varið krónuna og/eða farið í gegnum mikið fall gjaldeyristekna án þess að lenda í lífsháska. Þetta síðast tala er vert að hafa í huga, að ef Seðlabankinn hefði ekki verið virkur á gjaldeyrismarkaði til að hægja á falli krónunnar væri hún í enn veri málum.
Og niðurstaðan? Við upphaf kreppu sem nú er talað um sem djúpa heimskreppu sem mun vara lengi, nokkur misseri eða tvo, þrjú ár hið minnsta, má draga það mat upp úr gjaldeyrismörkuðum að Ísland muni fara illa út úr þessari kreppu, taka á sig stór og þung högg. Þar erum við í sveit með veikum hagkerfum sem hafa þanist hratt úr að undanförnu og munu skreppa hratt saman.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram