Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að enginn verði án matar

Frétt

Á morgun verður lögð fram tillaga Sósíalistaflokks Íslands um að enginn verði án matar og er tillagan svohljóðandi:

Afleiðingar kórónuveirunnar draga skýrt fram viðkvæma stöðu þeirra sem treysta algjörlega á matarúthlutanir. Ef lokað er fyrir þá aðstoð, geta margir ekki leitað neitt annað. Sem dæmi má nefna að Mæðrastyrksnefnd lokaði, skiljanlega, tímabundið fyrir matarúthlutanir þar sem flest allir sjálfboðaliðar voru í áhættuhópi. Ábyrgðin fyrir því að mæta grunnþörfum þeirra sem hafa ekki efni á því að nærast út mánuðinn, á ekki að vera á höndum utanaðkomandi félaga. Ábyrgðin er stjórnvalda sem þurfa að bregðast við þeirri staðreynd að margir búa við verulegan skort. Þörfin er mikil líkt og sjá má í fjölda þeirra sem sækja um mataraðstoð.

Því er lagt til að Reykjavíkurborg leiti til félagasamtaka fólks með reynslu af fátækt eftir ráðgjöfog/eða samstarfi um bestu leiðina til þess að koma upp matarbanka, þar sem einstaklingar geta sjálfir valið sér í matinn, eftir því sem er í boði. Í gegnum matarbankann verði hægt að fá fjölbreytt, næringarríkt fæði sem þjóni mismunandi þörfum. Þá muni matarbankinn einnig mæta þörfum þeirra sem þurfa matarbirgðir til lengri tíma vegna sóttkvíar eða einangrunar og þeirra sem þurfa heimsendan mat vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Í matarbankanum verði einnig boðið upp á nauðsynjavörur til heimilishalds líkt og klósettpappír, hreinlætisvörur til einkanota, bleyjur og dósaopnara.

Greinargerð:

Tekjur allra ættu að duga fyrir því að lifa mannsæmandi lífi út mánuðinn, alla mánuði ársins en staðan í samfélaginu okkar er því miður ekki sú. Sem afleiðing upplifa margir sig í þeirri stöðu að vera matarlausir. Hjálparsamtök hafa aðstoðað marga í gegnum tíðina með matargjöfum og gjafakortum í matvöruverslanir og matargjafir hafa einnig átt sér stað í gegnum samskiptamiðla, þar sem einstaklingar hjálpa öðrum í neyð. Þrátt fyrir það, þá dugar slíkt ekki til, þar sem þörfin er mikil og nauðsynlegt er að bregðast við þeirri þörf. Því er lagt til að Reykjavíkurborg komi upp aðstöðu til þess.

Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um viðbragðsáætlun vegna lokunar hjálparstofnana sem sjá um matarúthlutanir var lögð fram á fundi borgarráðs þann 12. mars 2020. Henni var vísað til
umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og hefur ekki fengið afgreiðslu. Í þeirri tillögu var lagt til að borgarráð ynni með viðeigandi aðilum, t.a.m. öðrum sveitarfélögum og ríkinu að því að setja fram viðbragðsáætlun sem nær utan um þá sem munu hljóta skaða af lokun hjálparstofnana sem sjá um matarúthlutanir til þeirra sem búa við bág efnahagsleg kjör.
Sú tillaga var lögð fram þar sem það er ekki hægt að ætlast til þess að sjálfboðaliðar beri ábyrgð á því að veita þá þjónustu sem margir treysta á til þess að geta borðað út mánuðinn. Ábyrgðin er stjórnvalda og það er þeirra að tryggja að fólk í viðkvæmri stöðu þurfi ekki að
líða skort.

Öll þurfum við að nærast til þess að komast í gegnum daginn og vikurnar í mánuðinum. Það er grundvöllur þess til að geta tekist á við þætti hversdagsins. Staða margra er oft þannig að þeir eru efnalitlir vegna fátæktar, atvinnuleysis, tímabundinna erfiðleika eða annarar stöðu sem gerir það að verkum að viðkomandi á ekki fyrir mat. Ofan á það bætast efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar sem gera efnalitlu fólki enn erfiðara fyrir að útvega sér mat.

Frá því í febrúar hefur verð í matvöruverslunum í mörgum tilfellum hækkað umtalsvert og miklar verðhækkanir er að finna í flestum vöruflokkum. Líkt og framkemur í verðlagseftirliti ASÍ eru mestar verðhækkanir á ávöxtum og grænmeti en þurrvara, brauð, kex og dósamatur hefur einnig í mörgum tilvikum hækkað mikið. Þegar einstaklingar búa við skort, þá verður ódýrasti maturinn oft fyrir valinu sem er oftast ekki sá næringarríkasti. Þess vegna er mikilvægt að boðið verði upp á næringarríkar máltíðir í matarbankanum án takmarkanna, þ.e.a.s. að þeir sem eru í þörf geti valið vel samsettar máltíðir og millimáltíðir handa sér og  fjölskyldu sinni eftir sínum þörfum. Þar er nauðsynlegt að huga að fæðuofnæmi og fæðuóþoli og tryggja einnig að nægur barnamatur sé ávallt til staðar.

Afleiðingar kórónuveirunnar hafa einnig leitt til þess að matarútgjöld efnalítilla foreldra hafa hækkað vegna samkomubannsins, þar sem börn dvelja meira heima en áður. Slíkt hefur í för með sér að foreldrar leitast eðlilega við að hafa meiri mat inni á heimilinu og það getur kostað meira að hafa ofan af fyrir börnunum t.d. með því að gera eitthvað skemmtilegt saman líkt og að baka. Í þeirri stöðu sem ríkir í samfélaginu er nauðsynlegt að bregðast við. Margir eru í viðkvæmri stöðu vegna efnahagslegrar stöðu og sjá fram á mikla óvissu. Það er því nauðsynlegt að byrja á því að tryggja grunninn, að enginn sé án matar. Matarbankar eru viðbragð sem vernda fólk frá hungri og leitast við að tryggja að allir geta orðið sér úti um mat sem eru í þörf fyrir slíkt vegna slæmrar efnahagslegrar stöðu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram