Erfðasynd er sjálfsuppfyllandi spádómur

Símon Vestarr Pistill

Hver sagði okkur að við værum grimm, sjálfselsk og drottnunargjörn dýrategund?

Og af hverju trúðum við því?

Í mínu tilfelli er því auðsvarað. Ég ólst upp við að taka biblíuna mjög alvarlega og rauði þráðurinn í gegnum hana er hugtakið erfðasynd; sú hugmynd að Guð hafi mótað okkur í sinni mynd en að eitt af hinum sköpunarverkum hans hafi náð að spilla okkur (höggormurinn í aldingarðinum) og nú beri okkur að vantreysta eðlishvötum okkar og leita endurlausnar með því að láta skaparann stýra lífi okkar. Þetta er nokkuð einfölduð mynd sem ég dreg upp af syndakenningu kirkjunnar en það var nokkurn veginn svona sem ég lærði að líta á mannlegt eðli. Maðurinn er óforbetranlegur eiginhagsmunaseggur sem þarf að lúta himnesku yfirvaldi.

Hver er þín afsökun?

Þessi hugmynd um manninn nær nefnilega langt út fyrir veggi kristinnar kirkju. Ég þekki margan harðan guðleysingjann sem skrifar upp á þessa skilgreiningu og gerir sér í raun enga grein fyrir því hversu öfgakennd hún er. Eitt sinn skrifaði ég grein í Morgunblaðið þess efnis að hægrimenn væru upp til hópa sósíalistar — bara svartsýnir sósíalistar sem vildu óska þess að jöfnuður væri mögulegur en sættu sig við ójöfnuð og arðrán á sömu forsendum og maður sættir sig við hellirigningu. Hvar passa sósíal-demókratar inn í þetta? Jú, þeir berjast fyrir því að þeir sem neyðist til að vera úti í rigningunni fái vatnshelda galla og góðar regnhlífar. Hvorugur hópurinn setur spurningarmerki við grunnforsenduna.

Við vinstri róttæklingarnir erum önnur saga. Við sem höfum haldið því fram að drottnun sé fyrirkomulag sem hafi verið fundið upp af fólki og að því sé fólk fullfært um að taka það í sundur.  Að þrepaskipting sé hvorki náttúruleg né óhjákvæmileg. Að lýðræðið geti verið beint og milliliðalaust og að þegar öllu er á botninn hvolft ætti ekki að vera neitt hlutverk fyrir þvingu ríkisvaldsins. Þessi sýn er eini sanni arftaki klassískrar frjálshyggju — varist eftirlíkingar sem taka efnahagslegu víddina aldrei með í reikninginn og ganga út frá pólitísku jafnrétti til hliðar við miskunnarlaust stigveldi í peningamálum. Nýfrjálshyggja er nefnilega ekki frjálshyggja heldur forræðishyggja sem byggir á þeirri firru að ríkt fólk sé þess umkomið að hafa vit fyrir öllum öðrum.

Þegar Trump var að innsigla útnefningu sína sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum kom nýfrjálshyggjupésinn Andrew Sullivan með pistil sem útlistaði þessa hugmynd; að ef áhrifamenn í samfélaginu plotti ekki sín á milli um að hefta lýðræðið þá muni allt fara í vaskinn. Í áfallastreitunni í kjölfar 9. nóvember 2016 heyrði ég svo jafnvel samherja mína í pólitík leggja fram svipaðar vangaveltur — er fólki treystandi til að velja eitthvað annað en samviskulausa lýðskrumara sem höfða til lægstu hvata þeirra? Látum við stjórnast af hræðslu, græðgi og skammsýni? Er það eðli okkar? Og hverju eiga sósíalistar þá að svara þegar þeir eru spurðir hvort lýðræðishugsjón þeirra auki ekki hættuna á því að samfélagið leysist upp í slagsmálaklúbb eða Mad Max fjórhjóladystópíu?

Of margir á vinstri vængnum gangast í blindni við erfðasyndinni. Hollendingurinn Rutger Bregman rak sig á það þegar hann hugðist rannsaka skipulega rökin fyrir því að mannfólk væri fullfært um að takast á við áskoranir af samhygð og hjálpsemi í stað þess að skipa sér í skotgrafir og traðka hvert á öðru. Hann kallaði bókina sína Humankind: A Hopeful History og þegar hann kynnti hugmyndina fyrir útgefendum var hann iðulega spurður hvort hann horfði aldrei á fréttirnar.

Fréttamiðlar gegna því mikilvæga hlutverki að upplýsa okkur um gang mála í veröldinni en þeir sem byggja heimssýn sína eða hugmyndir um mannlegt eðli á því sem þeir lesa þar vaða reyk og svima. Allar sögur (hvort sem um er að ræða Sjálfstætt fólk eða Sveiattan, Einar Áskell), fjalla um það sem aflaga fer, og þetta á líka við um fréttirnar, nema hvað fréttamiðlar geta ekki gefið okkur merkingardrjúga úrlausn heldur neyðast til að sleppa okkur lausum í miðri frásögn. Enginn endapunktur og alltaf meira neikvætt en jákvætt af sömu ástæðu og brunaboði pípir ekki til að láta okkur vita að allt sé óbrunnið og í fínu lagi.

Fréttir fjalla um breytingar og sögnin að breyta er leidd af sögninni að brjóta.

Höfundur greinar í hollensku blaði sem birtist á ensku í miðlinum Jacobin fagnar því að Bregman skuli hrekja röklausa þvælu um að skáldsagan Lord of the Flies innihaldi einhver sannindi um innsta eðli barna, að hann skuli mölva endanlega hugmyndina um að yfirgripsmiklar og ólýðræðisslegar löggæsluaðferðir (broken windows policing) dragi úr glæpum og að hann skuli draga Stanford-fangelsisrannsókn Phillips Zimbardo fram í dagsljósið sem það leikrit sem hún var. Þetta eru bara þrjú dæmi af fjölmörgum sem Bregman tekur fyrir og greinarhöfundurinn Anton Jäger kann að meta þann hluta bókarinnar.

Það sem hann gagnrýnir helst er að bókin skuli ekki bjóða upp á aðgerðavæddar lausnir á pólitíska sviðinu heldur setja fókusinn á einstaklinginn. Því segir Jäger bókina líkjast fremur sjálfshjálparbók en róttæku pólitísku riti og það er ekki hrós. En hér þykir mér sem rýnirinn stígi í sömu gildru og fjölmargir vinstrimenn á undan honum; að láta hægrimönnum eftir stóru spurningarnar. Ímugustur sósíalista á frumspeki er að vissu leyti skiljanlegur. Blaður og þvaður um mannlegt eðli og andaverur vonskunnar í holdinu hefur í aldanna rás verið notað til að draga athygli frá því hvernig efnislegum gæðum er sankað á fárra hendur og fólki sagt að treysta guði og bíða eftir lífsfyllingu í himnanna ríki eftir dauðann í stað þess að knýja á um samfélagsúrbætur á jörðu niðri.

En ef við ætlum að eiga raunhæfan möguleika á róttækum breytingum þá verðum við að vera reiðubúin að reyta hugmyndafræðilegan arfa stéttasamfélagsins í eigin garði. Það þýðir meðal annars að hafna þeirri bábilju að mannskepnan búi yfir svo mikilli meðfæddri illsku að eina leiðin til að halda úti einhverri siðmenningu byggi á ægivaldi ríkis eða fyrirtækja í skjóli ofbeldis. Ég er sammála Anton Jäger um það að traust til mannskepnunnar eitt og sér muni ekki duga til að færa okkur betri heim en ég held því fram að án þess trausts munum við alltaf sitja uppi með mismunandi útgáfur af sömu skítaskipaninni og við höfum núna.

Samfélagið sem við viljum sjá verða að veruleika mun óhjákvæmilega mótast af tilurð sinni og fólk sem heldur að djöfullinn búi í litningum homo sapiens sapiens dauðadæmir hugsjón sína strax í upphafi og mun þurfa að beita þvingunum til að halda illskunni í skefjum. Markmiðið helgar ekki meðulin og markmiðið mun ekki einu sinni nást hvort eð er ef við ætlum að leggja sömu bölsýnisorku í verkið og lögð var í kapítalismann. Dulspekingurinn Martin Buber orðaði þessa hugsun sem svo að tré sem hefði verið heflað niður í kylfu væri ólíklegt til að bera lauf.

Hægriöfgafólk talar viljandi villandi um sósíalisma með því að grauta anarkó-sósíalistískum hreyfingum róttækra lýðræðissinna saman við leyniþjónustu Stalíns eða herdeildir Pols Pot. Það er óheiðarleg röksemdarfærsla af því að síðarnefndi hópurinn (útdauð dýrategund að mestu) reynir að þvinga mannkynið í gegnum eitthvað fyrirfram ákveðið ferli með óljósum loforðum um að upp úr ösku hreinsunarelds ríkisvaldskúgunar muni rísa hinn Nýi Sósíalíski Maður sem muni reisa framtíðarríkið Kommúnisma á meðan fyrrnefndi hópurinn – hópur lýðræðissinna – treystir fólki til að ráða sér sjálft án þess að kúga aðra og gengur út frá því að ef verið væri að setja saman siðmenningu á morgun þá myndi enginn velja hið gegnumspillta fyrirkomulag sem við sitjum uppi með í dag.

Við manneskjurnar mökum ekki krókinn vegna þess að við fæddumst illa haldin af græðgi eða ófær um að auðsýna samkennd (eða vegna þess að Satan, höfðingi þessa heims, hefur tak á okkur) heldur vegna þess að við höfum verið heilaþvegin til að trúa því að allir aðrir myndu gera það sama í okkar sporum. Þetta er það sem félagsfræðingar kalla self-fulfilling prophecy sem útleggja mætti: sjálfsuppfylltur spádómur. Ef enginn treystir neinum öðrum þá mun enginn reynast traustsins verður. Ég hvet bræður mína og systur á vinstri vængnum (og sjálfan mig) til að muna þetta alltaf. Baráttan sem við eigum í er alvarleg og krefst allra krafta okkar og útsjónarsemi en hún grundvallast á kærleika og trú á betri heim, ekki á aldagömlu prumpi um að holdið sé spillt. Þeir sem ekki kasta upp erfðasyndarhugmyndinni eins og eitruðum eplabita dæma alla viðleitni sína í þágu samfélagslegs réttlætis til að mistakast.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram