Tillaga um að veita fjárhagsaðstoð til námsfólks sem hefur ekki tök á annarri framfærslu

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Tillaga sósíalista sem lögð verður fyrir á næsta borgarstjórnarfundi, 15.09.2020

Lagt er til að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Þó að nám sé lánshæft hjá sjóðnum, sem nú heitir Menntasjóður námsmanna, þá þýðir slíkt ekki að allt námsfólk geti uppfyllt skilyrðin til að teljast lánshæft hjá sjóðnum. Skilyrðin fela í sér að mega ekki vera í vanskilum við sjóðinn og ábyrgðar á námslán er krafist ef lánþegi telst ekki tryggur. Ef viðkomandi er á vanskilaskrá, bú viðkomandi í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart einstaklingnum, þá telst hann ekki tryggur. Námsmenn þurfa að vera í fullu lánshæfu námi til að geta fengið námslán. Lágmarksárangur á önn eru 22 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. Fullt nám telst vera 30-ECTS-einingar á hverju misseri/önn. Hér skal tekið fram að námsfólk getur sótt um aukið svigrúm í námi ef ákveðnar kringumstæður koma í veg fyrir lágmarksnámsframvindu á tiltekinni önn. Þá er í mesta lagi hægt að fá 22 ECTS-einingar skráðar. Þess ber að geta að framfærsla lækkar eftir því sem námsframvinda er minni í einingum talið. Í ljósi alls ofangreinds er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til að mæta því námsfólki sem getur ekki uppfyllt kröfur lánastofnanna um lánshæfi. Einnig er lagt til að Reykjavíkurborg skori á ríkið að gera umbætur í þeim efnum svo að nám verði aðgengilegt öllum, óháð fjárhag og getu um námsframvindu. Við eigum öll að geta verið þátttakendur í samfélaginu, á okkar eigin hraða.

Greinargerð:

Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar er veitt einstaklingum og fjölskyldum sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Staða þeirra sem hafa umræddar tekjur getur verið ólík því hér er t.a.m. um að ræða þá sem skilgreinast sem óvinnufærir, einstaklinga sem eru án atvinnu og bíða svars um bótarétt og þá sem eru atvinnulausir og án bótaréttar. Einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, nú Menntasjóði námsmanna njóta ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Mikilvægt er að skoða aðstæður hvers og eins því að þó svo að einstaklingur stundi nám sem er lánshæft þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta sótt um og fengið framfærslu hjá lánasjóðnum.

Einstaklingur þarf t.a.m. að treysta sér til þess að taka að lágmarki 22 ECTS-einingar á önn til að uppfylla skilyrði um lánshæfi en fullt nám er 30 ECTS-einingar og því ljóst að svigrúm er ekki mikið fyrir fólk til þess að taka námið á sínum eigin hraða. Hér skal þó tekið fram að námsfólk getur sótt um aukið svigrúm í námi ef veikindi, barnsburður, örorka eða annað s.s. lesblinda, gera að verkum að þeim tekst ekki að skila lágmarksnámsárangri á tiltekinni önn. Ef aukið svigrúm er veitt eru lánseiningar hækkaðar upp í lágmarksnámsframvindu (sem er almennt 22 ECTS-einingar) en aldrei umfram það. Þess ber að geta að framfærsla lækkar eftir því sem námsframvinda er minni í einingum talið. Þá má einnig ekki vera á vanskilaskrá þegar sótt er um hjá Menntasjóði námsmanna, nema fyrir tilstuðlan ábyrgðarmanns. Það er því ljóst að fólk situr ekki allt við sama borð í umræddum málaflokki.

Í 18. gr. núverandi reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er fjallað um námsstyrki sem heimilt er að veita. Þeir miðast að einstaklingum á aldrinum 18-24 ára sem hafa átt við mikla félagslega erfiðleika og hafa ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og til einstæðra foreldra á aldrinum 18-24 ára sem uppfylla sömu skilyrði. Þá er einnig heimilt að veita námsstyrk til einstaklinga á aldrinum 18-24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi. Einstaklingar sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni geta einnig fengið greiddan námsstyrk og heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við tekjulága foreldra sem hafa átt í langvarandi félagslegum erfiðleikum. Í reglunum kemur fram að miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Ýmislegt í lífshlaupi fólks getur leitt til þess að þau geta ekki hafið nám sem er lánshæft, eða uppfyllt skilyrðin sem þarf til þess. Það er því mikilvægt að við sem nærsamfélag, í þessu tilfelli Reykjavíkurborg mæti þeim einstaklingum sem hafa áhuga á því að hefja nám en séum ekki að standa í vegi fyrir slíku. Á sama tíma er mikilvægt að Reykjavíkurborg, skori á ríkið um að gera nauðsynlegar úrbætur á þeim kerfum sem eiga að tryggja að öll í samfélaginu geti sótt sér menntunar án tillits til efnahagslegrar eða félagslegrar stöðu.
Námsfólk hefur ekki verið tryggt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nema þegar námið er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum. Umsækjendum um atvinnuleysisbætur hefur einungis verið heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn, enda um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki námshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Nýlega kynnti félags- og barnamálaráðherra breytingar á lögum sem eiga að gera atvinnulausu fólki kleift að fara í nám án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Breytingarnar eiga að ná til þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og geta þá hafði nám á næsta ári eða vorönn 2022 í framhaldsskólum eða háskólum án þess að slíkt hafi áhrif á bótarétt og nýtingu hans.

Hugmyndin að baki umræddri tillögu sósíalista er að tryggja að þau sem eiga ekki rétt á framfærslu neinsstaðar annarsstaðar frá en treysta sér til þess að fara í nám, verði gert kleift að gera slíkt. Með því opnast dyr að fjölbreyttri þekkingarsköpun.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram