Hvenær er rasisti rasisti?

Símon Vestarr Pistill

Það er nógu slæmt að lögregluþjónn bregðist við ákúrum varðandi fasísk barmmerki sín með því að segjast ekki vita til þess að þau þýði neitt neikvætt.

Það er nógu slæmt að formaður lögreglufélags Reykjavíkur reyni að selja okkur það súra mígildi að lögregluþjónar hafi borið þessi fasísku merki „í góðum hug“.

Það er nógu slæmt að þessir tveir laganna verðir sjái ekkert athugavert við að flíka gildishlöðnum þjóðernistáknmyndum án þess að hafa grænan grun um hvað þær þýða.

En dólgurinn er enn verri.

Dólgurinn sem felst í því að segja að með því að gagnrýna fasísku fánana sé verið að ráðast að lögreglukonunni og hennar stétt í heild sinni. Já, og hreinlega „sparka í lögregluna og allt það góða starf“ sem hún vinnur. Hún kvaðst líka ætla að hafa merkin áfram þar til hún væri búin að kynna sér sjálf hvað þau þýði. 

Þar til hún er búin að fara í stroku og fá jákvætt út úr rasismaprófinu?

Dólgurinn sem felst í því hjá formanni lögreglufélags Reykjavíkur að Þórhildur Sunna eigi að segja af sér þingmennsku fyrir að hafa óskað eftir fundi til að rannsaka hvort rasismi hafi hreiðrað um sig innan lögreglunnar eða hvort einfaldlega þurfi að fræða lögregluþjóna um haturstákn og samfélagsleg áhrif þeirra.

Það að þessir tveir fulltrúar grasrótar lögreglunnar skuli bregðast við með því að fara beint í varnarstöðu og rífa kjaft í stað þess að fullvissa almenning strax um að þetta gerist ekki aftur, eins og upplýsingafulltrúi lögreglunnar gerði, er vonandi ekki vísbending um það að einhver trympska sé að grafa um sig á meðal einu meðlima samfélagsins sem hafa valdbeitingarheimildir. Reyndar grunar mig heldur að þetta sé enn eitt dæmið um það hvers konar ofsaviðbrögð orðið rasismi vekur hjá þeim sem vilja að kynþáttahyggja sé viðurkennd sem ein gild skoðun af mörgum.

Takið eftir að ég tala ekki um kynþáttahatur heldur kynþáttahyggju. Ekki vegna þess að raðir rasista séu lausar við hatur heldur vegna þess að merking orðsins er svo hnitmiðuð að of auðvelt er að mjaka sér undan henni. „Ég hata engan,“ segir önnur hver stuðningsmanneskja núverandi Bandaríkjaforseta og sjálfur segir hann að enginn sé minna rasískur en hann sjálfur. Rasismi er nefnilega ekki bara aktíft hatur á öðrum kynþáttum heldur öll þrepaskipting fólks í hópa eftir því hvaða kynþætti það tilheyrir.

Ég geri ráð fyrir því að fæstir hafi gert sjálfum sér þann óleik að horfa á kvikmyndina The Birth of a Nation frá árinu 1915 en til að skilja betur þankagang kynþáttahyggjunnar lagði ég í þá langferð fyrr í vetur. Myndin er rúmir þrír klukkutímar af áróðri í þá veru að frelsun þræla hafi leitt af sér siðspillingu þeirra á meðal og að óráðsía hafi læðst inn í stjórnkerfi Bandaríkjanna með því að gera blökkumenn kjörgenga. Í myndinni sér maður svarta menn drekka úr viskípelum við þingstörf og éta kjúklingabita í þinghúsinu með skítuga skóna uppi á borði.

En þess á milli er áhorfandinn fullvissaður um það í textaspjöldum að klansmennirnir, sem ríða til bjargar í lokasennunni undir drífandi tónum Valkyrjureiðar Wagners, hafi engan ímugust á svörtu fólki heldur vilji standa vörð um siðgæði suðursins andspænis siðleysi norðursins með því að tryggja að dökka fólkið sé haft á sínum stað í samfélagsskipaninni; sem vinnuhjú.

Það er sem sagt ekkert nýtt að rasistar víki sér undan rasistastimplinum. Þess vegna er orðið kynþáttahyggja betra en orðið kynþáttahatur. Þeir sem skreyta sig með táknum samstöðu hvíta kynþáttarins geta kannski reynt að sannfæra okkur um að ekkert kynþáttahatur felist í því en óneitanlega er þar kynþáttahyggja á ferðum. Öfgahægrið gerir það reyndar að leik sínum þessa dagana að senda skilaboð innan sinna raða með torskiljanlegum leynitáknum eins og froskinum Pepe og tölunni 88 (áttundi stafur stafrófsins tvítekinn — HH fyrir Heil Hitler). Meira að segja ókei-táknið 👌🏻 er notað þessa dagana í sama tilgangi innan þessarar kreðsu.

Tákn eru ríkur hluti af mannlegu samfélagi og hafa alltaf verið það. Þeir sem efast um áhrifagildi tákna ættu að kynna sér vitnisburði þeirra sem sáu hakakrossinn fyrst dreginn að húni í Weimar-lýðveldinu. Þetta forna sóltákn virðist framkalla hreyfingu með sjálfu formi sínu, sérstaklega eftir að nasistarnir skelltu því á ská, og andstæðingar hugmyndafræðinnar jafnt sem stuðningsmenn hennar fundu þann fumkraft sem fáninn leysti úr læðingi. Ég heyrði meira að segja eitt sinn þá tröllasögu að kuklarinn Aleister Crowley hefði kennt Winston Churchill að tákna sigur með því að setja tvo fingur upp í loftið eins og vaff (v for victory) og hvort sem það er satt eður ei sýndu bæði táknin hversu máttugur symbólismi getur verið.

Hvers vegna myndu fyrirtæki annars eyða fúlgum fjár í hönnun vörumerkja?

Orð eru tákn líka. Við erum stanslaust að segja sjálfum okkur sögur um það hver við erum í samhengi við aðra íbúa þessarar plánetu og í þeirri sögusmiðju geta stórkostlega heimskulegar sjálfsréttlætingar og -blekkingar orðið til. Enginn er yfir þennan löst hafinn og því er sjálfsgagnrýni nauðsynleg.

Þegar manni er sagt að táknin sem maður ber á embættisbúningi sínum sendi minnihlutahópum ógnandi skilaboð þá eiga fyrstu viðbrögð ekki að vera að hlaupa til og segja að það sé ekki rétt og bölsótast út í þá sem gagnrýndu hegðunina. Heimsbyggðin er búin að þurfa að sitja daglega undir slíkum sjálfbirgingsóvitaskap síðan Hinn Appelsínuguli tók við embætti Vestanhafs fyrir rétt rúmlega þremur árum og nú er mál að linni. Lögreglan í því landi hefur líka skelfilega hluti á samviskunni og það er annað hvort til marks um botnlausa heimsku eða mannvonsku að vilja bera samskonar tákn um mjóu, bláu línu og fantarnir sem kalla Black Lives Matter hreyfinguna hryðjuverkahóp.

Kæra lögreglukona. Ég get ekki sagt þér að þú sért rasisti. Enginn veit hvað býr í hugskotum þínum nema þú sjálf. En ef þú ert það ekki þá ætti að vera lítið mál fyrir þig að taka þessar bætur af búningnum þínum og hætta að senda skökk skilaboð um sjálfa þig. Eitt sinn æfði ég í sama húsnæði og hljómsveit sem setti Suðurríkjafána upp á vegg vegna þess að meðlimir sveitarinnar dáðust að bandinu Pantera. Eftir að þeim var sagt að sá fáni táknaði meira en bara Suðurríkja-metal Abbott-bræðra tóku þeir fánann niður. Þeir vildu ekki senda röng skilaboð.

Þeir voru táningar.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram