Kolbeinn Óttarr og kirkja málamiðlunarinnar

Símon Vestarr Pistill

„Það er auðvelt að dást að manni sem ekki miðlar málum.

Hann býr yfir hugrekki, það á líka við um hund.

En það er einmitt færnin til að miðla málum sem gerir aðalsmenn göfuga.“

– Pabbi Róberts Brúsa í Braveheart (holdsveiki gaurinn í turninum).

 

Kolbeinn Óttarsson Proppé virðist sammála.

Sigur málamiðlunar?

Nei, Kolbeinn, tap Trumps var ekki sigur málamiðlana. Við skulum fara aðeins yfir það sem þú skrifaðir:

„Á bak við [Joe Biden] fylktu sér andstæðingar Trumps úr öllum áttum. Alls kyns fólk. Svart og hvítt og reitt og pirrað og eftirvæntingarfullt og baráttuglatt og gamalt og meira að segja ungt. Fólk sem var tilbúið til að leggja sínar ítrustu kröfur til hliðar til að ná mikilvægu markmiði. Fólk sem sá að það gæti staðið algjörlega fast á sínu og neitað að gefa nokkuð eftir, en þá yrði Trump áfram við völd. Því þannig er það, ef þetta fólk hefði ekki gefið eftir og náð saman hefði Trump unnið.“

Nú er annað hvort af tvennu satt:

a) Þú hefur ekkert fylgst með bandarískum stjórnmál síðustu árin.

b) Þú hefur fylgst með bandarískum stjórnmálum síðustu árin en skrifaðir þessa færslu á Facebook til að reyna enn eina ferðina að hreinskrúbba þann kúk sem ákvörðun VG um að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var.

Látum ekki eins og vinstrið hafi haft eitthvað val eftir að forysta Demókrataflokksins fékk alla hægrikratana í mars til að sameina krafta sína bak við Biden svo að Bernie Sanders fengi ekki útnefninguna.

Hugsjónafólk af vinstri væng stjórnmálanna fylkti sér ekki bak við Joe Biden vegna þess að það skynjaði tímanna tákn og las í uppstreymið undir vængjum arna Seifs að nú væri kominn tími til að miðla málum. Það fylkti sér bak við frambjóðanda Demókrataflokksins vegna þess að því fannst liggja á að losna við hinn prótó-fasíska Trump og þar í landi er ekki nema um tvo möguleika að velja. Látum ekki eins og vinstrið hafi haft eitthvað val eftir að forysta Demókrataflokksins fékk alla hægrikratana í mars til að sameina krafta sína bak við Biden svo að Bernie Sanders fengi ekki útnefninguna.

Kjósendum í Bandaríkjunum er reglulega seld sú firra af fjölmiðlum í eigu stórfyrirtækja að til að sigra Repúblikana þurfi að tefla fram „hófsömum“ frambjóðanda af því að flestir kjósendur séu miðjumoðarar sem séu hræddir við „róttæk“ stefnumál eins og þau sem Sanders lagði til. Staðreyndin er hins vegar sú að almenningur í Kananslandi styður öll helstu stefnumál sósíalistans frá Vermont:

  • 70% Bandaríkjamanna vilja gjaldfrjálst, opinbert heilbrigðiskerfi. Biden þykir það of róttækt.
  • 90% Bandaríkjamanna vilja losa um einokunarkrumlu þarlendra lyfjafyrirtækja svo að hægt verði að semja um lægra lyfjaverð – nokkuð sem forystu Demókrataflokksins þykir of róttækt.
  • Tveir þriðju Bandaríkjamanna vilja styrkja almannatryggingakerfið sem Joe Biden hefur ítrekað lagt til að verði skorið niður. Hann montar sig af þeirri viðleitni sinni af því að það sé til marks um samstarfsvilja með Repúblíkönum.
  • Meirihluti Bandaríkjamanna vill hækka lágmarkslaunin upp í 15 dollara á tímann – stefnumál sem Demókrataflokkurinn var á móti í kosningunum 2016 vegna þess að það væri of róttækt en tók síðan inn í stefnu sína í ár. Hér um bil það eina sem Biden gerði til að koma til móts við kjósendur Bernie Sanders.
  • Þrír fjórðu Bandaríkjamanna vilja splundra stóru bönkunum til að forðast annað hrun en Demókrataflokkurinn vill það ekki. Of róttækt.
  • Þremur fjórðu Bandaríkjamanna þykir skattkerfið of hallt undir hina ríku og vinsældir Trumps hrundu þegar hann lækkaði skatta á auðugustu Ameríkanana. Það gerði hann með samþykki Demókrataflokksins.

Að öllu þessu gefnu er það í besta falli barnaskapur og í versta falli óheiðarleiki að gera að því skóna að Biden hafi unnið þessar kosningar vegna sáttavilja síns í garð flokks sem er á móti þessu öllu. Flokks sem hefur þar að auki daðrað við rasíska pólitík áratugum saman (og farið beinlínis í sleik við þá pólitík árið 2016) og stendur keikur gegn réttindum innflytjenda, samkynhneigðra, fólks utan kristinnar trúar og þungunarrofs-réttindum kvenna.

Sigurinn var ekkert til að monta sig af

Kosningar í Bandaríkjunum eru ósmekklegur raunveruleikaþáttur þar sem málefni eins og ójöfnuður, vinnustaðalýðræði og andstaða gegn hernaði og lögregluofbeldi eru ekki rædd. Það þýðir ekki að kjósendum Demókrataflokksins sé sama um þetta allt saman eða að þeim sé ofboðslega mikið í mun að miðla málum við auðvaldssinnana, heimsvaldasinnana eða löggufantaklappstýrurnar á hægri vængnum. Það er því lógískt að ætla að frambjóðandinn sem vildi koma þessum málum á dagskrá (áðurnefndur Sanders) hefði skúrað gólfið með heimska smettinu á appelsínunni með rauða bindið á þriðjudaginn.

Það að þurfa aðstoð heimsfaraldurs til að koma frá völdum nýfasista með tilfinningagreind á við marglyttu og greindarvísitölu á við vatnsmelónu er ekkert til að ramma inn og hengja upp á vegg hjá sér.

Sigurinn var nefnilega ekkert til að monta sig af. Það er Joseph Robinette Biden til háborinnar skammar að ekki skyldi hafa tekist að vinna nema svona nauman sigur á óvinsælasta forseta Bandaríkjasögunnar eftir allt ruglið í honum varðandi kórónuveiruna og skandalalistann sem er svo langur að það væri doktorsritgerð að tíunda. Ef veiran hefði ekki skollið á hefði Biden hlotið háðuglega útreið. Það að þurfa aðstoð heimsfaraldurs til að koma frá völdum nýfasista með tilfinningagreind á við marglyttu og greindarvísitölu á við vatnsmelónu er ekkert til að ramma inn og hengja upp á vegg hjá sér.

Demókrötum mistókst að endurheimta öldungadeildina og auðvalds-demókratar fóru strax að reyna að kenna vinstrinu um þá lélega útkomu. Sósíalistinn Alexandria Ocasio-Cortez svaraði því til að hún hefði boðið öllum demókrötum í baráttusætum aðstoð sína við endurkjör en aðeins fimm þeirra hefðu þegið þá aðstoð. Þessir fimm náðu kjöri á meðan hinir töpuðu. Og það eru vinstri-þingmennirnir sem komu mun betur út úr þessum kosningum, ekki hægrikratarnir. Það sem þessi flokkur þarfnast er ekki fleiri málamiðlarar heldur fleiri raunverulegar hugsjónamanneskjur eins og Ocasio-Cortez. Það er fólkið sem dreif kjósendur á kjörstað.

Hættu, Kolbeinn. Bara … hættu.

„Bylgjan að baki Biden, því bylgja var það, sýnir svo glöggt að stundum eru málamiðlanir það sem kemur okkur áfram.“

Hættu, Kolbeinn. Bara … hættu. Við erum auðvitað sammála um að „eins gott og hreinsandi og það er að æpa hátt og gefa ekkert eftir, þá er oft skynsamlegra að fara aðra leið ef ópin skila engu.“ Og að „við þurfum að geta hlustað hvert á annað, annars komumst við ekkert áfram.“ En þessi vandlætingartónn þinn í garð þeirra sem vilja knýja á um umbætur (hvort sem um er að ræða í Bandaríkjunum eða hér) segir mér að þú skynjir ekki alvöru málsins. Að þér sé meira annt um að hafa samstarfsflokka þína góða en að koma baráttumálum alþýðunnar í gegn.

Það er enginn styrkur fólginn í því að miðla málum með þeim sem leggja allt kapp á að viðhalda ómanneskjulegu ójöfnuðarskipulagi.

Segðu endilega öryrkjum að taka því með stóískri ró þegar félagi þinn í fjármálaráðuneytinu talar um þann þjóðfélagshóp sem of útgjaldafrekan á meðan hann snýtir sér í tíuþúsundkalla og skeinir sér með kjörseðlunum úr stjórnarskrárkosningunni frá 2012. Nei, Kolbeinn. Það er enginn styrkur fólginn í því að miðla málum með þeim sem leggja allt kapp á að viðhalda ómanneskjulegu ójöfnuðarskipulagi. Og ef Biden stendur við þau orð sín að rétta fullkomlega samviskulausum kvislingum Repúblikanaflokksins sáttahönd í stað þess að reyna að koma í gegn einhverjum af ofangreindum hugðarefnum bandarísks almennings þá mun hann koma nákvæmlega jafnlitlu í verk og Barack Obama og greiða götuna fyrir næsta fasista.

Næsti Trump verður kannski ekki kjaftfor, narsissistískur froðusnakkur eins og þessi sem verður dreginn út úr Hvíta húsinu í janúar heldur beinlínis klókur og stórhættulegur. Þá verða allar umræður um óp eða yfirvegun óþarfar.

Og óleyfilegar.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram