Passíublómið í baráttunni gegn fasisma

Símon Vestarr Pistill

Þegar talað er um uppgang fasisma á síðastliðnum árum segir viðkvæðið sína sögu. Algengast er að þeir sem taka vandann ekki alvarlega bregðist við með einhverri útgáfu af „láttekkisona“. Í hugum þess fólks getur enginn verið fasisti nema hann hafi sent einhvern í útrýmingarbúðir í Roman Polanski mynd.

Að þeirra mati getur Donald Trump t.d. ekki verið fasisti af því að hann er heimskur og hversdagslegur. Hugtak Hönnu Arendt um hversdagsleika illskunnar hefur farið alveg fram hjá sumum. Þetta sama fólk er ófært um að dæma bandaríska heimsveldið eftir sama staðli og heri Hitlers vegna þess að bandarískir hermenn tala ensku og bera ekki hakakross eða járnkross á búningi sínum.

Ógnin við lýðræðið kemur nefnilega ekki sem þruma úr heiðskíru lofti og fjölmargir gyðingar í Þýskalandi töluðu um að þegar Hitler kæmist til valda myndi kröfuþungi starfsins siða hann til og rúna á honum hvössustu brúnirnar. Vaktinni um lýðræðið er aldrei lokið og sú normalisering sem fasísk og lýðræðisfjandsamleg viðmið hafa fengið undanfarin ár, með tilkomu áðurnefnds (og blessunarlega fráfarandi) Trump, auk Bolsonaro í Brasilíu og Orban í Ungverjalandi, hefur verið óhugnanleg fyrir þeim sem stinga ekki fingrum í eyrun þegar varað er við alræðisþróun.

Þess vegna er rétt að minna á ýmsar hetjur í sögu baráttunnar gegn fasisma. Ein þeirra var Dolores Ibárruri. Í þessari viku var 125 ára afmæli þessa baskneska andfasista sem stuðningsmenn Francos litu á sem sinn skæðasta óvin. Hún var nefnd La Pasionaria (Passíublómið) og sagt er að hún hafi komið fyrst manna með baráttukall sósíalista í spænsku borgarastyrjöldinni – ¡No pasarán! – sem þýða mætti sem svo: „Þeir komast ekki hér í gegn!“

Frankistarnir sögðu að hún væri karlaleg og kölluðu hana jafnframt „hóru“ vegna þess að þeir höfðu engin svör við sósíalisma hennar og andborgaralegum femínisma. Þegar þeir hleyptu fasískri uppreisn sinni af stokkunum um sumarið 1936 var það einmitt Dolores Ibárruri sem kom með fleygustu orð baráttunnar gegn þeim: ¡No pasarán! Fyrsti styrkleiki hennar sem kom í ljós var nefnilega færni til að hreyfa við fólki með ræðum sínum og skrifum. Fasistarnir vildu klína á henni hóruímynd en alþýða Spánar leit fremur á hana sem móðurfígúru.

Franska ríkisstjórnin valdi að blanda sér ekki í borgarastyrjöldina og seldu því spænsku ríkisstjórninni ekki vopn og þegar að því kom að reyna að snúa almenningsáliti Frakka gegn þeirri ákvörðun sagði Ibárruri að „spænska þjóðin myndi frekar vilja deyja standandi en lifa á hnjánum“. Hún varaði jafnframt við því að í hinni alþjóðlegu lýðræðisbaráttu gæti Frakkland verið næsta landið til að falla í hendur fasista og reyndist það því miður hverju orði sannara.

Hún gekk um skotgrafirnar í Madríd á meðan sprengjum rigndi yfir borgina og hvatti hermennina áfram með innblásnum ræðum um að standa vörð um varnarlausa samlanda sína og leggja aldrei árar í bát. Við konur Madrídarborgar sagði hún að betra væri að vera ekkjur hetja en eiginkonur hugleysingja. Alls staðar á átakasvæðinu lét hún í sér heyra og bar líka óskir og kröfur hermannanna um vistir og aðbúnað til yfirvalda, sem brugðust hratt við þeim. Þessari Madrídarorrustu lauk með ósigri Francos.

Brátt fór þó að halla undan fæti, sérstaklega eftir að forsætisráðherra Spánar, Francisco Largo Caballero, gafst upp fyrir herdeildum Francos í Málaga árið 1937. Bilbao féll í hendur fasista það sama ár, í heimahéraði Ibárruri, og var það henni mikið áfall. Hún gagnrýndi mjög þá ákvörðun vestrænna ríkja að ljá ekki spænska lýðveldinu aðstoð í stríðinu gegn Franco og sagði: „Við æptum okkur hás við dyrastaf svokallaðra lýðræðisþjóða og sögðum þeim hvaða þýðingu baráttu okkar hefur fyrir þær en þær hlustuðu ekki.“

Ástandið hélt áfram að versna og árið 1939 vann Franco fullnaðarsigur. Ibárruri neyddist til að flýja til Alsírs og þaðan til Rússlands, með viðkomu í Frakklandi. Sem útlagi frá eigin heimalandi var hún leiðtogi kommúnista og síðar sameiningartákn þeirra og þegar loks kom að því að Franco dó og fasistarnir misstu völd sín á Spáni árið 1977 sneri hún loks aftur og var kosin á þing sem einn helsti leiðtogi í umbreytingu Spánar aftur í lýðræðisríki. Hún lést árið 1989 og hennar er helst minnst sem sameiningarraddar uppreisnaraflanna gegn Franco á þeim árum sem hún var í útlegð. Ólöglegar útvarpaðar ræður hennar stöppuðu stálinu í sveitir lýðræðissinna á þeim myrku árum frá 1939 til 1977.

Ég tel það nokkuð augljóst hvað Passíublóminu fyndist um fasistatilburði Spánarstjórnar gegn kjósendum og kjörnum fulltrúum í Katalóníu síðan árið 2017. En ég held að hún myndi líka vara aðrar þjóðir við að vera of værukærar þegar fasisminn dúkkar upp í alls kyns myndum víðs vegar um heiminn. Hún myndi hvetja okkur til að leggja allt í sölurnar til að hindra framgöngu slíkra afla, enda sé betra að deyja standandi í lappirnar en að lifa krjúpandi frammi fyrir harðstjórum.

 

Heimild:

Paul Preston, „La Pasionaria, Heroine of the Spanish Civil War“ á vefsíðunni jacobinmag.com, skoðað 10. des. 2020.

https://jacobinmag.com/2020/12/la-pasionaria-heroine-maternal-symbol-spanish-civil-war

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram