Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hagsmunasjóð leigjenda

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Borgarstjórn Reykjavíkur

19. janúar 2021

Lagt er til að hluti leigunnar sem leigjendur Félagsbústaða greiða fari til hagsmunasamtaka leigjendanna. Fram hefur komið að erfitt getur verið fyrir leigjendur að ná sínum málum í gegn og upplifun þeirra sé sú að ekki sé alltaf hlustað á þá. Sem dæmi má nefna að viðhaldsmálum er ekki sinnt sem skyldi. Því er lagt til að 0,7% af mánaðarlegum leigugreiðslum leigjenda hjá Félagsbústöðum fari til hagsmunasamtaka leigjenda hjá Félagsbústöðum. Þannig má auðvelda hagsmunasamtökunum að halda utan um samskipti og skipulag þeirra krafna sem þarf að koma á framfæri til Félagsbústaða.

Fyrirkomulagið svipar til þess sem á sér stað á vinnumarkaði þar sem hluti af launum launafólks fer til greiðslu stéttarfélagsgjalda. Erfitt getur verið fyrir leigjanda einn og sér að koma málum sínum á framfæri en slíkt er auðveldara í félagi. Með því að gera leigjendum kleift að koma sinni rödd á framfæri er einnig verið að tryggja hag Félagsbústaða til lengri tíma. Þar sem Félagsbústaðir gera ráð fyrir umræddum tekjum, er lagt til að Reykjavíkurborg bæti Félagsbústöðum upp tapið og að það verði tekið af liðnum ófyrirséð.

Á vinnumarkaði fer hluti af launum launafólks til stéttarfélaga sem sinnir ákveðinni þjónustu. Félagið gætir þar m.a. að félagslegum réttindum og aðstoðar vegna ágreinings. Skipulagið hefur gengið vel þar sem hagsmunir hópa eru varðir í gegnum slík félög. Lagt er til að svipað fyrirkomulag verði tryggt fyrir hagsmunasamtök leigjenda hjá Félagsbústöðum svo að efla megi þau úrræði sem leigjendum standi til boða. Einstaklingar sem hafa sömu hagsmuni að gæta eru sterkari saman og sérstaklega þegar um aflsmun er að ræða á milli einstaklings með lágar tekjur og jafnvel í viðkvæmri félagslegri stöðu, á móti leigufélagi.

Blokkin, félag leigjenda hjá Félagsbústöðum var stofnuð með það að leiðarljósi að vekja athygli á aðstæðum og upplifunum þeirra sem leigja hjá Félagsbústöðum hf. Aðilar á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá borginni eru einnig velkomnir í félagið. Þetta er mikilvægur vettvangur sem fær inn á sitt borð ýmis viðkvæm mál og mikilvægt er að styrkja félagið til að auka hag leigjenda hjá Félagsbústöðum. Til að ná að sinna því starfi sem felst í því að ná til leigjenda, halda uppi umræðuvettvangi og sinna hagsmunagæslu þurfa öll félög á fjárstuðningi á að halda. Því er lagt til að þessu verklagi verði komið á varðandi leigjendur hjá Félagsbústöðum.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram