Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um Alþjóðahús
Pistill
02.02.2021
Lagt er til að undirbúin verði stofnun upplýsinga- og félagsmiðstöðvar að fyrirmynd Alþjóðahúss sem var starfandi í Reykjavíkurborg á árunum 2001 til 2010. Alþjóðahús var þekkingar- og þjónustumiðstöð á sviði fjölmenningar og mannréttinda. Í Alþjóðahúsi verði boðið upp á ráðgjöf, þar á meðal lögfræðiráðgjöf og upplýsingagjöf. Mikið ákall hefur verið eftir upplýsingamiðstöð vegna málefna er varða innflytjendur, stað þar sem hægt sé að fá allar upplýsingar á einum stað. Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sinnir þessu hlutverki að einhverju leyti en vegna fjarlægðar hafa íbúar Reykjavíkur ekki kost á því að setjast niður með ráðgjafa þar.
Ríkið hefur samþykkt að koma á fót ráðgjafarstofu en hér er lagt til að Alþjóðahúsið sinni ráðgjöf en verði einnig miðstöð félagsstarfs, sér í lagi fyrir börn og ungmenni. Slíkt starf fari t.a.m. fram í gegnum viðburði, námskeið og iðjuver þar sem þátttakendum gefist færi á að skapa eitthvað saman. Áhersla verði lögð á aðgengi fyrir börn og ungmenni til að hittast og vera saman, óháð efnahag. Þegar Alþjóðahús var starfandi þá skipulagði það ýmsa viðburði sem stóðu öllum til boða. Upplýsinga- og félagsmiðstöðin verði gjaldfrjáls og opin öllum þeim borgarbúum sem koma þangað og áhersla verði lögð á að starfsemin byggist upp í takt við það sem íbúar kalla eftir. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að útfæra efni tillögunnar í samvinnu við fjölmenningarráð og önnur viðeigandi svið borgarinnar eftir því sem þurfa þykir.
Meginmarkmið Alþjóðahússins var að stuðla að því að íbúar nýti sér kosti fjölmenningarlegs samfélags þar sem jafnrétti og gagnkvæm virðing einkenni samskipti fólks. Alþjóðahús hóf starfsemi sína árið 2001 en það var þekkingar- og þjónustufyrirtæki á sviði fjölmenningar og mannréttinda. Fyrst um sinn var Alþjóðahús einkahlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar en 1. febrúar 2003 varð Alþjóðahús einkahlutafélag í eigu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, með þjónustusamninga við Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstað. Starfsemi Alþjóðahúss var svo seld einkaaðilum árið 2006 en var þá enn með þjónustusamning við Reykjavíkurborg. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg sjái um starfsemina og öðrum sveitarfélögum verði boðin aðild að verkefninu.
Alþjóðahúsið starfaði sem upplýsingamiðstöð um málefni innflytjenda og bauð upp á almenna félags- og lögfræðiráðgjöf að kostnaðarlausu og hægt væri að sjá fyrir sér samstarf við lögfræði- og félagsráðgjafadeildir Háskóla Íslands. Annað hlutverk gæti verið samningur við leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna þar sem oft er erfitt fyrir fólk með erlendan bakgrunn sem býr oft við erfiðar aðstæður að fá aðstoð með leigusamninga. Í Alþjóðahúsi var einnig boðið upp á fræðslu, íslenskukennslu og önnur fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi, jafnt sem kaffihús/veitingahús var rekið þar. Alþjóðahúsið var lagt niður árið 2010 en hluti af þjónustu þess var innleiddur inn í starfsemi þjónustumiðstöðvanna en þar er ekki viðhöfð félagsleg dagskrá sem hægt er að sækja. Hér er lagt til að Alþjóðahús verði stofnað svo að skapa megi vettvang fyrir samveru og til að stuðla að nánari kynnum fólks með fjölbreyttan bakgrunn.
Alþjóðahúsið verði einnig hugsað sem félagsmiðstöð, sér í lagi fyrir ungmenni til að koma saman og leggja stund á t.a.m. söng, dans eða aðra skemmtun í sameiningu. Að finnast maður vera velkominn er forsenda þess að náin samskipti við aðra geti myndast. Reynsla af hinsegin félagsmiðstöð sýnir hversu mikilvægt það er að hafa stað þar sem ungmenni, sem tilheyra viðkvæmum hópum, geti hist í öruggu umhverfi. Í samfélaginu okkar verða börn og ungmenni því miður oft fyrir aðkasti og útilokun ef þau eru talin öðruvísi en meirihluti landsmanna og þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á rými þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og er jafnframt til umræðu. Alþjóðahúsinu er ætlað að gera það og vera miðstöð sem er opin öllum.