Að fela rotnunina

Chris Hedges (þýðing: Hallfríður Þórarinsdóttir) Pistill

Yfirþyrmandi samþjöppun auðs á hendur örfárra, sem trjóna á toppnum hefur afbakað stjónarstofnanir okkar – ný leiktjöld munu ekki binda endi á veldi ólígarkanna.

Dauðspírall Ameríska heimsveldisins verður ekki stöðvaður með borgarlegri kurteisi. Hann verður ekki stöðvaður með þeim 42 tilskipunum sem Joe Biden hefur undirritað, hversu mikið fagnaðarefni sem margar þeirra kunna að vera, sérstaklega vegna þess að með nýjum framkvæmdasstjóra er líka hægt að afturkalla þær samstundis. Spírallinn verður heldur ekki stöðvaður með því að fjarlægja Donald Trump og spræku samsæriskenningasmiðina, kristnu fasistana og rasistana sem styðja hann, af samfélagsmiðlunum. Spírallinn verður ekki stöðvaður með því að læsa Stoltu strákana (Proud Boys) og hina ráðalausu mótmælendur, sem réðust inn í Þinghúsið 6. janúar og tóku selfí/sjálfur í öldungadeildarstól Mike Pence. Spírallinn verður ekki stöðvaður með því að endurheimta sundruð bandalög við bandalagsríki okkar í Evrópu eða því að ganga aftur í Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) eða virkja aftur Parísarsamninginn um loftslagsmál. Allar þessar ráðstafanir eru leiktjöld sem fela grunnorsök falls Ameríku – [sem er] óskorað fákeppnisvald og græðgi. Því lengur sem auðurinn streymir uppávið í hendur hinnar örsmáu klíku ólígarkanna, sem komu Biden í embætti og sem hann þjónar af heilum hug, þá eru örlög okkar ráðin.

Þegar ólígarkarnir (fámennisklíkan) taka völdin, ummyndast stjórnarstofnanir yfir í það að þjóna eingöngu þröngum hagsmunum þeirra sjálfra og þeir hneppa lýðinn í ánauð, þá eru aðeins tveir möguleikar í stöðunni eins og Aristóteles benti á – harðstjórn eða bylting (tyranny or revolution). Nú er svo komið að yfirþyrmandi samþjöppun auðs og ruddalegur geðþótti hinna ofurríku yfirgnæfir óhófið og nautnalífið sem tíðkaðist fyrrum meðal svívirðilegustu einræðisherra heimsins og auðugustu kapítalistanna. Árið 2015, skömmu áður en hann lést, áætlaði Forbes (Viðskiptatímaritið sem m.a. birtir lista yfir ríkasta fólk í heimi hverju sinni) að hrein eign Davids Rockefellers væri 3 milljarðar bandaríkjadala. Shah/keisarinn, sem réði Íran (fyrir byltinguna 1979) rændi um milljarði Bandaríkjadala frá landi sínu eftir því sem áætlað er. Ferdinand og Imelda Marcos (fyrrum forseti Filippseyja og eiginkona hans) sönkuðu að sér á bilinu 5 til 10 milljörðum dala. Og fyrrverandi forseti Zimbabve, Robert Mugabe, var talinn vera um eins milljarða dollara virði. Jeff Bezos (eigandi Amazon veldisins) og Elon Musk (eigandi Tesla) eru hvor um sig metnir núna á 180 milljarða dala.

Nýi auðurinn kemur frá einokunar og auðhringa kapítalisma, sem er samþjappaðri og glæpsamlegri en nokkrir auðhringir ræningjabaróna nítjándu aldarinnar voru. Nýji auðurinn varð að veruleika fyrir tilstilli Ronalds Reagans og Bills Clintons, sem í skiptum fyrir peninga frá stórfyrirtækjum til að fjármagna kosningasjóði sína – og seinna Clinton stofnunina og ríkmannlegan lífstíl eftir að forsetatíð hans lauk – afnámu allt regluverk, sem verndað hafði borgarana gegn versta formi einokunararðráns. Niðurrif regluverksins gerði mögulega mestu tilfærslu auðs í sögu Bandaríkjanna. Hvað sem segja má um Trump þá hóf hann að minnsta kosti aðgerðir til að brjóta upp Facebook, Google, Amazon og aðra einokunaraðila í Silion Valley, ekkert því líkt mun gerast í tíð Bidens því þessi stórfyrirtæki jusu fé í kosningasjóð hans. Og það hlýtur að vera ein ástæðan fyrir því að þessir stafrænu miðlar lokuðu á aðgang Trumps.

Nýju ræningjabarónarnir hafa tekið hina stéttalausu sjálfsímyndar-pólitík, Demókrataflokksins sér til handargagns til að beina athyglinni frá því kyrkingartaki sem þeir hafa á auði og völdum, sem og arðráninu sem þeir hafa á verkamönnum, sérstaklega þeir sem framleiða vörur sínar erlendis. Stórfyrirtæki eins og Walmart er með 80 prósent af birgjum sínum í Kína. Þessi stórfyrirtæki taka fullan þátt í samstarfi við ríkiskapítalisma Kína, sem þvingar niður grunnréttindi og laun verkafólks þar sem launþegar fá minna en 350 dollara á mánuði og strita við Dickens-ískar vinnuaðstæður.

Það er enginn pólitískur vilji meðal ráðandi yfirstéttar til að verja réttindi starfsmanna sem hefur af Amazon næst stærsta atvinnuveitanda landsins, verið grimmúðlega aftrað frá því að stofna stéttarfélög. Starfsfólk stórfyrirtækisins vinnur á öllum tímum dags í dragsúg í Covid-19 smituðum vöruhúsum eða við pakkadreifinu fyrir fimmtán dollara á tímann, [laun] sem gera þúsundir Ameríkana háða matarúthlutunum. Að sama skapi er ekki nokkur vilji hjá elítunni að verja réttindi verkafólks í Kína, sem oft er neytt til að vinna 100 yfirvinnutíma á mánuði í hálfgerðum þrælasmiðjum fyrir jafnlítið og 2 til 3 dollara á tímann.

Sagan hefur ítrekað sýnt skelfilegar afleiðingar mikils félagslegs misréttis. Það ýtir undir byltingarkennda gerjun, sem getur komið frá vinstri eða hægri. Annaðhvort tekur vinstri popúlismi sem brýtur niður fákeppnisvald, völdin eða sviksamleg eftirlíking hans, hægri popúlismi, byggður á eitraðri samstöðu haturs, kynþáttafordóma, hefndar og ofbeldis – og fjármagnað af hötuðum óligörkum sem nota það sem front til að styrkja ofríki sitt. Við erum á hraðleið í átt að því síðarnefnda.

Sívaxandi félagslegt misrétti kemur fram í áþreifanlegri tölfræði sem endurspeglast í okkur í sársauka, örvæntingu og þjáningu, sem hrjá allt að 70 prósent almennings í Bandaríkjunum. Auður bandarískra milljarðamæringa hefur aukist um 1,1 billjón (1 billjón = þúsund milljarðar) Bandaríkjadala síðan um miðjan mars 2020, þegar heimsfaraldurinn fór að herja á landinu, það er næstum 40 prósenta stökk síðustu 10 mánuði. Heildarauður 660 milljarðamæringa Ameríku, sem er 4,1 billjónir bandaríkjadala, er tveimur þriðju hlutum hærri en samanlagður auður alls neðri helmings þjóðarinnar, þ.e. 165 milljóna Bandaríkjamanna, sem eru 2,4 milljarðar. Átta milljónir Bandaríkjamanna til viðbótar voru nýlega flokkaðar sem „nýfátækir“ þar sem hlutfall fátæktar jókst um 2,4 prósentustig frá júní til desember 2020. Það er nú 11,8 prósent, þó margir hagfræðingar haldi því fram að opinberu fátæktarmörkin $26.500 [árstekjur = 3,7 milljónir ISK] fyrir fjögurra manna fjölskyldu, dylji þá staðreynd að sennilega búi um helmingur landsmanna við raunverulega fátækt.

Opinbert hlutfall fátæktar meðal svartra bandaríkjamanna hækkaði um 5,4 prósent í 23,6 prósent frá júní og desember, en er að öllum líkindum minnsta kosti tvöfalt hærra. Dauðsföll úr COVID-19 eru næstum þrefalt hærri meðal svartra, sem og meðal fólks af rómönskum (spænskumælandi) uppruna og frumbyggjum en meðal hvítra, samkvæmt Miðstöð sjúkdómavarna og forvarna (Center for Disease Control and Prevention). En þrátt fyrir þá staðreynd að margir svartir starfa í heilbrigðisgeiranum hafa hlutfallslega miklu færri meðal þeirra verið bólusettir en meðal hvítra. Í ríkinu Maryland, eru svartir til dæmis 30 prósent íbúanna og 40 prósent alls starfsfólks í heilbrigðisþjónustu en eru samt aðeins 16 prósent þeirra sem hafa verið bólusettir.

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa leigusalar skráð meira en 227.000 útburði (úr leiguhúsnæði) og þetta nær aðeins til 27 borga í þeim fimm ríkjum sem rannsóknarstofa Princeton háskólans um útburð (Princeton Eviction Lab) rekur. Þetta er að gerast þó svo að yfirvöld hafi sett á greiðslustöðvun á landsvísu. Tólf milljónir leigjenda, sem skulda að meðaltali 5600 dollara (u.þ.b. 730 þús ISK) í leigu og orkureikninga, standa nú frammi fyrir því að vera hent út af heimilum sínum. Í lok árs 2020 var áætlað að 50 milljónir Bandaríkjamanna byggju við s.k. fæðuóöryggi [matarskort] þessi tala stóð í 35 milljónum árið 2019. Samkvæmt skýrslu frá félagasamtökunum Gefum Ameríku að borða (Feeding America) upplifði fjórða hvert heimili þar sem börn bjuggu, fæðuóöryggi árið 2020.

Viðbrögð ráðandi ólígarka jafngildir því að fleygja smámynt í fjöldann sem þeir fyrirlíta, um leið og þeir aka hjá í gullvögnum sínum. Demókratar hafa lagt til að hækka lágmarkslaun á alríkisvísu úr 7,25 dölum í 15 dali (úr 940 í 1.950 ISK) en þó ekki fyrr en árið 2025. Biden hefur í raun hvatt til þess að draga úr fyrirhuguðum fjárstuðningi til almennings úr $2000 (260.000 ISK) í $1400 (182.000 ISK). S.l. vor fengu fullorðnir, sem uppfylltu tiltekin skilyrði $1200 tékka (ígildi 156.000 ISK) og svo var $600 (78.000 ISK) bætt við þessa upphæð nýverið. Þessi fátæklega hækkun hefur engu að síður mælst illa fyrir meðal ólígarkanna. Larry Summers, sem var fjármálaráðherra Clintons og sá sem skipulagði björgunaraðgerðirnar á Wall Street árið 2008, kallaði 2000 dollara ávísanirnar – sem eru molar samanborið við billjónirnar sem afhentar voru spákaupmönnum Wall Street – „alvarleg mistök.“ Elon Musk, nú annar tveggja ríkustu manna heims, sagði að „aukalegur fjárstuðningur frá stjórnvöldum væri ekki í þágu fólksins.“

Viðbrögð siðferðislega gjaldþrota valdastéttar eru táknræn í ljósi þess að núna ríður yfir versta efnahagskreppa síðan í Kreppunni miklu og áætlað er að þriðjungur allra Bandaríkjamanna ströggli við að greiða reikninga sína. Það sýnir hve hörmulega aftengd elítan er frá lífi þess fólks sem hún ræður yfir.

Ef fjölskyldur fá ekki að minnsta kosti 2.000 dollara mánaðarlegar greiðslur þar til heimsfaraldri lýkur; og ef landsmenn fá ekki aðgang að alhliða heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á meðan á heimsfaraldri stendur; og ef þjóðin snýr ekki frá notkun á jarðefnaeldsneyti til að stöðva yfirvofandi dauða alls vistkerfis jarðar; og ef lamandi skuldir sem eru að tæma bankareikninga bandarískra fjölskyldna verða ekki lækkaðar eða gefnar eftir; og ef ekki verður sett óhagganleg stöðvun á útburð fólks og á nauðungaruppboð á húsnæði; og ef framleiðendur heima og erlendis verða ekki neyddir með ströngum viðskiptasamningum og vinnulöggjöf til að greiða mannsæmandi laun, fara eftir ströngum vinnureglugerðum og leyfa tilvist sjálfstæðra stéttarfélaga, mun það aðeins flýta enn frekar fyrir gripdeildum ólígarkanna.

Stéttastríðið er hnattrænt. Ekki fyrr en verkamönnum í þrælaverksmiðjum í Kína, Mexíkó, Kambódíu, Víetnam, Indlandi og Bangladesh er lyft úr fátækt, verður bandarískum verkalýð lyft úr fátækt. Þetta stéttastríð er hin raunverulega barátta, sem fjölmiðlafyrirtæki í eigu stórfyrirtækja og gjaldþrota liberalar neita að ræða.

„Í raun og veru er allt líf tengt saman,“ skrifaði Martin Luther King í bréfi sínu frá Birmingham fangelsinu Birmingham. „Allir menn eru fastir í óumflýjanlegu netverki gagnkvæmni sem er bundið saman í einni flík örlaga. Það sem hefur áhrif á einn mann beint hefur áhrif á alla óbeint. Ég get aldrei verið það sem ég ætti að vera fyrr en þú ert það sem þú ættir að vera og þú getur aldrei verið það sem þú ættir að vera fyrr en ég er það sem ég ætti að vera.“

Frjálshyggjan (Liberalismi), sem Rósa Luxemburg kallaði á meira viðeigandi hátt „tækifærismennsku“ er órjúfanlegur hluti kapítalismans. Þegar dregur úr umburðarlyndi borgararnna gagnvart ráðamönnum, eða þegar kapítalisminn lendir í kreppu eins og gerðist á þriðja áratug síðustu aldar, reyna frjálshyggjumenn að lina grimmd hans. Franklin Delano Roosevelt [Forseti frá 1932 -1945 og kom á s.k. New Deal löggjöfinni] sagði réttilega að mesti árangur sinn hefði verið sá að hann bjargaði kapítalismanum.

En Luxemborg hélt því fram að kapítalismann væri aldrei hægt að friðþægja. Frjálslyndar umbætur, eins og New Deal löggjöfin, eru notaðar til að koma í veg fyrir skipulagða mótspyrnu og síðan þegar hlutirnir taka aftur að róast, eru umbæturnar brotnar á bak aftur og kapítalískur þrældómur er endurreistur.

Saga kapítalismans sýnir þetta stöðuga sikk sakk á milli frjálslyndra umbóta annars vegar og stjórnlauss kapítalísks arðráns hins vegar. Kjarabarátta í Bandaríkjunum á síðastu öld sem einkenndist af útrýmingu stéttarfélaga, tilkomu nýfrjálshyggju, harkalegum niðurskurði, hömlulausri hernaðarhyggju og endalokum iðnaðarframleiðslu, sannar skýrt kenningu Rósu Luxemborg.

Fasismi er afleiðing misheppnaðrar frjálshyggju. Með spilltri frjálshyggju, eins og hún hefur verið í höndum Demókrata síðan á stjórnartíð Bills Clintons, er það eina sem er eftir fyrir þá sem skilgreina sig sem frjálshyggjufólk, að höfða á smeðjulega hátt til siðgæðis og umburðarlyndis, sem er engu að síður gersneytt efnahagslegu réttlæti.

Þessi kurteisi, er einkennandi fyrir Hvíta hús Bidens og ýtir undir fjandskap í garð valdastjórnarinnar ásamt gagnsleysi frjálshyggjusinnanna og frjálshyggju gildanna sem þeir standa fyrir.

Að lyfta undir stöðu kvenna, fólks af öðrum litarhætti en hvítum, þeirra sem hafa mismunandi kynhneigð og veita þeim hlutdeild í stjórnunarstörfum í ríki ólígarkanna, eru ekki framfarir. Þetta er tegund nýlendustefnu stórfyrirtækja (corporate colonialism). Þetta er vörumerking [branding]. Hér er menningarpólitík látin koma í stað raunverulegrar pólitíkur.

Þegar belgísku nýlendustjórnendurnir gátu ekki lengur arðrænt Kongó fyrir opnum dyrum, settu þeir strengjabrúðuna Joseph-Désiré Mobutu til valda, sem var bæði spilltur og undirgefinn. Þetta gerðist að sjálfsögðu eftir að Belgarnir höfðu myrt hinn hugrakka sjálfstæðisleiðtoga og fyrsta forsætisráðherra [sjálfstæða Kongó], Patrice Lumumba. Mobuto, sem dró að sér á milli 4 og 15 milljarða dala á blóðugri einræðistíð sinni, þjónaði nýlenduherrum sínum þar til yfir lauk. Þess er að vænta að hinn margsleiti hópur þeirra einstaklinga, sem valdir hafa verið í ríkisstjórn Bidens muni liggja jafn kylliflatur fyrir máttarveldi stórfyrirtækjanna og verði þess krafist, samskonar undirokun á ríkinu.

Stjórnmála-, menningar- og dómskerfi í hvaða kapítalíska ríki sem er miðast við helgi einkaeignarinnar. Lög og löggjöf eru sett til varnar hinum ríku gegn fátækum, eða, eins og Luxemborg skrifaði, „þeir sem einhverjar eignir eiga gegn þeim sem eiga alls engar.“ Þessi eðlislæga hlutdrægni í kapítalískum samfélögum verður hins vegar glæpsamleg þegar einokun, frá bönkunum á Wall Street til Silicon Valley, sölsar völdin. Með því að afnema regluverk og eftirlit skapa þessir einokunaraðilar, líkt og þjóðhagfræðingurinn Karl Polanyi skrifaði, fyrst mafíuhagkerfi og síðan óhjákvæmilega mafíuríki.

Demókratar og repúblikanar hafa lögleitt græðgi og svik, sem jafnvel erfingjar ræningjabarónanna töldu óbærilegt. „Upplýstur kapítalismi“, David Rockefellers, eins sjálfsþjónandi og hann var, ásamt ákalli Rockerfellers um „þjóð hagsmunaaðila“ og stofnun hans á hinni Þríhliða framkvæmdastjórn, hefur verið ýtt til hliðar og leyfi gefið á óheftar gripdeildir stórfyrirtækja.

Bill Clinton og tveir fjármálaráðherrar hans, Robert Rubin og Larry Summers, stofnuðu kerfi stjórnlauss kapítalisma, sem hefur leitt af sér fjármálastjórnleysi. Þetta anarkíska form kapítalisma – þar sem litið er á allt, þar á meðal mannverur og náttúruna sjálfa sem verslunarvörur til hagnýtingar þar til allt er uppurið eða hrunið – er réttlætt með sjálfsmyndarstjórnmálum.

Þetta er svo selt sem „upplýst frjálshyggja“ í mótsögn við gömlu stéttarfélags- og stéttarstjórnmálin þegar Demókratar hlýddu röddum verkalýðsins. Fjármálastjórnleysi og skammtíma rán hafa eyðilagt langtíma fjárhagslegan og pólitískan stöðugleika. Það hefur einnig ýtt mannkyninu ásamt flestum öðrum tegundum jarðar nær og nær útrýmingu.

Eftir því sem fleiri verkamenn eru afmennskaðir, eins og Polanyi benti á, því lægra sígur siðferðisvitund valdaelítunnar. Óheyrilegur auður skapar fáheyrilega fátækt. „Fræðimenn lýstu því yfir samhljóða að uppgötvuð væru vísindi sem settu lög sem stjórna heimi mannanna yfir allan vafa,“ skrifar Polanyi um laissez-faire kapítalista. „Það var samkvæmt fyrirmælum þessara laga að samkennd var fjarlægð úr hjörtum fólks og stóísk ákvörðun um að afsala sér samstöðu manna í nafni mestrar hamingju sem flestra, öðlaðist virðingu veraldlegra trúarbragða.“ Verkafólk, sem ríkið yfirgefur, færist þá á það stig að líkjast meira „hrelldum áhorfendum martraðar en fólki.“

Tilfærsla starfa til annara [fjarlægra] landa, þar sem starfsfólk stritar við aðstæður sem eru í öllu eins og versta vinnumisnotkunin var í upphafi iðnbyltingarinnar gerir verkafólk í hinum iðnvædda heimi ófært til samkeppni. Í stað launaframfærslu, atvinnuöryggis og starfstengdra fríðinda, kemur ”gigg” hagkerfið [stundum kallað hark hagkerfi].

Þessi heimsmarkaður neyðir starfsfólk hvort sem er í Ryðbeltinu [í Bandaríkjunum] eða í Kína, til að lúta lægra haldi gagnvart fyrirmælum húsbænda sinna. Fjörtrar verkalýðsins hvort heldur heima eða erlendis verða ekki losaðir með lögum eða lagaumbótum þegar stjórnmálakerfið er í gíslingu peninga stórfyrirtækjanna og pólitísk embætti eru skilgreind með lögleiddum mútum.

Hnattrænn kapítalismi leitar stanslaust um heiminn til að arðræna ódýrt, óskipulagt vinnuafl og ræna náttúruauðlindir. Þetta er eðli hans, eins og Karl Marx skildi. Hann kaupir eða fellir lókal valdaelítur, sem hindrar getu þróunarlandanna til að verða sjálfbjarga. Á sama tíma sviptir hann verkafólk í hinum iðnvædda heimi vellaunuðum störfum, fríðindum og lagalegri vernd og ýtir þeim í ok lamandi skuldafjötra með lánspeningum, sem þenja út bankareikninga þessara alþjóðlegu spákaupmanna enn frekar. Tvö óþrjótandi markmið hans [þ.e hnattræns kapítalisma] eru hámörkun gróða og lækkun framleiðslukostnaðar, sem krefst þess að launþegar verði valdalausir og meðhöndlaðir eins og fangar. Þessi hnattræna árás á verkalýðinn kyndir undir reiði um allan heim. Og birtingarmynd reiðinnar, eins og við sjáum hjá hvíta, eignarlausa verkalýðnum í Ameríku, getur oft verið mjög ljót.

Apple, eitt arðvænlegasta fyrirtæki í heimi, er ímynd hins „upplýsta“ hnattræna kapítalisma. Tímaritið WIRED greindi frá því að „starfsmenn Alphabet, Amazon, Apple, Facebook, Microsoft og Oracle hafi lagt næstum 20 sinnum meira af mörkum til Bidens en Trumps frá ársbyrjun 2019. Samkvæmt gögnum, sem Kosninganefnd alríkisins birti, sem krefur einstaklinga. sem leggja fram 200 dollara eða meira í kosningasjóði forsetaframbjóðenda til að tilkynna vinnuveitanda sinn, leiddu í ljós að starfsmenn þessara sex fyrirtækja lögðu fram 4.787.752 dollara til Bidens og aðeins 239.527 dollara til Trumps. “

WIRED greindi einnig frá því að starfsmenn Alphabet, móðurfélags Google, væru stærstu fjárhagslegu stuðningsmenn Bidens í Silicon Valley. Þeir gáfu næstum 1,8 milljónir Bandaríkjadala, sem er meira en þriðjungur af peningunum sem söfnuðust frá starfsmönnum fyrirtækjanna sex. Rannsókn Open Secrets [Opin leyndarmál] samtaka, sem helga sig eftirliti með framlagi í kosningasjóði leiddi í ljós að framlög starfsmanna Alphabet og nefndar um stjórnmálaaðgerðir til kosningaherferðar Bidens er samanlagt hærri en nokkura annara fyrirtækja. Open Secrets fann líka út að starfsfólk fyrirtækjanna Alphabet, Microsoft, Amazon, Facebook og Apple, standa að baki fimm af sjö stærstu framlögunum í kosningasjóð Bidens.

Apple í Kína kemur lítið betur fram við starfsmenn sína en ef væru þau 19. aldar hjú. Í bókinni Dying for an iPhone, gera höfundarnir Jenny Chan, Mark Selden og Pun Ngai grein fyrir landlægri misnotkun vinnuafls, þar á meðal ófullnægjandi launum og launaþjófnaði, löngum vinnudegi, niðurrifi verkalýðsfélaga, synjun á greiðslu veikindaleyfa, óöruggri vinnuaðstöðu, erfiðum vinuaðstæðum og þrýstingi til að uppfylla [afkasta] kvóta, allt þættir sem sem stuðla að hárrri sjálfsmorðstíðni meðal starfsmanna í verksmiðjum sem framleiða vörur fyrir Apple. Starfsmönnum er svo troðið í yfirfulla svenfskála við hliðina á verksmiðjunum „til að auðvelda háhraða framleiðslu allan sólarhringinn“ og neyðast svo til að vinna allt að 130 yfirvinnutíma á mánuði.

Hin raddlausa hvíta verkamannastétt faðmaði Trump að sér því hann storkaði og hæddi glóbalistana og einokunar kapítalistana, sem eyðilagt höfðu líf þeirra og samfélög. Fyrir þá var groddaskapur Trumps kærkominn hvíld frá hinu smjaðurslega tungutaki ólígarkanna sem einkenndist af pólitíski rétthugsun og því að enginn væri skilinn útundan [allir innklúderaðir], en felur um leið glæpi einokunarkapítalismans. Sú taug, sem í Bandaríkjunum, tengir saman þessa ólíku hópa réttindalausra hvítra verkamanna, er kristilegur fasismi.

Biden, verkfæri hnattrænnar fákeppni, sem á naívan hátt ætlar að endurvekja hina gömlu stjórnarhætti [ancien regime], greiðir nú götu ógnvekjandi harðstjórnar, þar sem raddir andstöðu, frá vinstri og hægri, eru ritskoðaðar og allir sem neita að samþykkja hið nýja hnattræna skipulag eru merktir sem innlendir hryðjuverkamenn og neyddir til undirgefni. Samfélagslegt niðurbrot, sem er yfirvofandi, hefur í för með sér gróteska pólitíska afbökun. Trump var einkenni þessarar bilunar. Hann var ekki sjúkdómurinn. Þess dystópísku framtíð, sem í Bandaríkjunum mun líklega enda í formi kristilegs fasisma, hafa hnattrænar elítur heimsins fært okkur. Á öðrum tímum hefðu þær [elíturnar] fundist á gangi í sölum Versalahallar [Frakkakonungs] eða Forboðnu borgarinnar [Höll keisarans í Kína].

___________________________

Greinin er þýdd úr ensku og heitir á frummálinu: Papering Over the Rot og birtist á ScheerPost 1. febrúar 2021. Chris Hedges skrifar reglulega frumsamda pistla fyrir ScheerPost. Smelltu hér til að skrá þig fyrir tilkynningar í tölvupósti.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram