Könnun og úrbætur á stöðu þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Allt að 7.000 einstaklingar búa nú í óleyfisíbúðum hér á landi, þ.e.a.s. húsnæði sem skipulagt er undir atvinnustarfsemi en er nýtt til búsetu. Þar af er áætlað að á bilinu 3.500- 4.000 einstaklingar búi við slíkar aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, í 1.000- 1.200 íbúðum. Skortur á leiguhúsnæði og há leiga er talin veigamesta skýringin á því að fólk búi í óleyfisíbúðum. Nýútkomin skýrsla um þessi málefni byggir á kortlagningu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu frá því 2017.

Það er mikilvægt að kanna hverjar aðstæður fólks eru sem býr í atvinnuhúsnæði, fjölda innan borgarinnar og hvernig best sé að koma til móts við þarfir þeirra. Reykjavíkurborg samþykkir því að leitast við að ná til þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði í borginni með það að markmiði að komast að því hver á í hlut; fjölda, fjölskyldugerð, ástæður þess að búseta þeirra er í atvinnuhúsnæði og hverjar þarfir þeirra eru. Samhliða því komi borgin til móts við þarfir þeirra svo að enginn þurfi að búa við ótryggar aðstæður.

Mikilvægt að nálgast stöðuna af varfærni
Áætlað er að á bilinu 5.000- 7.000 einstaklingar búi í ósamþykktu húsnæði í 1.500 til 2.000 íbúðum á landsvísu. Líkt og fram kemur í nýútgefinni skýrslu: Óleyfisbúseta og fjöldaskráningar í íbúðarhúsnæði – niðurstöður vinnuhóps, er skortur á leiguhúsnæði og há leiga talin veigamesta skýringin á því að fólk búi í óleyfisíbúðum. Ekki er hægt að skrá lögheimili í atvinnuhúsnæði og einstaklingar byggja viss réttindi á skráningu lögheimilis. Hér má t.a.m. nefna að rétturinn til húsnæðisbóta er ekki til staðar í ósamþykktu húsnæði og rétt lögheimilisskráning barna er mikilvæg út frá velferðar- og skólaþjónustu. 

860 börn voru talin búa í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt síðustu kortlagningu slökkviliðsins. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari stöðu og bjóða upp á lausnir sem henta. Í umfjöllun Stundarinnar um stöðu þeirra sem búa í iðnaðarhverfum kemur m.a. fram að leigjendur óttist að stíga fram undir eigin nafni, af ótta við að missa húsnæði sitt. Mikilvægt er því að nálgast stöðuna af varfærni. Skiljanlega vill fólk ekki tjá sig um stöðu sína ef slíkt skyldi leiða til þess að það hafi engan öruggan stað að leita til. 

Kortlagning á mögulegum fjölda þeirra sem býr í húsnæði sem ekki er hannað til búsetu liggur fyrir. Nú er mikilvægt að tala við fólkið sem býr við þessar aðstæður og mæta þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að neyðast til þess að búa við óboðlegar aðstæður sem henta ekki til búsetu. Þá er einnig mikilvægt að kortleggja stöðuna innan Reykjavíkurborgar.

Líkt og fram kemur í skýrslunni um óleyfisíbúðir, þá byggir hún á kortlagningu slökkviliðsins frá því 2017. Tekið er fram að niðurstöður þeirrar könnunnar séu bestu tiltæku upplýsingarnar um mögulegu óleyfisbúsetu, þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin frá þeirri kortlagningu. Full ástæða er til þess að fara yfir stöðuna nú og bjóða upp á raunverulegar lausnir sem henta.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram