Söguleg staða Sósíalistaflokksins
Pistill
02.03.2021
Samkvæmt febrúar-könnun Gallup var fylgi Sósíalistaflokksins í febrúar um 5,8% að meðaltali. Það held ég að sé bæði áhugavert út frá pólitískri stöðu í dag og sögulega merkilegt.
Það hefur ekki gerst áður í sögunni að grasrótarhreyfing utan þings mælist svona hátt utan þess tíma sem kalla má kosningabaráttu. Ef við setjum þessi 5,8% í sögulegt samhengi þá fékk Kommúnistaflokkurinn 3,0% í sínum fyrstu kosningum 1931, Flokkur fólksins 3,5% í fyrstu kosningum sínum 2016, Frjálslyndi flokkurinn 4,2% í sínum fyrstu kosningum 1999, Píratar 5,1% í sínum fyrstu 2013, Kvennalistinn 5,5% árið 1983, Þjóðvarnarflokkurinn 6,0% í sínum fyrstu kosningum 1953 og Borgarhreyfingin með 7,2% í sínum einu kosningum árið 2009, strax eftir Hrun.
Þetta eru þeir flokkar sem kalla má grasrótarhreyfingar, þótt vissulega hafi Birgitta Jónsdóttir forystukona Pírata setið á þingi fyrir Borgarahreyfinguna og framboð Frjálslynda flokksins var leitt af Sverri Hermannssyni, fyrrum þingmanni og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Viðreisn gæti flotið með í þennan blandaða hóp grasrótar og klofningsframboða. Flokkurinn var stofnaður sem viðbragð við því að Evrópusinnar töpuðu baráttunni innan Sjálfstæðisflokksins. Allt helsta hvatafólk af stofnun Viðreisnar var Sjálfstæðisflokksfólk. Í fyrsta framboðinu var hins vegar enginn sitjandi þingmaður og það er því ekki hægt að kalla framboðið klofningsframboð í þeirri merkingu að þingflokkur hafi klofnað. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar, var í framboði fyrir flokkinn 2016 eftir að hafa sagt af sér þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn nokkrum árum fyrr, hafandi verið ráðherra og varaformaður þess flokks árum saman.
En önnur framboð hér að ofan eru hrein grasrótarsamtök eins og Sósíalistaflokkurinn. Af þeim náði Borgarhreyfingin (Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson o.fl.) og Þjóðvarnarflokkurinn (Ragnar Arnalds o.fl.) hlutfallslega fleiri atkvæðum en fylgi Sósíalista er nú, samkvæmt Gallup. Með minna fylgi en Sósíalistar eru flokkar sem þó náðu á þing, annað hvort strax eða seinna meir: Kvennalistinn (Kristín Halldórsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir o.fl.), Flokkur fólksins (Inga Sæland o.fl.) og Kommúnistaflokkurinn (Einar Olgeirsson o.fl.). Það sést af þessum lista hversu sérstök staða Sósíalista er í dag, þetta er fágæti.
Af grasrótarsamtökum sem náðu mörgum atkvæðum, en ekki nógu mörgum til að fá þingmann kjörinn eru þessi þau sem komust næst Alþingi: Íslandshreyfingin (Ómar Ragnarsson o.fl.) fékk 3,3% árið 2007 og Lýðveldisflokkurinn (Gunnar Einarsson, forstjóri Ísafoldarprentsmiðju og gegn Sjálfstæðisflokksmaður, o.fl.) fékk líka 3,3% árið 1953. Dögun (Andrea Ólafsdóttir, Gísli Tryggvason, Margrét Tryggvadóttir o.fl.) fékk 3,1% árið 2013, sama ár fékk Flokkur heimilanna (Pétur Gunnlaugsson o.fl.) 3,0% og Lýðræðisvaktin (Þorvaldur Gylfason o.fl.) 2,5%. Allt voru þetta framboð borin uppi af utanþingsfólki eins og Framboðsflokkurinn árið 1971, grínframboð Gunnlaugs Ástgeirssonar, Jörmundar Inga Hansen o.fl. sem fékk 2,0% atkvæða.
Ef þið viljið fara neðar niður þennan lista þá koma næst Hægri grænir (Guðmundur Franklín Jónsson o.fl.) 2013 með 1,7%, Flokkur mannsins (Pétur Guðjónsson o.fl.) með 1,5% 1987, Þjóðarflokkurinn (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson o.fl.) fékk 1,4% árið 1987, Regnboginn (Jón Bjarnason o.fl.) fékk 1,1% árið 2013, Óháði lýðræðisflokkurinn (Áki Jakobsson fyrrum þingmaður Sósíalistaflokksins o.fl.) fékk 1,1% árið 1967, Nýtt afl (Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Magnússon, Ásgerður Jóna Flosadóttir o.fl.) fékk 1,0% árið 2003 og Þjóðernissinnar (Óskar Halldórsson síldarspekúlant og fleiri nasistar) fékk líka 1,0% árið 1934.
Í flokknum ný framboð sem réttara væri að kalla klofningsframboð en grasrótarframboð er Miðflokkurinn, klofningur úr Framsókn (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson o.fl.), efstur með 10,9% atkvæða 2017. Miðflokkurinn er aðeins sjónarmun ofar en Borgaraflokkurinn, klofningur úr Sjálfstæðisflokki (Albert Guðmundsson o.fl.), árið 1987, sem fékk líka 10,9%. Það þarf að sækja aukastafi til að úrskurða um sigur Sigmundar; 10,871% á móti 10,862% hjá Alberti, munurinn er 0,009 prósentustig eða 18 atkvæði í kosningunum 2017.
Á eftir þeim félögum kemur Viðreisn, klofningur úr Sjálfstæðisflokki, sem fjallað var um hér ofar, með 10,5% árið 2016 og síðan VG, klofningur úr Alþýðubandalagi (Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson o.fl.), með 9,1% árið 1999. Þar á eftir Samtök frjálslyndra og vinstri manna, klofningur úr Alþýðubandalagi (Hannibal Valdimarsson o.fl.), með 8,9% árið 1971, Björt framtíð, klofningur úr Samfylkingu (Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall o.fl.), með 8,2% árið 2013, Bandalag jafnaðarmanna, klofningur úr Alþýðuflokki (Vilmundur Gylfason o.fl.), með 7,3% árið 1983, Þjóðvaki, klofningur úr Alþýðuflokki (Jóhanna Sigurðardóttir), með 7,2% árið 1995 og Bændaflokkurinn, klofningur úr Framsókn (Tryggvi Þórhallsson o.fl.), með 6,4% árið 1934.
Þá er kannski bara eftir að nefna að Alþýðuflokkurinn fékk 6,8% af mjög skertri kjörskrá 1916, Framsóknarflokkurinn 22,2% þegar fyrst var boðið fram í hans nafni 1922 og Sjálfstæðisflokkurinn 43,3% þegar hann bauð fyrst fram 1931 eftir sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Samfylkingin (sameining Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka) fékk fyrst 26,8% atkvæða 1999, Alþýðubandalagið (sameining Sósíalistaflokksins og flóttamanna úr Alþýðuflokki) fékk fyrst 19,2% 1956 og Sósíalistaflokkurinn (sameining Kommúnistaflokksins og flóttafólks úr Alþýðuflokknum) fékk 16,2% árið 1942.