Skúra, skrúbba og strita

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

„Þeir taka og taka en hafa ekkert til að gefa“, voru skilaboð Dollyar til mín í sunnudagsgöngutúrnum. Hún var að fjalla um vinnudaginn, að vera til þjónustu reiðubúin frá klukkan níu til fimm en upplifa ekki sömu hollustu frá yfirmanninum. Launafólkið rétt svo skrimtir á meðan yfirmaðurinn kemst hærra upp velmegunarstigann á kostnað þeirra.

Einstaklingsmiðuðum afrekum sem skila fólki hagrænum ávinningi er hampað í því samfélagi sem við búum í. Á sama tíma er gjarnan litið svo á að það sé fólki sjálfu að kenna ef það býr við skort og fátækt. Slík hugmyndafræði lítur ekki til undirliggjandi samfélagsgerðar og efnahagslegs óréttlætis. Því er viðhaldið með láglaunastefnu og skattinnheimtu sem hefur verið lækkuð á hina ríku og færð yfir á lægri tekjuhópa. Brauðmolakenningin um að áhrif skattalækkana á hátekjuhópa, skili sér til hinna fátæku er ekki að virka. Við verðum að hverfa frá skaðsamlegri hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur haft mótandi áhrif á samfélagið.

Framtakssemi og há afkastageta eru taldir eftirsóknarverðir eiginleikar sem við eigum að tileinka okkur viljum við ná langt í lífinu. Undir þeim formerkjum snýst lokatakmarkið ávallt um að bæta sig og klífa upp metorðastiga þar sem hreyfanleiki, árangur og stöðuhækkanir eru talin gulls ígildi.

Ákveðin störf eru metin hátt á verðleikaskalanum á meðan önnur sitja á botninum þó svo að þau haldi samfélaginu gangandi, má þar nefna störf við umönnun og þrif.

Ótti foreldra um að það „rætist“ ekkert úr börnum þeirra endurspeglast í teiknaðri mynd sem ég hef tekið eftir á netinu. Þar bendir móðir á sorphirðumann og segir svo við barnið sitt: „Ef þú lærir ekki í skólanum, þá muntu enda eins og hann“. Sorphirðufólk skorar því greinilega ekki hátt hjá foreldrinu varðandi hugmyndir um eftirsóknarverðan starfsframa. Skömmu síðar segir önnur móðir við barnið sitt: „Ef þú leggur hart að þér í námi, getur þú gert heiminn að betri stað fyrir sorphirðumanninn og alla aðra sem búa í samfélaginu“. Þessari mynd var ætlað að draga fram muninn á neikvæðum og jákvæðum viðhorfum.

Hvorugt foreldrið hittir naglann á höfuðið, hvorki með því að tala starfið og sorphirðufólk niður, né með því að gera ráð fyrir því að kjarabót verkafólks sé háð framtíðarmenntun barns sem muni bæta heiminn. Tilgangurinn með því að draga fram þessa mynd er að minna á að einhverra hluta vegna eru ákveðin störf ekki talin eftirsóknarverð. Að mínu mati er það virðingarvert að fjarlægja rusl úr umhverfinu okkar. Að sama skapi skil ég ekki hví það er oft litið niður á fólk sem sinnir þrifum og talað um þau sem „bara skúringafólk“. Fyrirmyndirnar mínar eru allt það fólk sem vinnur að því að halda samfélaginu hreinu og gangandi, á meðan það leitast við að halda sér gangandi á lágum launum sem það fær fyrir sitt framlag.

Í samfélaginu okkar er um að ræða láglaunastörf, sem hafa í gegnum tíðina flokkast til hefðbundinna kvennastétta. Ég ólst upp hjá einstæðri móður sem reyndi að ná endum saman með auka starfi sem ræstingarkona. Það gekk ekki. Að taka saman annarra manna rusl og óhreinindi til þess að rétt skrimta á skilið alla þá virðingu sem til er.

Ræstingarfólk er grundvöllur þess að forstjórar geti mætt til vinnu í hrein og fín fundarherbergi, svo að þeir geti haldið áfram að skila eigendum hagnaði og greitt út arð. Flatböku afgangar gærkvöldsins og stóru pappakassarnir utan um þá hverfa af skrifstofunni þökk sé ræstingarstarfsfólkinu. Í fínu vel lyktandi fundarrýmunum geta for- og framkvæmdastjórar einbeitt sér að komandi verkefnum. Þar fá þeir frið til að hugsa skýrt, fjarri ryk-klumpum og skítugum tölvuskjám. Undir áhrifum nýfrjálshyggjunnar um hagkvæmni hafa forstjórar ákveðið að útvista samningum um þrif. Sá sem býður lægsta verðið fyrir verkefnið, hlýtur það.

Lækkaður rekstrarkostnaður skilar sér í auknu fjármagni til yfirmannsins. Með óraunhæfu vinnuálagi á ræstingarstarfsfólk aukast þó líkurnar á slysatíðni hjá þeim sem skúra, skrúbba og strita þar sem nú þarf að klára verkið á enn skemmri tíma en áður fyrr. Meiðsl eru algeng meðal ræstingarstarfsfólks í samanburði við önnur störf, þrátt fyrir að gjarnan sé litið á starfið sem auðvelt í samanburði við önnur. Slíkt er fjarri lagi.

Skínandi fínu rýmin krefjast sterkra, ertandi hreinsiefna, álags á líkama, og margra ferða í ruslakompuna. Án ræstingarstarfsfólks gæti starfsemi skóla, sjúkrahúsa, samgangna og vinnustaða ekki átt sér stað. Ætli forstjórinn sem græddi á útvistuninni, viti að kvöldinu áður en hann mætti til vinnu, þurfti ræstingarkona að taka sér pásu frá þrifum vegna svengdar og hafði ekki efni á að seðja hungrinu? Ein afleiðing láglaunastefnu er að fólk þarf að neita sér um hluti, líkt og mat, þar sem peningurinn dugar ekki fyrir útgjöldum mánaðarins.

Hungur getur verið magnaður drifkraftur. Hungur í auðsöfnun og hungur í mataröryggi er sennilega það sem aðskilur metnað forstjórans og ræstingarkonunnar í þessu tilfelli.

Skyldi forstjóranum snúast hugur um útvistunarstefnu fyrirtækisins ef hann myndi upplifa sama hungur og ræstingarkonan? Ef forstjórinn upplifði veruleika ræstingarfólks sem stritar, myndi hann þá vilja fastráða það til sín á betri kjörum?

Þvær hann frekar hendur sínar af málinu með því draga fram yfirlýsingu um samfélagslega ábyrgð í rekstri fyrirtækisins? Yfirlýsing sem hefur það að markmiði að lágmarka skaða á samfélagið og fegra ímynd fyrirtækisins. Yfirlýsing frá fyrirtæki sem er þó samhliða ábyrgt fyrir því að viðhalda lágum kjörum þeirra sem halda staðnum óaðfinnanlegum. Slíkt sýnir ekki samfélagslega ábyrgð.

Í dag fagna ég öllum þeim verkakonum og þeim sem við sjáum ekki endilega dagsdaglega að störfum en myndum taka vel eftir í fjarveru þeirra. Fyrirmyndirnar mínar er þau sem skúra og skrúbba frá níu til fimm, fimm til sjö og dagana og myrkranna á milli.

 

Mynd: Alexandra Dögg Steinþórsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram