Tillaga sósíalista um gjaldfrjálsa þjónustu fyrir lágtekjufólk með börn

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Borgarstjórn samþykkir að innheimta ekki gjald fyrir leikskóladvöl, grunnskólamáltíðir, og frístundastarf á vegum borgarinnar, hjá þeim sem eru með minni tekjur en lágmarkslaun. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf miðast nú við 351.000 krónur á mánuði. Á meðan tekjur öryrkja, fólks á fjárhagsaðstoð og annarra lágtekjuhópa eru svo lágar, samþykkir Reykjavíkurborg að gjaldtaka fari ekki fram fyrir þá þjónustu sem hún veitir til barna þeirra. Nú þegar hefur verið samþykkt að afnema gjaldtöku fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu. Um þjónustugreiðslur er að ræða þar sem verið er að tryggja börnum notenda fjárhagsaðstoðar aðgang að ákveðinni þjónustu borgarinnar. Sú tillaga er tilkomin úr vinnu stýrihóps sem fjallaði um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Fátækt og skortur er víða í samfélaginu og það sem Reykjavíkurborg getur gert til að sporna gegn því er að afnema gjaldtöku hjá þeim fjölskyldum sem hafa lágar tekjur. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar.  

Börn hafa engar tekjur og gjaldtaka ætti ekki að fara fram í þjónustuveitingu við þau. Þar að auki ætti ekki að rukka þau fyrir þátttöku í félagslegu starfi borgarinnar. Öll þjónusta borgarinnar gagnvart börnum á að byggja á því að þeim sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra eða forráðamanna sinna. Fyrri tillögur sósíalista sem miða að því að veita gjaldfrjálsa þjónustu í skólum og frístundastarfi hafa ekki hlotið framgang. Hér er lagt til að litið verði til tekjulægstu hópanna í samfélaginu og byrjað á því að tryggja að börn af heimilum þar sem foreldrar eða forráðamenn hafa lægri tekjur en lágmarkslaun geti fengið grunnskólamáltíðir, dvöl á leikskóla og tekið þátt í frístundastarfi sér að kostnaðarlausu. 

Börn einstæðra foreldra og öryrkja eiga í mikilli hættu á að búa við fjárhagsþrengingar. Um þetta er fjallað í skýrslu sem Kolbeinn H. Stefánsson vann fyrir Velferðarvaktina og ber heitið Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 . Í skýrslunni er einnig fjallað um leiðir sem hægt væri að fara til þess að draga úr barnafátækt og þar eru ókeypis skólamáltíðir til tekjulágra fjölskyldna og aukin niðurgreiðsla tómstundastarfs nefndar sem tillögur. 

Nýverið var samþykkt að afnema gjaldtöku fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu. Eftirfarandi var bætt inn í reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til að ná utan um það sem um ræðir: „Til viðbótar við grunnfjárhæð skal í hverjum mánuði greidd sérstök fjárhagsaðstoð fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum. Skal aðstoðin mæta kostnaði vegna dvalar barna í leikskóla í allt að átta tíma og dvalar barna á frístundaheimili, fimm daga í viku, auk greiðslu kostnaðar vegna skólamáltíða og síðdegishressingar. Um þjónustugreiðslur er að ræða sem greiðast til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.“ 

Hér er lagt til að þjónusta Reykjavíkurborgar nái til fleiri barnafjölskyldna og þar með tryggt að hún verði gjaldfrjáls þeim börnum sem koma frá heimilum þar sem tekjur eru af skornum skammti. Hér er t.a.m. um að ræða börn námsfólks, þeirra sem eru án atvinnu og öryrkja. Með þessu er leitast við að fyrirbyggja að fjárhagsáhyggjur barna fylgi þeim a.m.k. allan liðlangan daginn innan skóla- og frístundastarfs.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram