Aldrei segja neitt afgerandi og alltaf verja hið óverjandi
Pistill
04.05.2021
Jæja, Katrín Jakobsdóttir viðurkenndi að „það væri auðvitað verulega illa komið fyrir okkur“ ef landinu væri stjórnað af hagsmunaöflum. Þessi yfirlýsing flokkast kannski með þeirri staðhæfingu Péturs Pan að ef álfar væru ekki til þá væri til lítils að reyna að vekja þá frá dauðum með lófataki. Satt eins langt og það nær. Hitt sem hún sagði myndi hins vegar geta flokkast sem síðasti naglinn í líkkistu flokks hennar sem vinstriafls ef ekki væri fyrir löngu búið að grafa hann undir moldarhlassi nýfrjálshyggju:
„Þess vegna segi ég að þegar sagt er að landinu sé stjórnað af hagsmunaöflum sé væntanlega verið að segja að stjórnmálaflokkarnir hér séu allir undir stjórn hagsmunaafla. Ég fellst ekki á það.“
Nú er auðvitað hægt að segja – og enn eru þeir til sem leggjast svo lágt að verja VG – að forsætisráðherra sé ekki bókstaflega að staðhæfa að hagsmunaöfl hafi engin ítök heldur bara að ekki séu allir stjórnmálaflokkar undir ægivaldi hagsmunahópanna sem seðlabankastjóri hafði í huga. Þetta er aðalsmerki útsmoginnar stjórnmálamanneskju; að taka aldrei svo skilmerkilega afstöðu að ekki sé hægt að fara undan í flæmingi þegar hún er borin upp á mann. Ásgeir Jónsson var ekki að segja að allir flokkar væru undir þumli sérhagsmunaafla heldur að ítök Samherja og annarra slíkra fyrirtækja í krafti fjármagnsins væru of mikil.
Katrín byrjaði á að viðurkenna að hluta til sannleiksgildi fullyrðingar Ásgeirs með þessum orðum: „ég held að við höfum dæmi um það að hagsmunaaðilar beiti sér með ótæpilegum og óhóflegum hætti.“ En í stað þess að láta þar við sitja fann forsætisráðherra sig knúna til að bæta við: „ég hef líka þá trú að flokkarnir hér á Alþingi séu vandari að virðingu sinni en svo að þeir láti eingöngu stjórnast af hagsmunaöflum.“ Hvort er það, Katrín? Hvort er þetta vandamál eða ekki? Er spilling til staðar í íslenskum stjórnmálum (eins og almannasamtök gegn spillingu benda á, enda landið langt fyrir neðan hin Norðurlöndin í þeim efnum) eður ei?
Og hvað hefur heiðarleiki með það að gera að vera „vandur að virðingu sinni“? Hverjum dettur í hug að spilling feli í sér að vera ekki nógu „vandur að virðingu sinni“? Svo við leikum leik Katrínar þá tekur hún reyndar fram að hún telji ekki að flokkarnir láti „eingöngu“ stjórnast af hagsmunaöflum. Þýðir það að þeir geri það að einhverju leyti? Og er það í lagi? Er smáspilling ásættanleg, bara ef hún gengur ekki of langt? Er hægt að malla eitthvað sem heitir afstaða upp úr þessari hlandvolgu undanrennu?
Þetta er framlag forsætisráðherra þegar ljóst er orðið að rannsakað var hvort norskur banki „hefði tekið þátt í glæpsamlegu athæfi með því að tilkynna ekki millifærslur Samherjafélags til félags í Dúbaí til fjármálaeftirlitsins í Noregi sem grunsamlegar millifærslur,“ eins og fram kemur í Kjarnanum. Katrín stígur ölduna og segist hafa gert nógu mikið til að stemma stigu við peningaþvætti á Íslandi, þó ekki nógu fljótt til að forða Íslandi frá því að lenda á gráum lista FATF.
Skilaboð hennar eru sem sagt að þetta sé allt saman í ferli og enn og aftur ber hún blak af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem seint verður sagt að séu allir ótengdir Samherja. Katrín valdi sér þetta hlutverk skúrkaverjanda og kannski er maður að hýða dauðan hest þegar maður talar um að trúverðugleiki hennar sé í molum og tryggð hennar við auðvaldið orðin vandræðalega augljós.
En nú þegar kosningar eru á næsta leyti er þetta enn ein staðfesting þess að hvert atkvæði sem greitt er VG er stuðningsyfirlýsing við ríkjandi skipan, þar sem fyrirtæki eins og Samherji fá að dreifa óhróðri til að klekkja á þeim sem fjalla opinberlega um vafasamt athæfi þeirra. Þar sem flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn fær að mynda ríkisstjórnarmeirihluta með svokölluðum vinstriflokki eftir hvert hneykslismálið á fætur öðru. Þetta heitir ósköp einfaldlega að vera röngum megin í mannkynssögunni. Að vita ekki fyrir hvern maður eigi að vinna.
Sannur vinstriflokkur væri ekki svona samningsfús við spillingaröflin sem auðgast á auðlindum okkar.
Og þeir eru það ekki allir.
Svör forsætisráðherra og flokks hennar eru að yppa öxlum og láta eins og ekkert sé við þessu að gera. Hugsjónamennskan hefur algjörlega vikið fyrir einhverju sem VG vill selja okkur sem realpolitik með stjórnmálamanneskju í brúnni sem er holdgervingur málamiðlunar. Oft er erfitt að muna að þetta var ekki alltaf svona. Sama Katrín Jakobsdóttir sagði í þingræðu árið 2009: „Gleymum því ekki að alveg eins og hugsjónum þurfa að fylgja aðgerðir verða aðgerðir líka að fylgja hugsjónum.“
Hvað gerðist í millitíðinni?