Stórfelld skattalækkun á millitekjur og lægri
Pistill
26.05.2021
Á undanförnum árum hafa skattar á allt venjulegt fólk hækkað en lækkað hjá þeim sem eiga mikið, fjármagseigendum, umsvifamiklum fasteignaeigendum og eigendum ríkra fyrirtækja. Þetta er svo öfugsnúið og óréttlátt að manni verður orðavant. Heiðarlegt og ærlegt fólk sem stritar myrkanna á milli til að eiga í sig og á, öryrkjar, fátækt fólk, fátækt eftirlaunafólk borgar skatta af sínum tekjum alveg upp í topp en þeir ríku sleppa mjög vel með því að geta borgað sér arð, hafa fjármagnstekjur, fá leigutekjur og borga miklu minni skatta af þeim tekjum. Þeir sleppa best sem eiga mest. Ójöfnuðurinn eykst og eykst. Almenningi blöskrar en ekkert er gert.
Hvað gerðist?
Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1988 greiddi fólk á lágmarkslaunum enga skatta og þar með eftirlaunafólk, öryrkjar, námsfólk og fólk sem hafði lægri tekjur en lágmarkslaun. Síðan var nýfrjálshyggjunni hleypt inn í íslenskt samfélag. Afleiðingin er að í dag greiðir fólk á lágmarkslaunum um 17% af tekjum sínum í skatt, rúmar 55 þúsund kr. á mánuði. Samt er vitað að fólk á lágmarkslaunum á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman.
Fólk á lægstu örorkubótum, 240 þús. kr. á mánuði, greiðir í dag tæpar 25 þús. kr. af þeim í skatt. Fólk sem er á framfærslu sveitarfélaga fær tæpar 213 þús. kr. á mánuði og borgar af því rúmar 16 þús. kr. í skatt. Þetta er með öllu óverjandi.
Fyrir tíma nýfrjálshyggjunnar borgaði ekkert af þessu fólki skatta. Það er siðlaust að fjármálaráðherra gangi að allra fátækasta fólkinu, fólki sem á ekki fyrir mat út mánuðinn, og taki af því fé til að reka ríkissjóð. Ríkissjóður sem er byggður á slíku óréttlæti er siðlaus í grunninn.
0% skattur
Í dag eru lægstu laun 351 þús. kr. á mánuði. Af þeim borgar fólk rúmar 55 þúsund kr. í skatt eða um 17% eins og áður segir. Ef við færum þetta aftur til ársins 1991 þá borgaði fólk á lægstu laununum 0% skatt. Lágtekjufólkið hefur misst 720 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem það borgaði fyrir nýfrjálshyggju.
Þetta á líka við fólk sem er á millitekjum. Miðgildi heildarlauna er í dag 750 þúsund kr. á mánuði. Af þeim greiðir fólk um 211 þús. kr. í skatt eða 28,2%. Ef við færum þessi laun aftur til 1991 með launavísitölunni og leggjum á þau skatt samkvæmt þágildandi skattalögum þá væri skatthlutfallið 19,9%. Miðlungsfólkið hefur misst 747 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem hann borgaði fyrir nýfrjálshyggju.
Sósíalistar vilja vinda ofan af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna og lækka skattbyrði tekjuskatts á miðlungs og lægri tekjur um 700 þús. kr. á ári og stöðva skattlagningu á fátækt. Þetta er ekki byltingarkenndari hugmynd en svo, að hún myndi aðeins færa okkur til þess réttlætis sem ríkti fyrir þrjátíu árum og hafði ríkt þá áratugum saman.
Réttlæti og kærleikur
Sósíalistar vilja líka hækka umtalsvert persónuafslátt, barnabætur og húsnæðisbætur og vinda ofan af gjaldtöku nýfrjálshyggjuáranna fyrir opinbera þjónustu og innviði.
Forsendur þess að hægt sé að byggja upp réttlátt samfélag á Íslandi er að skattbyrðinni verði létt af almenningi og hún færð þangað sem hún á heima. Það er löngu kominn tími til að þeir ríku fari að borga fulla skatta af öllum sínum tekjum eins og venjulegt fólk þarf að gera. Hvers konar þjóðfélag er það sem níðist á þeim fátækari en mylur undir þá ríku? Það er ekki réttlátt og kærleiksríkt samfélag.
Minni fyrirtækjum refsað
En skattatilfærslan frá hinum auðugu yfir á almenning var ekki sú eina á nýfrjálshyggjuárunum. Á sama tíma var skattaumhverfi fyrirtækja breytt svo það þjónaði best auðugustu fjármagnseigendunum og allra stærstu fyrirtækjunum en miklu síður einyrkjum, smáfyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum. Skattkerfinu var í reynd beitt til að vernda stórfyrirtækin fyrir samkeppni frá þeim smærri og til að draga úr nýliðun í öllum atvinnugreinum. Afleiðing varð fjármálavæðing atvinnulífsins sem dró afl úr framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum. Þetta gengur þvert á stefnu sósíalista, skattastefnu kærleikshagkerfisins sem fjallar líka um hvernig lækka má skatta á meðalstór og minni fyrirtæki svo þau fái betri tækifæri til að efla atvinnulífið.