Fyrir Dönum er sósíalismi orðinn að draumi um íbúðir með þakveröndum og deilibíla

Mikkel Bolt Pistill

Það er uppreisnarfólk verkalýðsins, sem misst hefur allan möguleika á launavinnu, sem við eigum að vera í liði með. Það er að grafa undan gamla heiminum, þar á meðal ofþróaðasta hluta hans, „norræna sósíalismanum“. Það er þetta fólk sem er að fara að skilgreina nýja sósíalismann. Því miður taka þeir ekkert pláss í bók Dragsted, Norrænn sósíalismi, skrifar Mikkel Bolt prófessor í pólitískri fagurfræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Lengi vel var sósíalismi hugtak yfir það bráðabirgðafyrirkomulag sem þyrfti á veginum til kommúnísks samfélags, þ.e samfélags án stétta, ríkis, peninga og launavinnu. Kommúnistar jafnt sem anarkistar, syndikalistar og sósíalistar deildu þessari sýn. Því miður er þetta ekki merking sósíalisma lengur. Hvorki fyrir jafnaðarmenn né þann hluta vinstri vængsins sem Pelle Dragsted tilheyrir.

Í dag er sósíalismi ekki annar valkostur við kapítalisma, heldur einungis (drauminn um) örlítið mannlegri útgáfu af honum. En eins og Marx og kynslóðir byltingarsinnaðra marxista hafa haldið fram síðan, þá er slíkur umbóta kapítalismi blekking. Það er einfaldlega ekki hægt að stjórna kapítalískum framleiðsluháttum. Verkefnið hlýtur því að vera afnám ríkisins og peninganna svo það verði mögulegt að lifa á annan hátt.

Það er ekki oft sem danskir ​​stjórnmálamenn skrifa heildstæðan texta sem greinir langa sögulega þróun, hvað þá sem kynnir eitthvað sem minnir á stefnuskrá. Þrátt fyrir allan anakrónismann liggur við að maður finni til samúðar með verkefninu. Það er eins og hið pólitíska sé raunverulega eitthvað sem er til. Ef maður vissi ekki betur, væri hætta á að maður yrði sannfærður um að pólitískur almenningur þar sem „við“ – í raun auðvitað aðeins stjórnmálamenn, aðalritstjórar og álitsgjafar – ræddum enn saman um hvaða stefnu við eigum að fylgja og hvert við sem samfélag erum að stefna.

Ég hef lítinn áhuga á að gagnrýna Pelle Dragsted og tillögur hans um sjálfbæran sósíalisma, sem grundvallast á verkalýðs- og samvinnuhreyfingunni. Ég hef meiri áhuga á að íhuga hvað það er sem bókin segir okkur um danska vinstrið og sögulega þróun þess. Hvers vegna hefur það horfið frá allri nálgun sem snýst um grundvallarbreytingar á heiminum?

 

Ekkert sérlega róttækar tillögur

Eins og sést á mjög jákvæðum viðtökum bókarinnar eru tillögur Dragsted um lýðræðislegt hagkerfi ekkert sérstaklega róttækar. Reyndar er erfitt að lesa bókina sem eitthvað annað en lofsöng um málamiðlunarsamkomulag atvinnurekenda og launafólks, þar sem verkalýðshreyfingin endaði á því að renna saman við ríkisvaldið, og gerði samkomulag við stétt kapítalista um að veita verkamönnum og þeim lægri settu aðgang að menningu, menntun og húsnæði gegn því að hverfa frá hugmyndum um róttækari uppstokkun á samfélaginu (ásamt samstöðu með fordæmdum í þáverandi og núverandi nýlendum).

Bók Dragsteds er lokahnykkurinn í þessari þróun, þar sem í ljós kemur að við erum nú þegar komin á leiðarenda. Þar sem sá hluti vinstri vængsins sem er til vinstri við Sósíaldemókrata gengur til liðs við þjóðernishyggjuna og staðfestir þar með fullkomna uppgjöf þegar kemur að alþjóðlegri samstöðu. Það getur vel verið að framleiðsluhættir kapítalismans feli í sér einhver innbyggð vandamál, en við höfum svo gott sem stjórn á þeim hér í Danmörku. Verkefnið er því í raun einungis það að gera meira af því sama, gera það aðeins betur. Þess vegna hljóma litlu framtíðarlýsingarnar sem Dragsted dregur upp í bókinni  eins og örlítið endurbætt útgáfa af deginum í dag. Bókarhöfundur situr og drekkur kaffi og allt er í raun bara yndislegt. Dragsted heldur því þó vissulega fram að hann trúi á annan heim. En það er mjög erfitt að koma auga á það í lýsingunni á þakverönd í húsfélagi á nýbyggðri eyju í Kaupmannahöfn árið 2042.

Dragsted skrifar að hann telji ekki að sagan sé búin. Þrátt fyrir að allt hljómi einmitt eins og það sé raunin. Þetta snýst einungis um Danmörku, hversu gott það sé í raun og veru hér á landi, hvernig danska verkalýðshreyfingin hafi á margan hátt endað uppi sem sigurvegari, hvernig samvinnuhreyfingin sé einnig hluti af sögu velferðarsamfélagsins, sem er svo mikið betri en allt annað sem finna má. Það segir Bernie Sanders meira að segja sjálfur. Og því þurfum við ekki að heyra neitt um aðra. Nýlendustefna, kynþáttahyggja og alþjóðleg verkaskipting fær ekki mikið pláss. Það er greinilega ekki hluti af sósíalíska verkefninu að vera gagnrýninn á hluti sem ráða úrslitum í heiminum.

Það er ekki mikil stéttabaráttan í verkefninu. Einu flokkarnir í dag sem hafa eitthvað sem minnir á fjöldasamtök eru ýmsir síð-fasískir flokkar sem helga sig alfarið að útlendingahatri og íslamófóbíu í almannarými sem einkennist af fljótandi merkingu samfélagsmiðla. Skorið hefur verið á tenginguna á milli götunnar og þjóðþingsins. Ef 20. öldin var öld fjöldaflokka er 21. öldin hægt að tæmast af pólitísku sjónarspili, þar sem færri og færri taka þátt í stjórnmálaflokkum, einungis til að greiða atkvæði í mesta lagi. Í síð-kapítalískri áhrifavaldamenningu hefur stjórnmálum verið breytt í sjálfsmynd. Og sósíalisma yfir í draum um íbúðir með þakveröndum og samnýtanlegum bílum fyrir Dani.

 

Ný uppreisnarbylgja

Ef við segjum hlutina bara nákvæmlega eins og þeir eru: stjórnmálaflokkar og stjórnmálakerfið, með hægri-vinstri tvískiptinguna eins og við þekkjum hana frá frönsku byltingunni og áfram, eru í dag einungis hindrun á róttækari endurskipulagningu samfélagsins. En sem betur fer eru aðrir hlutir að gerast líka. Því miður taka þeir ekkert pláss í bók Dragsted. Síðan 2011 höfum við séð stöðuga en viðvarandi bylgju uppreisnarmanna veltast yfir heiminn. Þetta er bylting sem minnir helst á vofu, og krefst ekki frelsis, jafnréttis og bræðralags, eins og borgaralegu byltingarnar gerðu á tímabilinu eftir 1789, né heldur ímyndar hún sér byltinguna sem félagsvæðingu framleiðslunnar, eins og Lenín og Trotsky gerðu árið 1917. Það er eitthvað annað að gerast innan þeirra uppreisna sem eru í gangi. Eitthvað sem stjórnmálaflokkar geta ekki haft milligöngu um, og gengur lengra og dýpra. Það er þessvegna sem ómur uppreisnanna hafnar endurtekið stjórnmálakerfinu: Que vayan todos! (Allir þurfa að fara!)

Hinir útilokuðu vilja eitthvað annað og víðast hvar eru leifar hinnar rótgrónu verkalýðshreyfingar ekkert annað en uppvakningur sem reynir að tengja sig mótmælunum og tala anakrónískt tungumál sameignar og lýðræðis. Eins og hægt sé að stjórna auðsöfnuninni, en er ekki eitthvað sem samkvæmt skilgreiningu skapar ávallt meiri eymd heldur en framfarir og vöxt.

Ef sósíalismi á að hafa einhverja merkingu í dag verður hann að taka skýra afstöðu gegn þjóðernishyggju. Ekkert vit er í að tala um sósíalisma í Danmörku án þess að tala um fanga í Bandaríkjunum, farandverkamenn í Kína, byltingarmenn í Sýrlandi og allan þann fjölda af verkafólki sem hent er út úr efnaskiptum kapítalismans og fara þess vegna á götuna og hafna heimsskipan nýlendutímans. Sósíalismi nútímans verður að vera alþjóðlegur og hann verður að taka sér stöðu með þeim uppreisnum sem eru að eiga sér stað í heiminum.

Árið 2019 áttu sér stað mótmæli og uppreisnir útum allt, allt frá Frakklandi til Súdan. Kórónuveirufaraldurinn leit á tímabili út eins og honum myndi takast að bremsa uppreisnarhrinuna, en mótmælin vegna morðsins á George Floyd voru þó fljót að gera lítið úr þeirri sannfæringu . Það er uppreisnarfólk verkalýðsins, sem misst hefur allan möguleika á launavinnu, sem við eigum að vera í liði með. Það er að grafa undan gamla heiminum, þar á meðal ofþróaðasta hluta hans, „norræna sósíalismanum“. Það er þetta fólk sem er að fara að skilgreina nýja sósíalismann.

Mikkel Bolt er prófessor í pólitískri fagurfræði við Kaupmannahafnarháskóla og höfundur fjölda bóka, þar á meðal Krise til opstand (Crisis to Insurrection) og På råbeafstand af marxismen (On the Shouting Distance of Marxism). Nýjasta bók hans, Late Capitalist Fascism, kemur út í nóvember. Þýtt af Jóhanni Helga Heiðdal og Andra Sigurðssyni.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram