Listi Sósíalista í Suðvesturkjördæmi

Ritstjórn Frétt

„Listinn er náttúrlega eins og fólkið í Sósíalistaflokknum, hópur af baráttuglöðu fólki sem vill breyta samfélaginu, gera það betra,“ segir María Pétursdóttir, sem skipar fyrsta sætið á lista Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi, Kraganum.

Slembivalinn hópur félaga í Sósíalistaflokknum raðar á lista flokksins fyrir kosningar. Reynslan hefur sýnt að niðurstaða slembivalinna hópa gefur í flestum tilfellum skýrari mynd af vilja grasrótar en kosning eða prófkjör. Þetta sama lag var haft við val flokksins á listum fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018 og verður notað við val á lista flokksins fyrir þingkosningarnar í haust og fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor.

„Erindi Sósíalista til fólks í Kraganum er það sama og til allra landsmanna,“ segir María. „Við viljum draga völdin til fólksins þar sem þau eiga heima og það mun leiða til aukins jöfnuðar og réttlætis. Við viljum tryggja öllum réttinn til mannsæmandi lífs, öruggs húsnæðis og losa fólk undan nagandi afkomukvíða. Við viljum að allir sjáist og heyrist. Það er eina leiðin til að byggja upp gott samfélag, að við eigum það saman. Það er kjarni sósíalismans.“

Þór Saari, sem kosinn var á þing fyrir Borgarhreyfinguna 2009, er í öðru sæti listans. Hvers vegna? „Sósíalistaflokkurinn er flokka líklegastur til að leiða þær nauðsynlegu kerfisbreytingar sem gera þarf á íslensku samfélagi. Flokkurinn er hæfilega róttækur og er skipaður kjarkmiklu fólki sem mun ekki gangast inn á hefðbundin Fjórflokkastjórnmál. Sósíalistar munu ætíð vera með almannahag og hag þeirra verst settu í fyrirrúmi.“

Þau sjö efstu á listanum eru þessi:

Í fyrsta sæti er María Pétursdóttir, myndlistamaður, öryrki og aðgerðarsinni, sem hefur starfað innan Sósíalistaflokksins síðustu fjögur árin sem formaður Málefnastjórnar. Auk listtengdra starfa hafði María umsjón með þáttunum Öryrkjaráðinu á Samstöðinni á síðasta ári en hún starfar einnig að málefnastarfi hjá ÖBÍ þar sem hún er aðalfulltrúi MS félagsins innan bandalagsins.

Í öðru sæti er Þór Saari hagfræðingur og fyrrum þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Eftir þingsetu 2013 hefur Þór starfað fyrir OECD, átt sæti í bankaráði Seðlabanka Íslands, rekið ferðaþjónustu, verið atvinnulaus og lokið diplómanámi í þýðingum frá Háskóla Íslands. Þór var í trúnaðarmannaráði Sjómannafélags Reykjavíkur um árabil, trúnaðarmaður SÍNE, talsmaður Amnesty International fyrir afnámi dauðarefsinga í Suður-Karólínufylki á námsárum sínum þar og gjaldkeri Breiðavíkursamtakanna og hefur tekið þátt í fjölmörgu öðru félagsstarfi.

Í þriðja sæti er Agnieszka Sokolowska bókavörður og túlkur af pólskum uppruna sem flutti til Íslands fyrir fjórtán árum. Síðustu árin hefur hún tekið virkan þátt í verkefnum tengdum fjölmenningu, var nýlega í ráðgjafahópi í málefnum innflytjenda á vegum Alþýðusambands Íslands. Innan Sósíalistaflokksins hefur hún lagt sérstaka áherslu á ofangreind málefni auk þess að gera Íslendinga af erlendum uppruna sýnilega á pólitíska sviðinu.

Í fjórða sæti er Luciano Dutra löggiltur skjalaþýðandi, bókmenntaþýðandi og grafískur hönnuður. Luciano er fæddur og uppalinn í Brasilíu en flutti til Íslands 29 ára gamall til að læra íslensku sem annað mál við HÍ. Hann stendur nú frammi fyrir stærsta verkefni lífs síns: að hafa stofnað fjölskyldu með sambýliskonu sinni Francescu Cricelli, en þau eiga von á barn eftir fáeinar vikur.

Í fimmta sæti er Ester Bíbí Ásgeirsdóttir er tónlistamaður, hljóðmaður í kvikmyndagerð og verkefnastjóri, en einnig sósíalisti inn að beini. Ester Bíbí styður heilshugar að raddir sósíalista heyrist á Alþingi því þær vantar þar sárlega. Hún styður einnig lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar, einkum náttúruauðlindaákvæðið. Við erum rík þjóð og eigum að geta staðið undir öllum nauðsynlegum grunnkerfum mun betur en við nú gerum, segir Bíbí: Við eigum að búa við lýðræði ekki auðræði!

Í sjötta sæti er Hörður Svavarsson, leikskólastjóri er fjölskyldumaður sem býr í Hafnarfirði. Hörður stýrir leikskóla í Kópavogi. Hörður hefur látið sig réttindi barna varða, hann var formaður í félaginu Íslenskri ættleiðingu og vinnur nú að rannsókn á rými barna í leikskólum. Hann hefur verið félagi í Sósíalistaflokknum frá því hann var stofnaður.

Í sjöunda sæti er Nanna Hlín Halldórsdóttir, nýdoktor í heimspeki , sem rannsakar m.a. femínískar og marxískar kenningar. Hún hefur tekið þátt í grasrótarstarfi og aktívisma í kringum femínisma, stöðu hælisleitenda, umhverfisvernd og launakjör ungs vísindafólks og nýrrannsakenda. Nú síðast hefur hún tekið þátt í vitundarvaknngu á stöðu langveikra og sjúkdómnum ME/síþreytu en hún lifir sjálf með sjúkdómnum.

 

Listi Sósíalistaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi:

 1. María Pétursdóttir, myndlistakona/öryrki
 2. Þór Saari, hagfræðingur
 3. Agnieszka Sokolowska, bókavörður
 4. Luciano Dutra, þýðandi
 5. Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, tónlistarmaður og kvikmyndagerðarkona
 6. Hörður Svavarsson, leikskólastjóri
 7. Nanna Hlín Halldórsdóttir, nýdoktor
 8. Sæþór Benjamín Randalsson, matráður
 9. Ingibjörg Ýr Jóhannsdóttir, rannsóknarlögreglumaður og stjórnsýslufræðingur
 10. Tómas Ponzi, garðyrkjubóndi
 11. Sara Stef. Hildardóttir, upplýsingafræðingur
 12. Agni Freyr Arnarson Kuzminov, námsmaður
 13. Zuzanna Elvira Korpak, námsmaður
 14. Sigurður H. Einarsson, vélvirki
 15. Silja Rún Högnadóttir, myndlistarnemi
 16. Alexey Matveev, skólaliði
 17. Elísabet Freyja Úlfarsdóttir, námsmaður
 18. Arnlaugur Samúel Arnþórsson, garðyrkjumaður
 19. Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður i heimaþjónustu
 20. Baldvin Björgvinsson, framhaldsskólakennari
 21. Elsa Björk Harðardóttir, grunnskólakennari og öryrki
 22. Jón Hallur Haraldsson, forritari
 23. Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir, leikskólakennari
 24. Gísli Pálsson, mannfræðiprófessor
 25. Erling Smith, tæknifræðingur og öryrki
 26. Sylviane Lecoultre, iðjuþjálfi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram