Hoppar í sömu sporum

Ritstjórn Sögur

Guðmundur Auðunsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi, lítur bæði á sig sem Íslending og íbúa heimsins. Hann hefur búið í fimm löndum um ævina, sex ef talið er með eitt sumar sem hann vann í sláturhúsi á Jótlandi. „Þar uppgötvaði ég það að verkafólk hefði mun betri laun í Danmörku en heima og vinnudagurinn var líka mun styttri. Ég byrjaði vinnuna klukkan sjö á morgnana en var búinn klukkan hálf fjögur“, rifjar Guðmundur upp. „Þá hafði ég mikinn tíma til að vera með vinum mínum úr vinnunni og öðrum krökkum sem voru þarna líka á vegum Nordjob. Fyrir krakka á níunda áratug síðustu aldar sem hafði unnið langa vinnudaga við verkamannavinnu öll sumur frá 14 ára aldri og margar helgar til að hafa sæmileg laun var þetta alveg ný upplifun. Þú áttir stutta vinnudaga í Danmörku og sterk verkalýðsfélög höfðu tryggt fólki góð laun fyrir 40 stunda vinnuviku. Yfirvinna þekktist ekki. Þetta var gott sumar.“

Guðmundur Auðunsson 13 ára í Klakkeyjum á Breiðafirði

Guðmundur Auðunsson fæddist í Reykjavík í október 1963 og bjó fyrstu árin úti á Álftanesi. „Þetta var sveit þegar ég bjó þarna. Afi minn, Sveinbjörn Klemenzson var vélsmiður, hafði byggt smiðju og íbúðarhús á stríðsárunum í túninu heima að Vestri skótjörn. Amma, Margrét Sveinsdóttir, kom frá Siglufirði, hún hafði verið að vinna á síldarplani þegar hún hitti afa. Hann hafði komið að sunnan í vinnu í bræðslunni og hófu þau bú í heimahögum afa á Álftanesi.“

Foreldrar Guðmunds voru ungir háskólanemar þegar hann fæddist og bjuggu þau í kjallaranum hjá foreldrum pabba Guðmundar, Auðunni Klemenzi Sveinbjörnssyni. Hann var sá fyrsti í fjölskyldunni að fara í háskólanám eftir að hafa lokið stúdentsprófi í MA.

„Mamma, Ásta Björt Thoroddsen, var dóttir prófessors í læknisfræði og hitti hún pabba í kjallaranum á Oddagötunni þar sem hún bjó þegar pabbi kom í heimsókn þangað sem nemi á fyrsta ári í læknisfræði. Ég fæddist fljótlega eftir það“, hlær Guðmundur. „Oog þau giftu sig þegar ég var skírður. Þau fluttu með mig í kjallarann á Sólbarði, Álftanesi og amma passaði mig þegar þau voru í háskólanum. Föðurbróðir minn er innan við fimm árum eldri en ég og var hann mér sem eldri bróðir. Mamma var í tannlækningum þannig að þau höfðu ekki mikinn tíma til að sinna mér á fyrstu árunum en við vorum svo heppin að eiga afa og ömmu að.“

Pólitíkin beint í æð

Þó foreldrar Guðmundar væru ekki mjög virk í pólitík þá voru þau bæði vinstrisinnuð. Föðuramma og föðurafi hans voru hins vegar mjög pólitísk.

„Þau voru bæði úr verkalýðsstétt. Amma var reyndar vinstrisinnaður framsóknarmaður en afi var ungur kommúnisti á kreppuárunum og barðist í orðsins fyllstu merkingu um brauðið. Ég ólst upp við sögur afa af slagsmálum við hvítliða og nasista á þeim árum. Hann gafst aldrei upp á trúnni um betra samfélag og barðist fyrir þeim kúguðu alla sína æfi. Hann dó fyrir aldur fram aðeins 64 ára gamall og það merkilega var að pabbi dó líka á sama aldri.“

Guðmundur fer síðan að tala um móðurfjölskylduna. „Hún var töluvert öðruvísi. Amma Lína var úr sárafátækri bændastétt úr Mýrdalnum.“ Afi Guðmundur var hins vegar af pólitískri menntamannafjölskyldu. „Hann var sonur Skúla Thoroddsen Alþingismanns og Theodóru Guðmundsdóttur skáldkonu. Þau voru bæði róttæk, sérstaklega Theodóra. Hún ól upp börnin sín í mikilli róttækni og urðu þrjú þeirra síðar Alþingismenn, tvö fyrir Sósíalistaflokkinn eldri, Katrín og Sigurður Thoroddsen.“

Má því segja að róttæknin hafi komið sterkt inn í líf Guðmundar frá fjölskyldunni.

Á heimaslóðum ömmu Guðmundar í Mýrdalnum. Ísak, sonur Guðmundar stendur fyrir framan húsið að Brekkum II þar sem amma hans fæddist.

Úr  Hvassaleiti í Breiðholtið

Guðmundur flutti í Hvassaleitið þegar hann byrjaði í skóla. Pabbi hans og mamma skyldu þannig að hann og bróðir hans voru aldir upp af einstæðri móður.

„Við Hvassaleitiskrakkarnir vorum í sífelldum erjum við Stóragerðiskrakkanna, þó saman kæmum við öll í Hvassaleitisskóla. Við vorum t.d. með sitt hvora áramótabrennuna og áttum það til að „stela“ efni úr brennum hins hópsins. Hvassaleitisbrennan var alltaf stærri,“ heldur Guðmundur blákalt fram. „Allavega í minningunni!“

„Ég var mjög ör krakki og hefði líklega verið greindur með eitthvað ef það hefði verið gert á þeim tíma. Margir hafa sagt við mig að ég sé líklega með einhverja útgáfu af Turrette þar sem ég er oft með ósjálfráðar snöggar hreyfingar. Svo á ég það til að hoppa í sömu sporum án þess að hugsa út í það. Hvað er það?! En ég hef aldrei verið greindur,“ segir Guðmundur. „Svo er ég lesblindur, get ekki stafstett á neinu tungumáli. En þar sem mér gekk mjög vel í skóla hefur þetta ekki háð mér mikið.“

Öll sumur fór Guðmundur í Mýrdalinn þar sem ömmusystkin hans Þura og Kjartan Guðmundsbörn bjuggu. „Mamma var þar í sveit öll sumur frá 6 til 16 ára aldurs.“

Guðmundur flutti síðan í Breiðholtið 12 ára gamall og fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Við vorum fyrsta kynslóð „vandræðabarnanna“ í Breiðholti og í Fjölbraut. Svæðið var jú lengi eitt stórt byggingarsvæði sem við breyttum í leikvöll fyrir krakkana á svæðinu. Í FB fór ég í fyrsta sinn í framboð í nemendaráð og var kosinn fulltrúi. Ég komst að því að það að vera frambjóðandi átti vel við mig! Svo vel við mig að næsta ár bauð ég mig fram sem formann nemendaráðs. Ég koltapaði, fékk innan við 100 atkvæði! En á móti gat ég einbeitt mér að starfi fyrir Landssamband mennta- og fjölbrautarskólanema og starfaði þar m.a. í samnorrænu starfi sem veitti mér mikið.“

Svo var Guðmundur líka kominn á kaf í Bridds, vann meðal annars Íslandsmeistaratitil yngri spilara í tvö ár í röð og spilaði í unglingalandsliðinu á Norðurlandamóti í Óðinsvéum. „Það gat verið erfitt að finna tíma fyrir allt þetta“ segir hann.

Kolmar sonur Guðmundar með Ástu Björt ömmu sinni á heimaslóðum hennar í Reynisfjöru. Ásta dó haustið 2019, 77 ára gömul.

Háskólanám og stúdentapólitík

Eftir að Guðmundur útskrifaðist sem stúdent frá FB lá leiðin í Háskóla Íslands að læra Stjórnmálafræði.

„Í náminu kynntist ég fjölmörgum snillingum. Þeir sem eru mér minnisstæðastir voru Ólafur Þ. Harðarson, Svanur Kristjánsson, Gunnar Gunnarsson og Halldór Grönvold. Ólafur Ragnar Grímsson kenndi mér líka og þó að Halldór Grönvold hafi bara kennt mér eitt fag var hann algjör snillingur. Hann kenndi mér um Verkalýðshreyfinguna af sinni alkunnu snilld og hafði hann mikil áhrif á mig. Það var mikill sjónarsviptir þegar Halldór féll frá langt fyrir aldur fram á síðasta ári. Ólafur Þ. er líklega sá kennari sem kenndi mér mest og ég hef haft mest samband við eftir námið. Hann sinnti okkur stúdentunum mjög vel og var alltaf hrókur alls fagnaðar í samkvæmum okkar. Fáir eru fróðari um stjórnmálafræði en Ólafur.“

Stór hluti af tíma Guðmundar fór í Stúdentapólitíkina. „Ég var varla byrjaður í námi þegar ég fór að mæta á fundi hjá Félagi vinstrimanna (FVM). Fór strax í framboð í 1. des. nefndina fyrstu önnina og eftir fyrsta árið varð ég oddviti FVM í framboði til Stúdentaráðs. Þá voru 3 framboð, FVM á vinstri vængnum, Félag umbótasinnaðra stúdenta (FUS), sem voru aðallega Framsóknarmenn, og Vaka, samtök hægrimanna. FUS voru í oddastöðu þó þeir væru lang minnstir og ákváðu þeir að fara í samstarf við Vöku. En það var mikil óánægja meðal margra Umba, sérstaklega varðandi málefna lánasjóðsins og í jólafríinu var mér boðið í heimsókn upp í Breiðholt. Þar voru fyrir tveir félagar mínir úr FB sem vildi til að voru framámenn í FUS. Björk Vilhelmsdóttir úr FVM bættist fljótt í hópinn og við ákváðum að gera hallarbyltingu í Stúdentaráði, stundum nefnd Fjölbrautarstjórnin vegna þess hvaða skóla við komum úr. Björk varð formaður Stúdentaráðs og ég var tilnefndur fulltrúi Stúdenta í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Þá gerðist það ótrúlega, þáverandi menntamálaráðherra neitaði að skipa mig í stjórn LÍN og bað fulltrúa Vöku að sitja áfram! Allt varð vitlaust í Háskólanum og Stúdentaráð samnaði undirskriftum um vantraust við Ólaf Arnarson, fulltrúa stúdenta sem sat þar í óþökk meirihluta Stúdentaráðs. Gífurlegur fjöldi undirskrifta safnaðist og þær afhentar menntamálaráðherra. En Ólafur sat sem fastast. Við fórum því í kosningabaráttu með þetta mál hangandi yfir okkur og vinstrimenn unnu stórsigur í kosningunum til Stúdentaráðs.“

Á þessum árum var mikið plottað í stúdentapólitíkinni. FUS gerði áframhaldandi meirihlutasamning við FVM, en 4 af 5 Stúdentaráðsliðum FUS klufu sig út úr Umbótasinnum og gengu til liðs við hægrimennina í Vöku.

„Ég er viss um að að þessir einstaklingar undir forystu Ara Edwald hafi bara gengið til liðs við Umbótasinna til þess að tryggja hægrimeirihluta,“ segir Guðmundur. „Enda hefur Ari allavega verið harður hægrimaður síðan“. Í kjölfarið ákváðu vinstrimenn í HÍ að sameina FVM og FUS og Röskva var stofnuð. Hafa Röskva og Vaka barist um meirihlutann síðan þá.

„Þetta var góður hópur af fólki“ segir Guðmundur. „Ég hef haldið vinskapi við flest þetta fólk.“

Það var mikið að gerast hjá Guðmundi á árunum hans í Háskóla Íslands. „Ég tók mér tíma að klára námið,“ segir Guðmundur kíminn. „Ég var svo heppinn að eignast strák á þessum árum og var um tíma einstæður faðir. Við Einar Óli bjuggum á Hjónagörðum í góðu yfirlæti. Samband mitt og barnsmóður minnar, Margrétar Einarsdóttur, gekk ekki upp en við höfum verið mjög góðir vinir ávallt síðan þá. Við tókum bæði mikinn þátt í uppeldi Einars, þó mest hafi mætt á Margréti eftir að ég fór út í nám.“

Guðmundur vann mikið með náminu á þessum tíma, bæði í verkamannavinnu og síðan við Útideildina í Reykjavík.

„Það var mikil vinna í framkvæmdum á þessum tíma,“ segir Guðmundur. „Ég vann aðallega við gangstéttalagnir en þegar tækifæri gafst að vinna hjá Útideildinni þá greip ég það. Vann mikið með frábærum unglingum sem oft bjuggu við erfiðar aðstæður, oftar en ekki vegna fátæktar. Svo bauðst mér vinna sem framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi og vann við það í nokkurn tíma.“

Guðmundur var líka virkur í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins. „Það voru margir góðir krakkar þar,“ segir hann. „En flokkurinn logaði í innanflokksátökum og hafði það áhrif á æskulýðsstarfið. Sumir félaga minna í Æskulýðsfylkingunni á þeim tíma voru líka farin að smitast af nýfrjálshyggjunni, t.d. Árni Páll Árnason, og enduðu margir í Blairisma innan Samfylkingarinnar.“

Guðmundur segir að hann hafi fengið ímugust á klíkustjórnmálum á þeim tíma og dróg sig nokkuð í hlé þegar hann fór út í framhaldsnám.

Út í heim

Þegar Guðmundur útskrifaðist úr HÍ lá leiðin til Ítalíu í framhaldsnám.

„Ég var ekki viss um hvort ég vildi fara til Evrópu eða Bandaríkjanna í nám. Þá fann ég þetta frábæra prógramm sem vinkona mín Þórunn Sveinbjarnardóttir (innskot blaðamanns: Fyrrum formaður BHM og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Kraganum) benti mér á. Þetta nám blandaði saman alþjóðahagfræði og alþjóðastjórnmálafræði. Og það besta var að námið bauð upp á eitt ár í Bologna á Ítalíu og eitt ár í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Og námið hentaði mér mjög vel, mig langaði alltaf að læra þjóðhagfræði til viðbótar stjórnmálafræðinni.“

Guðmundur hitti konuna sína Elizabeth Goldstein á fyrsta árinu í náminu. „Ég man að ég talaði fyrst við Betsy á Yom Kippur þá um haustið. Hún sagði mér að hún væri að fasta svo að ég spurði hana hvort hún væri trúuð. Hún svaraði mér að hún væri það alls ekki en hana langaði að prófa þetta!“

Þegar Guðmundur og Elizabeth hófu seinna árið í Washingtonborg þá fluttu þau saman í íbúð. „Betsy ólst upp í borginni þannig að hún þekkti vel til þar. Við bjuggum í Dupond Circle hverfinu, sem var þekkt fyrir að vera hverfi þar sem samkynhneigðir voru áberandi. Þar leið okkur vel.“

Guðmundur fékk vinnu hjá fjarskiptafyrirtækinu Iridium að loknu námi. „Það var spennandi starf. Hugmyndin var að nota gervihnetti til símasamskipta um allan hnöttinn. Hugmyndin gekk út á að menn gætu verið í sambandi hvar sem þeir væru, en það sem þeir sáu ekki fyrir voru reikisamningar milli farsímafyrirtækja sem að endanum gerði út af við fyrirtækið en þá var ég hættur.“

Guðmundur fékk síðan vinnu hjá hugbúnaðarrisanum Computer Associates (nú CA). „Þegar ég mætti á höfuðstöðvarnar í New York fylki þá hélt ég að þeir myndu bjóða mér starf í Bandaríkjunum. Í staðin buðu þeir mér starf í Singapore! Ég hafði innan við mánuð að koma mér þangað!“

Ha, er Íslendingur hérna?

„Eitt af því sem hefur komið mér á óvart á ferðum mínum um heiminn er maður getur rekist á Íslendinga alls staðar. Ég var nýlega kominn til Singapore og Einar sonur minn var í heimsókn svo við vorum að tala saman á íslensku í verslunarmiðstöð. Þá komu tvær ungar konur til okkar og sögðu. Ha, er Íslendingur hérna? Þær voru að vinna sem flugfreyjur í Ástralíu af öllum löndum. Það minnti mig á þegar ég bjó í Bologna þá var ég eitt sinn að hjóla heim um miðja nótt. Ég hélt að ég hefði sofnað því ég heyrði talaða íslensku á götuhorni! Þessar ungu Au Pair stelpur voru jafn hissa á að hitta mig. Ég segi ekki að þetta hafi gerst í öllum þeim 70 löndum eða svo sem ég hef komið til, en þetta gerist ótrúlega oft.

Frá Singapore til London

Guðmundur flutti til Singapore á mjög spennandi tímum. „Það var mikill uppgangur í Asíu á þessum tíma, sérstaklega í Kína. Ég var svo heppinn að starfið tók mig til flestra Asíulanda og var ég því mikið í hótelum, á flugvöllum eða fastur í umferðarteppu í Bangkok eða Manila!“

Elizabeth kona Guðmundar kom ári seinna til Singapore þar sem hún var við vinnu að þróunarverkefni á Haítí.

„Við Betsy notuðum tækifærið að ferðast um Asíu í frítíma okkar. Einar Óli sonur minn var oftar en ekki með í þessum ferðum.“

Elizabeth fékk vinnu við verkefni í Afríku og var því mikið á ferðinni milli Singapore og Gíneu. „Þetta var orðið dálítið mikið þannig að mér tókst að fá CA til að flytja mig til Evrópu og við enduðum í London í lok árs 1998.“

Synir Guðmundar. Frá vinstri, Einar Óli, Ísak, Kolmar og Valur.

Ensku drengirnir þrír og erfiðleikar í London

Guðmundur og Elizabeth voru nú flutt til Ealing, vestur London. Þau giftu sig og fóru að huga að fjölskyldu. Sonurinn Ísak fæddist þar í borg árið 2002.

„Ég vildi vera meira heima þannig að ég flutti mig til í fyrirtækinu þannig að ég þurfti að ferðast minna. Árið 2005 var starfið mitt lagt niður og það eina sem mér bauðst innan fyrirtækisins þýddi aukin ferðalög þannig að ég hætti hjá CA og hef unnið sjálfstætt síðan. Það hefur þýtt að tekjur mínar hafa verið upp og niður. Stundum ágætar, en stundum hafa komið kaflar þar sem litlar tekjur er að fá. Ég hef tekið þátt í stofnun sprotafyrirtækja og unnið sem sjálfstæður ráðgjafi. Sumt hefur gengið og annað ekki eins og gengur. Upp úr hruni gekk ég í gegnum erfiðleikatímabil þar sem verkefnin hurfu. Ég sótti um störf en illa gekk þar sem ég var oftar en ekki „overqualified“ eða „underqualified“! Svo hjálpaði aldurinn ekki. Ég var ekki vanur þessu verkefnaleysi þannig að ég lagðist í þunglyndi. En það gekk yfir og verkefnin jukust smátt og smátt. Sem betur fer hafði ég rífandi tekjur þegar ég vann hjá CA þannig að þetta hefur bjargast fjárhagslega, þó það geti verið erfitt fyrir sálina að hafa stundum lítið að gera eða eitthvað sem þú ert að vinna að gengur ekki upp. Ég kvarta ekki, ég hef almennt verið mjög heppinn á starfsferli mínum“ segir Guðmundur.

Blaðamaður spyr Guðmund út í kvikmyndaferil hans. „Já, þegar ég hafði lítið að gera bauðst mér lítið hlutverk í bíómyndinni „The Boat that Rocks“. Richard Curtis var að leita að einhverjum sem gæti leikið sænskan sjómann!“ hlær Guðmundur. „Þetta var skemmtilegt verkefni, ég kynntist stjörnum eins og Philip Seymore Hoffman heitnum, Bill Nighy, Chris O´Dowd, Gemma Arterton, Rhys Ifans, Nick Frost og síðast en ekki síst Emmu Thompson. Þetta verkefni tók margar vikur og þó hlutverk mitt væri lítið og flestar senur mínar hafi lent á gólfinu þá var þetta mjög skemmtilegt þar sem ég taldist til „aðalleikara“ og fékk að hanga með stjörnunum! Ég tók að mér nokkur önnur smáhlutverk og skemmti mér konunglega. Það versta við þetta mér hefur tekist að stela hlutverki alnafna míns í kvikmyndinni Perlur og Svín. Ég sver að það er ekki mér að kenna, IMDB setti þetta inn í starfsferil minn á netinu!“

Það bættust við tveir drengir í fjölskylduna í London. Kolmar fæddist árið 2007 og Valur 2010. „Margir hafa tekið eftir því að þessir yngri drengir eru blandaðir og halda að þeir séu ættleiddir. Svo er ekki. Konan mín fæddi þá en við notuðumst við gjafasæði frá sama einstakling fyrir þá báða. Stundum þarf að gera það og þeir eru ekkert síður synir mínir en hinir.“

Drengirnir þrír eru því allir fæddir og aldir upp í London. „Þeir grínast oft með það að þeir séu hálfir Íslendingar, hálfir Bandaríkjamenn og hálfir Bretar. En þeir halda allavega með Íslandi í fótbolta“ fullyrðir Guðmundur, „þó England komi næst og síðan Bandaríkin“.

Milli tveggja borga

Fyrir um 10 árum eignuðust Guðmundur og fjölskylda hans frístundahús í Grímsnesi. „Þetta er fínasta hús við Búrfell, ekki lang frá Sogsvirkjun. Það er vel rúmgott og fer vel um okkur þar“.

Guðmundur, Betsy og drengirnir þrír hafa skipt tíma sínum milli Bretlands og Íslands. „Við erum orðin stuðningsmenn Selfoss, þó karlaliðinu þar gangi ekki vel. En við þekkjum þetta, við förum líka reglulega á leiki með nágrönnum okkar í Queens Park Ranges og við þekkjum það hvernig er að styðja lið sem gengur ekki vel. Strákarnir spila allir fótbolta og Ísak er á leiðinni í háskólanám við Swarthmore háskólann og mun spila fótbolta fyrir skólann. Þar sem Ísak er að fara í háskólanám munum við búa mest á Íslandi.“

„Við Betsy vinnum bæði sjálfstætt,“ segir Guðmundur „þannig að nettenging og tölva er það sem við þurfum. Svo þarf maður auðvitað að búa á Íslandi þegar maður situr á þingi!“ segir Guðmundur kíminn!

Guðmundur er líka orðinn afi. „Ég á tvo afadrengi, Gunnlaug Óla, fæddan 2013 og Grím Hilmar, fæddan 2018. Þeir búa nú með foreldrunum í Osló þar sem mamma þeirra er í sérnámi. Fjölskyldur búa oft út um allt á þessum tímum og er ekkert nema gott um það að segja“ segir Guðmundur. „Kosturinn við að verða pabbi ungur er að maður verður oft afi ungur líka og kann ég vel við hlutverkið“.

Þó að Guðmundur hafi minnkað stjórnmálaþátttöku sína við að fara erlendis, þá hætti hann henni ekki alveg.

„Ég gerðist stofnfélagi VG og fór meira að segja tvisvar í framboð fyrir flokkinn 2009 og 2013. Ég taldi þetta vera það eina sem mér sem sósíalista stóð til boða. En ég flúði flokkinn í kjölfar þess að flokkurinn gekk til samstarfs með Sjálfstæðisflokknum. Þá var líka kominn alvöru sósíalískur flokkur á sjónarsviðið og gerðist ég stofnfélagi í Sósíalistaflokknum. Og hef aldrei litið til baka síðan.“

Guðmundur hefur setið í Framkvæmdastjórn flokksins í tæp tvö ár og er nú oddviti flokksins í Suðurkjördæmi í kosningunum 25. september.

„Ég hlakka til. Sósíalistaflokkurinn er fullur af frábæru fólki sem vill breyta heiminum og nýtur stuðnings um allt land. Því kynntist ég þegar ég fór með Sósíalistarútunni kringum landið í vor. Sósíalistaflokkurinn er flokkur sem manni líður vel í og við erum bjartsýn á góðan árangur í haust. Þá getum við sett kraft í að breyta heiminum.“

Afadrengirnir tveir Gunnlaugur og Grímur.

Guðmundur skipar fyrsta sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram