Heilbrigðis-, velferðarþjónusta og menntun án mismununar

Árni Múli Jónasson Pistill

Það er ekki að ástæðulausu að rétturinn til heilbrigðis- og velferðarþjónustu og menntunar er sérstaklega áréttaður í mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar. Þessi réttindi eru svo mikilvæg öllu fólki að íslenska ríkið og raunar langflest ríki í heiminum hafa lýst því yfir að þau ætli að tryggja öllu fólki þau, án mismununar.

En er þetta þannig í okkar auðuga landi þó að stjórnarskráin segi að þannig eigi það að vera?

Nei, alls ekki!

Fólki er mismunað mjög mikið um þessa þjónustu og þau lífsgæði sem henni er ætlað að stuðla að, eftir því hvar það býr.

Þetta er augljóslega mjög stórt réttlætismál. En það er ekki nóg með það. þetta er líka gríðarlega mikilvægt byggðamál.

Ríki og sveitarfélögum er skylt samkvæmt stjórnarskránni og lögum að veita öllu fólki góða heilbrigðis- og velferðarþjónustu, burtséð frá því hvar það býr. Fatlað fólk, aldraðir, innflytjendur og fleiri hópar fólks standa oft höllum fæti og þurfa því á stuðningi samfélagsins halda og eiga samkvæmt lögum og mannréttindasamningum skýlausan rétt á honum. Ef fólk fær ekki þann stuðning í heimabyggð sinni þar sem það helst vill búa neyðist það oft til að flytjast þangað þar sem stuðningurinn er meiri og betri.

Ríkinu er líka skylt að tryggja ungmennum aðang að framhaldsskólanámi og ríkið verður að gera það sem í þess valdi stendur til að ungmennum sé ekki á grundvelli búsetu mismunað um þann mikilsverða rétt og öll þau tækifæri sem hann gefur. Ef ungmenni eiga ekki kost á að stunda framhaldskólanám í heimabyggð verður ríkið því að veita þeim nægilega styrki og aðgang að hentugu húsnæði annars staðar þar sem þau stunda framhaldsnám. Ef ríkið uppfyllir ekki þessa skyldu verður þeim ungmennum sem eiga efnalitla foreldra, sem ekki geta stutt þau nægilega fjárhagslega, ekki aðeins mismunað um tækifæri til framhaldsnáms á grundvelli búsetu heldur einnig á grundvelli efnahags.

Ungmenni, sem þurfa að fara langt að heiman til að stunda framhaldnám, ljúka síður námi og þau sem það gera fara oft ekki aftur í sína heimabyggð að námi loknu. Byggðirnar fara því á mis við þann mikla mannauð sem býr í þessa unga fólki, atvinnulífið nýtur ekki starfskrafta þess og samfélagið allt fer á mis við þann kraft og sköpun sem í því býr. Öruggur og greiður aðgangur ungmenna að framhaldsnámi, burtséð frá búsetu og efnahag, er því ekki aðeins gríðarlegt réttlætismál fyrir ungt fólk, heldur einnig mjög mikið hagsmunamál fyrir byggðir sem eiga undir högg að sækja.

Frambjóðendur Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi ætla því að berjast af alefli fyrir því að ríkið geri allt það sem í þess valdi stendur til að tryggja fólki í kjördæminu, hvar sem það býr, góða heilbrigðis-og velferðarþjónustu og ungmennum þar öruggan aðgang að framhaldsnámi, burtséð frá því hvar þau og fjölskyldur þeirra búa.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram