NÁUM AUÐLINDUNUM AF AUÐHRINGJUNUM

Helga Thorberg Pistill

Tilboð Sósíalistaflokksins til kjósenda vegna þingkosninganna 25. september snýst um að þjóðin endurheimti auðlindir hafsins af auðhringunum sem hafa sölsað þær undir sig. Efnt verði til fiskiþinga til að móta fiskveiðistefnuna til lengri tíma en kvótakerfinu verði strax lokað og skref stigin í átt að réttlátara kerfi.

Markmiðið er að arðurinn af auðlindunum renni til samfélagsins og að byggð verði upp heilbrigð atvinnugrein laus undan spillingu, kúgun og drottnun örfárra yfir fjöldanum.

Þá leggja Sósíalistar til að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin verði brotin upp þversum, þannig að sama fyrirtækið geti ekki veitt fiskinn og selt sjálfu sér aflann, unnið fiskinn og selt sjálfu sér afurðirnar og selt síðan sjálfu sér afurðirnar í útlöndum og falið þar gróðann

Kvótakerfið hefur búið til lokað, ófrjálst spillingarkerfi stórútgerða sem verður að brjóta upp. Stærstu útgerðirnar ráða yfir of stórum hluta veiðanna og þær stjórna allri virðiskeðjunni, allt frá því að fiskurinn er veiddur og þar til afurðin er seld erlendis. Margsinnis hafa komið fram vísbendingar um að þessi kerfi séu notuð til að halda niðri fiskverði við löndun og fela síðan arðinn af auðlindinni erlendis.

Þær kynslóðir sem háðu þorskastríðin börðust ekki til þess að fáum áratugum seinna væru fiskimiðin færð í hendur örfárra en lokuð öllum öðrum landsmönnum. Það var ekki markmið almennings að hrekja stórútgerðir annarra þjóða af miðunum til þess eins að þau yrði eign örfárra fjölskyldna og arðurinn rynni fyrst og fremst til örfárra auðkýfinga. Markmiðið var að Íslendingar nýttu fiskimiðin til að byggja hér upp öflugar byggðir, sterk samfélög og blómlegt mannlíf.

Kvótakerfið sem upphaflega var sett á til að vernda fiskistofnana hefur þróast í óskapnað sem hefur í reynd einkavætt fiskimið almennings. Kerfið hefur brotið niður byggðir og safnað upp auð örfárra, svo miklum að hann ógnar lýðræðinu og frelsi almennings. Sósíalistaflokkurinn hefur þá stefnu að leggja niður þetta kerfi og byggja réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu. Ný umgjörð þarf að reisa við það sem kvótakerfið braut niður og brjóta upp þá auðhringi sem kvótakerfið bjó til.

Sósíalistaflokkurinn mun leggja til að takmarkanir verði settar á umfang stórútgerða svo stærstu útgerðirnar verði brotnar upp langsum, að þær verði að kljúfa sig upp í tvö eða fleiri félög. Þetta er gert til að draga úr ægivaldi stórútgerðanna yfir byggðunum og til að tryggja fjölbreytileika og nýliðun.

Þá leggja Sósíalistar til að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin verði brotin upp þversum, þannig að sama fyrirtækið geti ekki veitt fiskinn og selt sjálfu sér aflann, unnið fiskinn og selt sjálfu sér afurðirnar og selt síðan sjálfu sér afurðirnar í útlöndum og falið þar gróðann.

Kvótakerfið bjó til ógnarauð, ekki síst þegar leyfi var gefið til að veðsetja veiðiheimildir ókominna ára. Sá auður var notaður til að mylja undir örfá fyrirtæki megnið af aflaheimildunum og síðan til að brjóta undir sig fyrirtæki í óskyldum greinum og í öðrum löndum. Þetta ógnarvald auðs og valda hefur sýnt sig að vera skaðvaldur í samfélaginu. Og ekki bara hérlendis heldur víða um heim. Það er því eðlileg sjálfsvörn almennings að brjóta þessi fyrirtæki upp. Ísland er einfaldlega of lítið fyrir fyrirtæki af þessari stærð.

Sósíalistaflokkurinn leggur til að bundið verði í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar og að þjóðin ákveði sjálf hvernig nýtingu hennar er háttað.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram