Frá Dögun til Sósíalistaflokksins
Pistill
10.09.2021
Ég hef verið félagi í Sósíalistaflokknum, nánast frá stofnun hans og því að Dögun dagaði uppi. Helstu stefnumál Dögunar eins og afnám Gjafakvótans/þjóðareign á auðlindum og síðar samfélagsbankakerfi að þýskri fyrirmynd o.m.fl. eru sósíalískar í eðli sínu, við vorum bara of treg til að viðurkenna þetta og kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Hann er víða óttinn við að styggja hina frjálslyndu miðju, það er ekki bara í Bandaríkjunum sem sósíalismi hefur verið gerður að skammaryrði.
Hér hefur þessi „end of history“-McCarthyismi lukkast með þeim ágætum að það má ekki nefna sósíalisma á nafn án þess að einhver góli: „STALÍN!“
Þess má geta að það besta í okkar eigin kerfum, sem okkur þykir sjálfsagt, eins og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi þykir argasti sósíalismi t.d. í Ameríku; „landi tækifæranna“.
Í þessu sambandi má minnast þess sem Hans Rosling sagði um „land tækifæranna“ en félagslegur hreyfanleiki er miklu meiri t.d. í hinu sósíalíska Danaveldi en BNA:
„Ef þú vilt upplifa ameríska drauminn …skaltu flytja til Danmerkur.“
Fyrir mér voru þetta því rökrétt vistaskipti þó ég eigi góða vini og skoðanasystkini í SF, Pírötum og jafnvel fleiri flokkum.
Íslensk stjórnmál hafa hliðrast of mikið til hægri að mínu mati og því rökrétt að leggjast á árarnar með þeim sem eru lengst til vinstri.
Árabátasamlíkingar eru þó hættulegar því þeir sem taka á árunum stjórnborðsmegin (hægra megin) beygja bátnum á bakborða (vinstri) og öfugt. M.ö.o. ég tel að hér þurfi skarpa vinstri beygju.
Ég er ekki hættur með árabátana; ég er lánsamur maður og hef getað unnið mikið og haldið um leið góðri heilsu en ég er kominn af fátæku fólki að langfeðgatali, eins og allir Íslendingar, langalangafi minn horfði á föður sinn reka til hafs á kili árabáts úr öðrum árabáti fyrir ströndum Suðurlands, hann var þá unglingur og reri sem hálfdrættingur. Fyrir tilviljun var einn úr áhöfn annars báts veikur og faðirinn samþykkti að unglingurinn færi í hans pláss svo betur skipaðist í teinæringana; þannig bjargaðist sonurinn þegar bátnum hvolfdi undan föðurnum í illviðri sem skall á þeim, einhverjir komust á kjöl en bátinn rak til hafs og allir fórust.
Þurrabúðarlífið var harðneskjulegt og hluti harðvítugrar stéttabaráttu 19. og 20. aldarinnar. Þó það sé liðin tíð tekur eitt við af öðru og í grunninn er baráttan alltaf svipuð, við stöndum t.d. núna frammi fyrir meiriháttar loftslagsbreytingum af mannavöldum, kapítalisminn mun ekki leysa það vandamál sem hann hefur skapað, hann hefur virkað sæmilega á meðan maðurinn hefur grafið sig í gegnum helstu auðlindir Jarðarinnar en endalaus vöxtur í endanlegum heimi gengur auðvitað ekki upp. Það að „vaxa út úr kreppunni“ gerist auðvitað ekki án þess að auka enn frekar á loftslagsvána. Hér þarf nýja nálgun.
Ríkasta prómill mannkyns keppist nú við að láta skjóta sér út í geim, milli þess sem það þvælist um heiminn á einkaþotum og snekkjum sem eru eins og meðal fraktskip að stærð.
Misskiptingin hefur tekið á sig mynd lénskerfis miðalda en við Íslendingar tókum einmitt aftur upp lénskerfi í sjávarútvegi árið 1990 sem síðan hefur gert margt fólk atvinnu-og eignalaust en fátt fólk alveg moldríkt. Þetta fáa en moldríka fólk hefur launað ofeldið með því að verða frekasta og forhertasta fólk landsins, þannig sannaðist hið fornkveðna um kálfinn. Þessu verðum við að breyta og það gerist ekki með einhverju pólitísku miðjumoði, eins og því sem okkur hefur verið boðið upp á á yfirstandi kjörtímabili.
Ég ætla ekki að rétta þeim hjálparhönd, pólitískt, sem eru eins og ég sjálfur og þurfa enga hjálp, þeir geta bara séð um sig sjálfir.
Ég held að fólk mætti gjarnan hugsa um kosningar líkt og það að ganga inn á skólalóð og skipa sér í lið; ætlarðu að taka þér stöðu með „stóru strákunum“ sem hirða allt nammið af litlu krökkunum?
…nei ég hélt ekki.