Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavíkurborg beiti sér gegn spilakössum

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Reykjavíkurborg samþykkir að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að engir spilakassar verði reknir í borgarlandinu vegna skaðseminnar sem hlýst af þeim. Fólk sem glímir við spilafíkn og aðstandendur þeirra hafa greint frá félagslegri, fjárhagslegri og andlegri skaðsemi spilafíknar. Því er lagt til að borgin geri allt sem hún getur til að banna spilakassa. Starfsemi spilakassa er heimiluð með lögum en í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er að finna sérstök ákvæði um staðsetningu spilasala. Lagt er til að Reykjavíkurborg nýti allar þær aðferðir sem hægt er að nýta með það að markmiði að koma spilakössum úr borgarrýminu. Reykjavíkurborg þrýsti á ríkið til að koma nauðsynlegum breytingum á, geri sjálf þær breytingar sem hægt er til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og hvetji þannig önnur sveitarfélög og opinbera aðila til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa. Öllum sviðum og ráðum borgarinnar verði falið að vinna saman að þessu markmiði þangað til lausn finnst. Velferðarsviði verði falið að leiða vinnuna.

 

Greinargerð

86% landsmanna vilja að spilakössum verði lokað til frambúðar, samkvæmt viðhorfskönnun Gallup sem var framkvæmd árið 2020 fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS). Í könnuninni kemur einnig fram að mjög lítill hópur landsmanna spili í spilakössum að staðaldri. Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar hér.

 

Skaðsemi spilakassa hefur komið fram í reynslusögum þeirra sem eru með spilafíkn. Þær reynslusögur má lesa inni á heimasíðunni lokum.is en Lokum er áverkniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleika um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Herferðin er á vegum SÁS, Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

 

Mikinn fróðleik má finna inni á vefsíðunni lokum.is en í grein Ölmu Hafsteinsdóttur sem heitir Er spilakassi í þínu hverfi? frá því í febrúar 2021 kemur fram að 872 spilakassar séu á Íslandi. Þar af eru 411 í Reykjavík. Mikil umræða hefur átt sér stað um rekstur spilakassa upp á síðkastið, má þar nefna að þann 25. mars 2021 lagði fulltrúi Flokks fólksins í borgarráði fram tillögu um endurskoðun á reglum og samþykktum vegna spilakassa með það að markmiði að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og skaðlegar afleiðingar slíks reksturs.

 

Í umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar með tillögunni kom m.a. fram að um rekstur spilakassa gilda lög nr. 38/2005 um happdrætti og lög nr. 13/1973 um happdrætti Háskóla Íslands. Í umsögninni kom einnig fram að Reykjavíkurborg hafi ekki sett sér reglur né samþykktir um rekstur spilakassa sem unnt væri að endurskoða með þeim markmiðum sem fram koma í tillögunni, enda væri um að ræða starfsemi sem er heimiluð með lögum.

 

Í umsögninni var bent á að í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri að finna sérstök ákvæði um staðsetningu spilasala og er einungis heimilt að reka slíka starfsemi á miðsvæðum og athafnasvæðum í Reykjavík. Tillögunni var vísað frá. Hér skal tekið fram að spilasalur merkir rými þar sem reknir eru fleiri en 4 spilakassar og rekstur spilakassa er aðal starfsemin sem þar fer fram. Hér má lesa umsögnina í heild sinni.

 

Í ljósi þess hve skaðleg áhrif spilakassar hafa er lagt til að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að starfsemi þeirra verði hætt. Ýmsir opinberir aðilar og félagasamtök hafa komist að þeirri niðurstöðu að starfsemi spilakassa hafi skaðleg áhrif og að við því þurfi að bregðast. Stjórn SÁÁ ákvað við lok árs 2020 að hætta þátttöku sinni í rekstri spilakassa. Þá styður Landlæknisembættið að bann verði lagt við rekstri spilakassa á Íslandi. Slíkt kom fram í umsögn embættisins um frumvarp tveggja þingmanna þar sem gert er ráð fyrir slíku banni. Hér má lesa umsögn embættisins.

 

Starfshópur um álitaefni tengd tekjuöflun Happdrættis HÍ skilaði niðurstöðum 28. júní 2021. Hér má lesa skjalið í heild sinni en þar kom m.a. fram „að viðhorf almennings til spilakassa er neikvætt og ætla má að gagnrýnisraddir verði sífellt háværari. Niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna sýna einnig fram á skýr tengsl milli spilavanda og notkunar spilakassa. Háskóli Íslands ber því að leggja áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við rekstur spilakassa með því að hvetja HHÍ til að taka sem fyrst nauðsynleg skref til innleiðingar spilakorta.“

 

Fulltrúi sósíalista ítrekar að öllum leiðum verður að beita gegn því sem veldur svo miklum skaða í samfélaginu. Því er lagt til að borgarstjórn taki þátt í baráttunni gegn spilakössum.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram