Framboð sósíalista í borginni – Kristbjörg Eva Andersen Ramos

Ritstjórn Sögur

“Ég heiti Kristbjörg Eva Andersen Ramos og verð 25 ára í sumar. Ég er barn innflytjanda og finnst öruggt að segja að það hafði áhrif á alla mína æsku, og gerir enn í dag. Móðir mín flutti alein hingað fyrir sirka 30 árum. Í heimalandi hennar, Ekvador beið 9 ára sonur hennar. Ástæða fyrir komu hennar til landsins var von um betra líf fyrir son sinn og sjálfa sig. Í heimalandinu bjó hún við sárafátækt og eina sem hún reyndi að gera var að vinna.

Fyrir 30 árum voru lítil atvinnutækifæri fyrir innflytjendur. Það var sífellt brotið á réttindum þeirra og þau mismunuð út frá litarhætti. Fordómar samfélagsins höfðu mikil áhrif á móður mína og ég fékk að heyra allar ljótu sögurnar. Mamma var lítið heima þegar ég var barn og var stöðugt að vinna. Það gerði hún af hræðslu við að lifa aftur í fátækt. Hún reyndi sitt besta við að veita mér og bróður mínum mannsæmandi líf.

Þessi kapítalíska mýta um að fólk þurfi að vinna bæði dag og nótt til að geta veitt fjölskyldu sinni hamingjusamt líf er orðin þreytt. Þrátt fyrir að mamma ynni bæði nætur og dagvaktir var alltaf peningavandamál á heimilinu. Foreldrar mínir rifust daglega, þau áttu ekki efni á mat, áttu ekki efni á að borga bílinn, höfðu ekki efni á a senda mig í íþróttir.

Í réttlátu og sanngjörnu samfélagi á það ekki að kosta foreldra blóð, svita og tár að veita og tryggja börnum sínum gott og öruggt líf. Þess vegna býð ég mig fram fyrir Sósíalistaflokkinn, til að berjast fyrir réttlátu og sanngjörnu samfélagi þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi.“

Kristbjörg Eva Andersen Ramos býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram