Framboð sósíalista í borginni – Sigrún Jónsdóttir

Sanna Sögur

„Ég er Vestfirðingur, frá Suðureyri við Súgandafjörð og ólst upp í hamingjusömu umhverfi sem í minningunni var ótrúlega umburðarlynt. Það var t.d. ekki gert mikið úr því hvar fólk var í pólitík eins og í sumum þorpunum þar í nágrenninu.

Síðan eins og allt landsbyggðarfólk, þurfti ég að fara í heimavistarskóla á unglingsárum og ég átti dásamlega vetur á Núpi í Dýrafirði. Ég á ennþá nokkra mjög góða vini frá Núpsárunum og reyndar eru margir af mínum bestu vinum frá uppvaxtarárunum.

Þegar ég var nítján ára, fór ég til Englands og var þar að mestu næstu fimm árin. Árið 1975 flutti ég heim með eiginmann og við settum upp heimili, fyrst í Reykjavík, svo á Kjalarnesi og loks á Akranesi, þar sem við bjuggum í 14 ár og líkaði vel en þar skildu leiðir okkar hjóna en við eigum tvo stráka saman.

Ég er í Sósíalistaflokknum og ég hef verið viðloðandi pólitík frá því ég var á Akranesi, fyrst gerði ég bróður mínum greiða og fór í framboð fyrir Þjóðarflokkinn, sem var framboð um jafnrétti milli landshlutanna, þá ætlaði landsbyggðin loksins að rísa upp að fara í baráttu fyrir sínum réttindum og vildu færa valdið heim í hérað ásamt þeim skatti sem fólkið þar greiddi. Þarna fékk ég bakteríuna, ég kynntist fólki úr allskonar pólitík, meðal annars Framsóknarmönnum sem voru óánægðir með sína flokksforystu. Í framhaldi af því sannfærði framsóknarfólk á Akranesi mig um að fara í framboð í bæjarstjórnarkosningum árið 1986.

Eftir skilnað flutti ég til Reykjavíkur en leitaði áfram til framsóknarmanna eftir pólitískum félagsskap þar var ég starfandi í nokkur ár og m.a. var ég formaður í Framsóknarfélagi Reykjavíkur í ein 6 ár minnir mig en ég sá loksins að stefnan var ekki í mínum anda, framapot einstaklinga sem nýtti sér lágan metorðastiga flokksins var yfirgengileg. Ég yfirgaf þann flokk, nánast með hurðaskellum og sendi þeim alveg svakalegt skammarbréf, bæði þingflokki og borgarfulltrúum og sagði bless. Éf hef verið mjög leitandi eftir það.

Á tímabili hélt ég að Samfylkingin gæti þjónað mínum pólitísku viðhorfum og enn þann dag í dag er Oddný Harðardóttir, minn uppáhalds þingmaður á þingi. En svo var Sósíalistaflokkurinn stofnaður og þá vaknaði mitt sósíalíska hjarta og er glaðvakandi í dag.

Í Sósíalistaflokknum er flott fólk með sömu hugsjónir og ég og þar líður mér vel.

Ég hef líka verið í verkalýðsbaráttunni, var m.a. í stjórn verkalýðsfélags Akraness í nokkur ár og minn besti vinur í viðleitni minni til að berjast fyrir og með verkalýð á Akranesi var Bjarnfríður Leósdóttir sem Alþýðubandalagsmenn komu út úr stjórn ASÍ með látum og leiðindum einhverjum árum áður. Miðað við hvað ég hef verið vinstri sinnuð á fullorðinsárum þá hefur mér aldrei dottið í hug að kjósa Alþýðubandalag eða VG því þeir hafa ekki reynst baráttuafl fyrir fátæka og fólk í láglaunastörfum, en þar staðset ég mig.

Ég var sjúkraliði og elskaði starfið mitt en varð því miður að hætta vegna veikinda. Þegar ég kom suður var ég virk í Sjúkraliðafélaginu, tók að mér ýmis verkefni en ég var alltaf óánægð með baráttuna þar. Mér fannst lenskan vera sú, ekki bara hjá Sjúkraliðafélaginu, heldur líka annars staðar, að þeir seldu áunnin réttindi sem var búið að berjast fyrir eins og frírétti vegna hátíðarálags. Að mínu mati hefðum við ekki átt að gera það. Mér finnst að við hefðum átt að berjast fyrir mannsæmandi launum en ekki selja áunnin réttindi fyrir nokkrar krónur. Ég sem einstæð móðir með tvö börn gat til dæmis ekki framfleytt minni fjölskyldu á sjúkraliðalaunum.

Í dag er ég kona á eftirlaunum og er svo heppin að vera í íbúð hjá Félagsbústöðum annars væri fjárhagsstaðan mun verri.“

Sigrún Jónsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram