Framboð sósíalista í borginni – Geirdís Hanna Kristjánsdóttir

Ritstjórn Sögur

„Hæ ég heiti Geirdís Hanna Kristjánsdóttir og er 47 ára launþegi hjá almannatryggingakerfi ríkisins síðan 2008, en það hefur ekki stoppað mig í að reyna vera á vinnumarkaði, því ég vil leggja mitt af mörkum í samræmi við starfsgetu. Ég er í námi til viðurkennds bókara sem lýkur næsta vetur.

Ég er fædd og uppalin á Siglufirði en flutti þaðan til Akureyrar á fjórtánda aldursári mínu, þar sem ég bjó til 2018 þegar leið mín lá til Reykjavíkur.

Ég er fædd og uppalin í fátækt og hefur það litað líf mitt á margan hátt, ég hef fætt 4 börn en vegna aðstæðna gaf ég yngsta barnið til ættleiðingar, til að það gæti átt möguleika á betra lífi en ég gat veitt því. Fátækt og sérstaklega langvarandi fátækt hefur margar og erfiðar afleiðingar, ég hef þurft að fórna eigin heilsu til að geta séð börnunum mínum farborða, og er það algerlega óásættanlegt í jafn ríku þjóðfélagi og við búum í.

Ég hef alla tíð haft mikla réttlætiskennd og er það megin ástæða þess að ég fór að taka þátt í baráttu þeirra sem eru undir í þjóðfélaginu. Ég hef starfað með Pepp – Samtökum fólks í fátækt, er búin að vera í málefnahóp um kjaramál hjá ÖBÍ um nokkurra ára skeið og sit í stjórn EAPN (European anti poverty network).

Ein megin ástæða þess að ég flutti til Reykjavíkur 2018 var að Keiluhöllin á Akureyri var rifin og hvorki bæjaryfirvöld eða íþróttafélagið sem við æfðum undir, vildu hjálpa okkur við að koma upp æfingaaðstöðu. Ég hef aldrei verið mikil íþróttakona en fann mitt sport þegar ég fór að æfa keilu, því var mjög erfitt að missa æfingaaðstöðuna. Í dag sit ég í stjórn keiludeildar ÍR og stjórn KLÍ (Keilusamband Íslands).

Ég bý í hjólhýsinu mínu í Laugardalnum og hef verið hér síðan sumarið 2020, og er það mér mikið hjartans mál að komið verði upp skipulögðu svæði fyrir fólk sem kýs þessa óhefðbundnu búsetu. Við sem kjósum að búa á þennan hátt getum hvergi haft lögheimili sem skerðir réttindi okkar á ýmsan hátt. Það eru ekki allir sem vilja búa í steinsteypu og mér finnst mjög mikilvægt að komið sé til móts við þá sem kjósa óhefðbundið búsetuform. Við þurfum ekki öll að passa í sama formið.

Það er í mörg horn að líta og meðal annars finnst mér kerfið of þungt og flókið, sem leiðir til þess að margt fólk dettur á milli kerfa því það passar hvergi inn. Það vantar meira samráð við notendur þjónustunnar, mér finnst of oft að kerfin séu smíðuð með allt annað í huga en að þjónusta þá sem þurfa að nota hana.

Hver er betur til þess fallinn að meta gæði þjónustunnar en einmitt sá sem notar hana?“

Geirdís Hanna Kristjánsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram