Framboð sósíalista í borginni – Halldóra Hafsteinsdóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir og ég er 52 ára. Ég er langyngst af systkinum mínum, var örverpið sem var óalandi og óferjandi af því það skildi enginn hvernig ég hegðaði mér, ég var svona umskiptingurinn í fjölskyldunni en komst svo að því seinna að það er af því ég er einhverf. Ég var svona svolítið dónaleg og sagði það sem mér fannst, það var ekki vinsælt. Ég skildi voða sjaldan fólkið í kringum mig en var mjög hrifin af dýrum og tengdist þeim og hlutunum mínum alltaf mun betur en fólki.

Ég ólst upp í Vesturbænum, fór fyrst í Melaskóla, svo í Vesturbæjarskólann og svo var ég send í sveit af því ég var svo óþekk. Mér gekk mjög vel í skóla alveg þangað til ég þurfti að fara að skipuleggja mig mikið. Það kom líka seinna í ljós að ég er með ADHD sem útskýrði margt.

Ég var í Hagaskóla og fór svo í MH og útskrifaðist þaðan af náttúrufræði- og eðlisfræðibraut. Flestir sem voru vinir mínir í skólanum voru alveg búin að ákveða hvað þeir ætluðu að gera í framtíðinni, en ég ákvað í röðinni í innskráningu í háskólanum að fara í verkfræði. Ég var í eitt ár í verkfræði og svo skipti ég yfir í tölvunarfræði.

Mamma mín var 47 ára þegar hún átti mig, pabbi minn lést þegar ég var sex ára. Mamma var í láglaunastarfi og ég byrjaði að borga heim þegar ég var fjórtán ára og var því alltaf að vinna með skólanum. Þegar ég var komin í verkfræðina og tölvunarfræðina þá virkaði það ekki alveg lengur og tók ég mér því frí frá skólanum. Fríið frá námi varði alveg í ellefu ár en loks ákvað ég að fara í rafeindavirkjun og var að vinna með því líka. Það og samblandan af ADHD gerði það að verkum að það var frekar erfitt að stunda fullt nám. Ég fékk eiginlega alveg nóg og ákvað að skipta yfir í stærðfræðikennarann í Kennaraháskólanum. Svo var ég óvænt ólétt og missti þar að auki móður mína. Þetta var árið sem Ísland hrundi og fór á hausinn.

Ég var atvinnulaus í svolítinn tíma eftir hrunið af því ég hafði verið að vinna í vaktavinnu og það hentaði ekki einstæðri móður. Ég fékk svo loksins vinnu í skólakerfinu sem var ekki sérlega vel borguð, þrátt fyrir að vera eitt mikilvægasta starfið. Ég hef raunverulega ekkert náð mér upp úr skuldum síðan þá. Ég á einhverfan krakka og hef ekki geta unnið utan hefðbundins vinnutíma.

Ég var ekki í sérlega góðri aðstöðu til að leggja fyrir, en hafði svo sem aldrei vanist því, enda fóru launin helst í að kaupa mat. Ég var orðin aðeins eldri og bankinn minn bauð mér kreditkort með yfirdráttarheimild og mér fannst það frábært. Ég áttaði mig engan veginn á því hvernig þetta virkaði og maxaði yfirdráttarheimildina mína. Svo var ég ekki með það mikil laun til þess að geta borgað það niður og hef einhvern veginn alltaf rúllað þessu áfram. Þegar hrunið kom og ég varð atvinnulaus í fjögur ár þá náði ég svo ekki lengur að rúlla þessu áfram.

Núna fæ ég reglulega skemmtileg innheimtubréf um að nú sé lag, geti ég nú greitt upp skuldina mína og fengið afslátt af vöxtunum, mér finnst það alltaf jafn fyndið eins og ég sé með einhverjar fjórar milljónir í rassvasanum. Þegar maður er kominn á þann stað að fara á vanskilaskrá þá er eina leiðin að gera sjálfan sig gjaldþrota ef að lánardrottnarnir ætla ekki að gera það og manneskja sem er komin á vanskilaskrá hefur ekki þessi hundruð þúsunda til að gera sjálfan sig gjaldþrota þannig að þetta rúllar bara áfram og þú ert bara fastur.

Þú getur safnað þér fyrir ódýrum hlutum og keypt þér, ef þú ætlar að reyna að safna þér fyrir dýrari hlutum þá eru þeir bara teknir af þér, þannig að maður er bara fastur, alveg sama hvað þú gerir. Ég var komin á atvinnuleysisbætur og þá ertu ekki að borga fyrir að halda barninu þínu uppi, borga leigu, kaupa mat og borga af einhverjum skuldum. Ég fór til umboðsmanns skuldara og fékk að heyra að það væri ekki hægt að hjálpa mér af því ég gat ekki borgað nógu mikið á mánuði til þess að það væri hægt að semja við bankann. Áfram fæ ég regluleg rukkunarbréf og ég er á vanskilaskrá. Ég keypti mér ódýran bíl á 100 þúsund kall, ég hef allavegana fengið að eiga hann og svo leigi ég.

Eftir að mamma dó, þá þurftum við að selja íbúðina, þá fór ég á almennan leigumarkað og er eiginlega fegin að ég er ekki á honum núna, þetta var fyrir ellefu árum og ég fann íbúð en ég var með árs samning og svo þegar það var endurnýjað þá fékk ég að vita að íbúðin var komin á sölu og hún var sýnd svona þrisvar sinnum í viku og ég vissi aldrei hvenær ég fengi þriggja mánaða uppsagnarfrest. Af því ég á fatlað barn, þá fékk ég að komast fyrr í röð hjá Félagsbústöðum sem betur fer og mér var boðin íbúð og er þar núna og það skiptir öllu máli fyrir geðheilsuna að vera með öruggan stað til að búa á, það er ekkert verra en að vita það að þú getur hvenær sem er misst húsnæðið. Ég er ótrúlega fegin að hafa örugga langtímaleigu.

Húsnæði þarf að vera á því verði þannig að fólk hafi efni á því að lifa, það á ekki að vera þannig að þú borgar leiguna þína eða húsnæðið og þá hefurðu ekki einu sinni efni á mat út mánuðinn. Það þarf líka að laga skólakerfið, skóli án aðgreiningar virkar ekki vel, það þarf að koma meiri þekking frá fólki sem hefur þekkinguna inn í skólakerfið frekar heldur en fólkið sem hefur lært hana utan frá.

Ég hef mikinn áhuga á að reyna að koma rödd einhverfra á framfæri, ekki bara rödd fagfólks eða fólks sem er búið að ganga í gegnum nám að læra hvað einhverfa er. Ég vil koma okkar rödd á framfæri, það eru grunnhlutir sem við eigum sameiginlegt sem erum einhverf þó við séum eins ólík og fólk er ólíkt.“

Halldóra Hafsteinsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram