Framboð sósíalista í borginni – Heiðar Már Hildarson

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Heiðar Már Hildarson og er 20 ára gamall, ég er fæddur og uppalinn í Breiðholti. Ég er framhaldsskólanemi og er að klára viðskipta- og hagfræði. Ég er stúdent í afreksíþróttasviði í handbolta.

Ég ólst upp í fátækt ásamt móður minni og bróður mínum sem er 9 ára gamall í dag. Mamma er í dag öryrki en hún hefur lengi þurft að reiða sig á aðstoð hjálparstofnana til að sjá fyrir okkur þremur. Hún hefur í raun aldrei haft neitt á milli handanna, en hefur reynt sitt besta til að láta hvorki mig né bróðir minn finna fyrir því.

Ég hef alist upp allt mitt líf í fátækt og þekki ekki annað en það var ekki móður minni að kenna heldur aðstæðum okkar. Hún er mér allt og er allt sem ég á.

Ég vil byrja á því að segja hvað ég dáist að fólki eins og henni móður minni. Móðir mín hefur leitað allra leiða til að búa okkur til betra lífs og ég er svo ótrúlega stoltur af henni og hvað hún hefur lagt á sig til að koma mér þangað sem ég er í dag.

Faðir minn hafnaði mér strax í móðurkviði. Mamma hefur því þurft að gegna hlutverki beggja foreldra sem er áskorun að mörgu leyti og ekki síst fjárhagslega þar sem hún hafði bara sínar lágu tekjur til framfærslunnar. Það eina sem við höfum fengið frá honum er meðlagið í gegnum TR, ekkert annað, ekki fjármuni, afmælis eða jólagjafir og alls ekki athygli, umhyggju, stuðning eða annað sem eðlilegt gæti talist. Við áttum ekki sterkt bakland.

Þegar ég var yngri bað ég oft um hitt og þetta en mamma sagði yfirleitt að það væri ekki hægt.

Það var mjög sárt og ég var oft dapur og leið illa. T.d þegar ég átti afmæli, þá átti maður sínar óskir og drauma um hvað mann langaði í afmælisgjöf.

Við fórum nánast aldrei í bíó eða neitt annað sem kostaði peninga en ég lærði í staðinn að meta hlutina. Við fórum aldrei í sumarfrí eins og aðrar fjölskyldur í kringum mig, hvað þá að fara til útlanda eða ferðast saman og skapa minningar.

Ég man vel og mun aldrei gleyma, hve ísskápurinn var oft tómur eða lítill matur til. Mamma mín passaði samt alltaf að ég fengi eitthvað að borða, þá fékk hún sér minna eða ekkert sjálf. Það var mjög sárt og erfitt að vita af því. Móðir mín hélt að ég vissi ekkert, en ég vissi. Hún reyndi samt allt til að láta mig ekki finna fyrir neinu. Málið er bara að við börnin vitum svo miklu meira um stöðuna en foreldrar halda.

Frá barnsaldri fékk mamma notuð föt á mig, ég fékk aðallega af frænda mínum og frá Hjálparstarfi kirkjunnar en svo fékk ég yfirleitt ný föt í afmælisgjöf eða jólagjöf.

Ég byrjaði að æfa íþróttir þegar ég var 7 ára, ég er enn að í dag. Ég spila handbolta með meistaraflokknum í Fjölni. Ég vissi samt ekki fyrr en fyrir stuttu síðan að mamma hefði samið við íþróttafélagið um að fá að borga lægri gjöld. Hún sagði mér það fyrir bara nokkrum árum og mér fannst fyrst frekar óþægilegt að heyra það. En ég er samt svo stoltur af henni að hafa náð að gera þetta því fyrir vikið hef ég haldið mig á beinu brautinni og það er henni að þakka.

Þegar ég varð 18 ára gamall, breytist lífið snögglega. Ég varð sjálfráða og fjárráða sem ætti að vera ákveðið tilhlökkunarefni en hjá mér var það bara alls ekki. Málið er að móðir mín býr í leiguíbúð í eigu Félagsbústaða. Hún fær húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur vegna aðstæðna og svo fær hún heimilisuppbót hjá TR. Við skiluðum inn staðfestingu á að ég væri í skóla þegar ég varð 18 ára svo að hún fengi þessar bætur áfram en svo var ég svo heppinn að ég fékk vinnu með skólanum og fór að fá tekjur. Ég stóð mig vel í vinnu og mátti vinna þar áfram í sumarfríinu og fékk þá laun sem ég gat nýtt fyrir skólann og leyft mér að kaupa mér fáeina hluti. En þá fékk mamma lækkun á húsnæðisbótum og heimilisuppbót af því að sambýlismaður hennar er með tekjur!! Ég sem er barnið hennar, ekki sambýlingur og ég sem er í skólanum að reyna að skapa mér betri framtíð, er þetta bara í lagi!

Á endanum varð ég að flytja lögheimilið svo að mamma myndi ekki missa heimilið okkar og enda á götunni!!

Þessi lífsreynsla er okkur afar sársaukafull fyrir okkur bæði.

Hvað finnst mér að mætti betur gera og þarf að breyta?

Það þarf að styðja betur við einstæða foreldra. Einnig þarf að tryggja það að öll börn fái sömu tækifæri sama hver fjárhagsstaða foreldra er. Öll börn eiga rétt á að geta verið í frístund, æft íþróttir og öll börn eiga rétt á því að alast upp áhyggjulaus. Einnig þarf að breyta því að tekjur barna sem ná 18 ára aldri hafi áhrif á fjárhagsaðstoð foreldra. Það er alls ekki í lagi að barn sem er að mennta sig og ákveður að vinna örlítið með skóla þurfi að hafa áhyggjur af því að það hafi áhrif á fjárhag foreldris.

Fátækt er mannskemmandi og ætti ekki að vera til!!“

Heiðar Már Hildarson býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram