Framboð sósíalista í borginni – Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Jóna Guðbjörg Torfadóttir og er rétt liðlega fimmtug (það hljómar mun betur en að vera á sextugsaldri, sem ég þó sannarlega er). Ég ólst upp í verkamannafjölskyldu. Mamma var heimavinnandi húsmóðir og pabbi var lengst af sjómaður en dreif sig síðan í land og gegndi þá hafnarvörslu. Við höfðum það nokkuð gott en pabbi þurfti líka að hafa fyrir því, hann vann frá morgni til kvölds og sá mamma alfarið um öll heimilisverk.

Ég bý með eiginmanni mínum, unglingi og ýmsum dýrategundum öðrum í miðbænum og starfa í dag sem kennari. Menntamál eru mér því ofarlega í huga en þar er víða pottur brotinn. Í lögum um grunnskóla kemur skýrt fram að skóli skuli vera án aðgreiningar en falleg orð duga skammt ef ekki fylgir fjármagn til að fylgja þeim eftir svo að vel sé. Á það hefur skort.

Það væri ágætis byrjun að meta starf kennara að verðleikum og að það endurspeglist í kjörum þeirra. Með því móti leitar fært fagfólk síður annað. Þá þarf að fækka nemendum í bekkjum, til að unnt sé að koma við einstaklingsmiðaðri kennslu, og til að draga úr álagi á kennara en kulnun í starfi er orðin óþarflega algeng í kennarastéttinni. Kennari með smærri nemendahópa á einnig auðveldara með að fylgjast með líðan nemenda og sérþörfum. Þá er nauðsynlegt að efla alla stoðþjónustu svo að þeir nemendur sem þess þurfa fái nauðsynlegan stuðning til að sinna náminu sem skyldi. Enn fremur er aðkallandi að börn líði ekki fyrir bágan efnahag foreldra eða forráðamanna, með því m.a. að tryggja öllum gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Ég er félagi í sósíalískum femínistum og brenn fyrir það málefni. Miðað við öll þau ofbeldismál sem komið hafa upp í þjóðfélaginu sýnist mér full þörf á að fræða ungdóminn betur og hefja þá fræðslu snemma. Áfangar í kynjafræði ættu að vera skylda á grunnskólastigi og jafn þarft að þau sem það kenna séu með tilhlýðilega menntun á því sviði.

Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagins og það hvernig tekst til getur skipt sköpum fyrir framtíð nemandans. Þeim peningum sem veitt er í skólakerfið er því vel varið.“

Jóna Guðbjörg Torfadóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram