Framboð sósíalista í borginni – Sindri Eldon

Ritstjórn Sögur

„Ég er 35 ára verktaki og faðir, fæddur og uppalinn í Vesturbænum. Ég trúi að Reykjavík sé kjörinn vettvangur til að útfæra kjarnahugmyndir sósíalisma um jafnrétti, aðgengi og betra samfélag sem allir geta notið góðs af, ríkir sem fátækir. Ég er óvinur einkabílsins, og vil sjá Reykjavík græða og grænka með aukinni áherslu á almenningssamgöngur og gönguvæðingu, og vill sjá aukinn stuðning veittan til allra opinberra stofnana, sérstaklega skóla.

Eins og svo margir af minni kynslóð, byrja ég að aðhyllast sósíalisma tiltölulega seint á lífsleiðinni, nánar tiltekið 2015. Ég var búsettur í Bandaríkjunum og orðræða Bernie Sanders hreif mig mikið. Hér var í fyrsta skipti á minni æfi mættur stjórnmálamaður sem talaði opinskátt um þann gríðarlega skaða sem misskipting auðlinda veldur, einhver sem talaði fyrir almenning. Það skipti mér í rauninni litlu máli hvort hann væri sósíalisti eða ekki; hann var einfaldlega að segja hluti sem meikuðu sens.

Nokkrum árum seinna sekk ég djúpt ofan í skrif hins fráfallna Mark Fisher, sem leitaðist heldur ekki eftir neinum sérstökum stað á pólitíska skalanum, hægri eða vinstri, en ratar náttúrulega á sósíalisma sem móteitur gegn skaðanum sem nýfrjálshyggja hefur ollið á okkar samfélagi.

Þegar konan mín varð ólétt 2018, þurftum við hjónin ekki að íhuga málið lengi eða ræða það neitt okkar á milli – stefnan var tekin aftur til Íslands, enda auðsjáanlega mun betri og auðveldari staður til að ala upp barn. Í Bandaríkjunum er nánast engin sósíalísk stoð undir húsnæðis- og heilbrigðismálum, og hefur nýfrjálshyggja gert það að verkum að engin leið er fyrir fólk til að standa í barneignum nema að falla ofan í djúpa, djúpa skuld sem hefði tekið okkur alla æfi að grafa okkur út úr.

Hér á Íslandi er enn vottur af sósíalísku kerfi sem foreldrar hafa sér til stuðnings: tiltölulega löng barneignarleyfi, niðurgreidd dagvist og leikskólar, ókeypis heilsugæsla fyrir börn o.s.frv. Því verr og miður hafa valdaflokkarnir á Íslandi tekið sér nýfrjálshyggjuna vestanhafs til fyrirmyndar, og staðið í kerfisbundnu niðurrifi á þessari nauðsynlegu undirstoð síðustu áratugi.

Þetta þykja mér hin verstu mistök, því allt það góða sem Ísland hefur, höfum við vegna langstæðs samþykkis um þá skoðun að það að ala upp barn er eitthvað heilagt, eitthvað sem allir ættu að njóta skilyrðislauss stuðnings í, og að allir – börn og fullorðnir – ættu að geta notið aðgengis að því sem þeir vilja og þurfa til að lifa góðu lífi. Þetta virðist kannski sjálfsagt sjónarmið, en fyrir mér er þetta í kjarna sínum sósíalismi – sú hugmynd að með því að styrkja samfélagið, styrkirðu eigið heimili, fjölskyldu og framtíð.

Það hefur lengi ollið mér – og sennilegast öðru vinstrifólki – gremju hversu litla pólítíska samstöðu vinstrið virðist alltaf sýna. Endalaust virðist bætast í flóru vinstriflokkana hérlendis og erlendis, og ósamstaða Demókrata vestanhafs er við það að kljúfa flokkinn, meðan íhaldsmenn og hægriflokkar hópast allir hlýðnir undir sömu örfáu hattana. Þetta tel ég vegna þess að það er auðvelt að selja fólki fortíðina – það vita allir hvernig hún lítur út – á meðan að þeir flokkar sem sækjast eftir breytingum hafa allir mismunandi sýn á hvernig á að útfæra þá framtíð.

Lengi vel hefur nýfrjálshyggjan selt okkur þá mýtu að sósíalismi sé gallað konsept, eitthvað sem virkar bara á pappír, en geri síðan auð leið að spillingu og misrétti. Hérlendis og erlendis tilkynntu kapítalistar að fall Sovétríkjanna væri í raun fall sósíalisma, og að það fall jafngildi þeirri „staðreynd“ að nýfrjálshyggjukapítalismi væri eina raunverulega stjórnarfyrirkomulagið í heiminum. Þetta mötuðu þjóðarleiðtogar okkur með í áratugi, meðan þeir stóðu sjálfir í fégræðgi, spillingu og misrétti af slíku tagi sem heimurinn hefur aldrei séð áður. Við lifum á ójöfnustu tímum mannkynssögunar, þar sem auðkýfingar hafa bókstaflega kost á því að fljúga til geimsins, meðan að óteljanleg mannhöf fólks geta ekki einu sinni tryggt sér drykkjarvatn laust við eigin saurgerla.

En við lifum líka á spennandi tímum. Það er að eiga sér stað uppvakning um allan heim: sú enduruppgötvun að það hefur alltaf verið til heildstæð vinstrisinnuð sýn á framtíðinni, hún hefur bara verið kæfð niður með áróðri frá hagsmunaaðilum sem eiga öll okkar dagblöð og fréttastöðvar. Meðan að aðrir svokallaðir „vinstriflokkar“ gúddera nýfrjálshyggju og daðra við einkavæðingu innviða, er aðeins eitt almennilegt andsvar við kapítalisma, og það er sósíalismi – stefna sem mótast af fólkinu sjálfu.

Því ég vill meina að kapítalismi sé í raun gallað konsept, voðalega fallegt á pappír, kannski – allir frjálsir til að gera hvað sem er, svo lengi sem þeir eiga efni á því – en sagan hefur kennt okkur aftur og aftur og aftur að það eina sem gerist er aukin misskipting auðs. Kerfi hannað og viðhaldið af þeim ríku mun að sjálfsögðu bara efla þá ríku, en ef við hlustum á þá sem minnst mega sín í okkar þjóðfélagi, er óhjákvæmilegt að hér myndist eitthvað sem fellur undir það ómetanlega hugtak „gott samfélag“ – umhverfi þar sem fólki líður vel og á auðvelt með að lifa, og er frjálst til að gera það sem það vill við líf sitt.

Þetta er viðkvæm hugmynd, vissulega, erfið í fæðingu, en ekki flókin. Við þurfum bara að kjósa stjórnmálafólk sem hlustar á fólk, hlustar á þá sem minnst mega sín, og það er það sem ég heiti á að gera: hlusta á þig og tala fyrir þig. Ef þú býrð í Reykjavík og ég bý í Reykjavík, græðum bæði ég og þú á samfélagi sem gerir líf okkar betra. Við erum hagsmunaaðilar hvors annars.“

Sindri Eldon býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram