Framboð sósíalista í borginni – Silva Skjalddal

Ritstjórn Sögur

„Silva Skjalddal heiti ég og er 23 ára gömul. Ég er sjálfboðaliði hjá Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt ásamt því að vera í atvinnuleit og að vinna í sjálfri mér. Ég er uppalin í Breiðholti en bý núna á Kjalarnesi í foreldrahúsum. Þegar ég var að alast upp þá bjuggum við fjölskyldan við fátækt. Ég er yngsta barn foreldra minna og á þrjá eldri bræður. Foreldrar mínir gerðu allt sem þau gátu fyrir okkur en það kom oft upp á að ég fann það á mér að ekki voru til peningar, ég man til dæmis eftir því að ég fékk oft notuð föt frá bræðrum mínum. Foreldrar mínir komust sem betur fer út úr fátæktar gildrunni og ég er ótrúlega ánægð fyrir þeirra hönd, að horfa uppá foreldra sína með stöðugar áhyggjur af fjármálum er mjög erfitt.

Þegar ég var barn lenti ég í einelti og tók það mig tíma að vinna úr því. Það var oft mjög erfitt í grunnskóla, mér leið rosalega illa í skólanum m.a. af því að ég fékk ekki þá aðstoð sem ég í raun þurfti á að halda vegna lestrarörðugleika og á endanum hætti ég að vilja mæta. Mér finnst að það þurfi að vera meira um forvarnir og fræðslu í grunnskólum vegna eineltismála, einelti er samfélagsmein og það er ósk mín að einn daginn getum við búið í samfélagi sem er upplýst og laust við einelti.

Eins og ég nefndi þá bý ég hjá foreldrum mínum. Ég hef mikið hugsað til húsnæðismála undanfarið. Húsnæðismarkaðurinn í Reykjavík hræðir mig þar sem fasteignaverðið og leiguverðið í dag er engum bjóðandi. Ég er heppin að geta verið hjá foreldrum því ef ég þyrfti að vera á leigumarkaðinum þá gæti ég engan veginn safnað fyrir útborgun. Það er nánast ómögulegt fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð í dag. Leiguverð er svo hátt að fólk nær ekki að safna sér aukalega og svo er fasteignaverð svo hátt og því nær fólk ekki að kaupa sér nema með hjálp. Mér skilst að sumir nái að redda sér með því að fá lán frá nokkrum fjölskyldumeðlimum til þess að geta keypt íbúð en það eru ekki allir sem hafa slíkt úrræði.

Vinir mínir eru margir í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli þess að mennta sig eða kaupa fasteign því launin og húsnæðismarkaðurinn bjóða einfaldlega ekki upp á að gera hvorutveggja. Það þarf að styðja svo miklu betur við ungt fólk sem er að reyna að kaupa sér sína fyrstu íbúð og fasteignaverð verður að lækka en einnig þarf að lækka leiguverð á íbúðum því eins og staðan er þá kemst unga fólkið ekki úr foreldrahúsum. Það þarf að vinna betur um, með og fyrir ungt fólk í dag, sérstaklega þau okkar sem koma úr fátækt og skortir bakland og stuðning til að geta blómstrað í lífinu. Fátækt er meinsemd og skaðvaldur í okkar ágæta samfélagi.

Ég er í framboði því það þarf eitthvað að breytast í þessu þjóðfélagi. Börn eiga að geta átt sér áhugamál og stundað tómstundir óháð fjárhagsstöðu foreldra.“

Silva Skjalddal býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík #xJ

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram